Bull, lygi, blekkingar og hagræðing á sannleikanum eru orðin sem mest eru notuð í dag til að hrekja eitthvað sem viðkomandi er ekki sammála. Nánast aldrei er vísað í frumheimildir og fáir nenna að hafa fyrir því að leita uppi frumheimildirnar. Það virðist sem það sé langbest fyrir alla að halda til streitu einhverjum staðreyndum og pikka upp þau rök sem henta þeim tilfinningum sem viðkomandi hefur fyrir þessu eða hinu máli. Þannig virðist hver stjórnmálahreyfingin á fætur annarri falla í þessa gryfju aftur og aftur. Þær gefa í leiðinni til kynna að innan þessarar hreyfingar sé ekki mikil von til þess að verðandi þingmenn vinni vinnuna sína inni á Alþingi, þar sem mestu skiptir að geta tekið utan gögn málsins, sett sig inn í og krufið þau til mergjar. Það er einmitt sá hæfileiki sem mestu skipti fyrir stjórnmálamenn sem virkilega vilja vinna samfélaginu gagn en ekki bara komast til valda.
Hér er lítið dæmi frá síðastliðnum fimmtudegi þar sem fámennur hópur manna hélt fram hlutum um byggingu betri spítala á betri stað sem standast enga skoðun. Fáir frá stjórnmálaflokkunum virðast hafa haft fyrir því að kynna sér þessi mál til hlítar. Sumir endurtóku hluta rangfærslnanna og létu sem þeir hefðu kynnt sér málið. Sennilega er því um að kenna að þeir eru vanir því að enginn geri athugasemdir við léleg vinnubrögð þeirra.
Í lok þessarar greinar er tilvísun í frumgögn vegna þessara mála þar sem það á við. Það sem þarf að spyrja um í framhaldi af þessari grein er ekki hvar spítali eigi að vera, heldur hvernig standi á því að menn taki sig til og setji svona hluti fram algerlega án þess að þurfa nokkru sinni að bera ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna. Einnig hvernig standi á því að sumir stjórnmálaflokkar láti blekkjast og taki gögn svona hóps sem sannleik og endurbirti þau orðrétt, jafnvel sem kosningaáróður, án þess að nokkur innan flokksins hafi haft fyrir því að kynna sér gögnin nánar. Þetta á jafnvel við um flokka sem gefa sig sérstaklega út fyrir upplýsta umræðu.
Árið 2015 birtu samtökin sem kalla sig betri spítala á betri stað samantekt um kosti þess að byggja ekki við Hringbraut og lögðu jafnframt fram kostnaðarútreikninga sem sýndu sparnað upp á um 100 milljarða á 20 ára tímbili (1A) við að byggja á besta stað. Síðar eftir athugasemdir frá KPMG lögðu þeir fram aðra kostnaðaráætlun sem var engu skárri (1B). Eftir það sendu þeir síðan nýrri fjárlaganefnd enn eina samantektina byggt á gömlu kostnaðaráætluninni (2). Og síðastliðinn fimmtudag notuðu þeir svo tölur úr fyrstu kostnaðaráætluninni aftur.
Eftirfarandi eru fullyrðingar frá samtökunum. Þriggja tíma google yfirlega eitt kvöldið auk nokkurra fyrirspurna í tölvupósti nægði til að átta sig á því að nánast allt sem komið hefur frá þessum hóp er rangt. Hér að neðan er einungis tæpt á hluta þessara fullyrðinga.
Ath. Rétt staðreynd er unnin upp úr frumheimildum (sjá neðst) og merkt ✓ í „Rétt dálkinum“. Ef ártal er fyrir framan fullyrðinguna er það vegna þess að viðkomandi fullyrðing á við það ár.
Vegna ofangreindra fullyrðinga þessara samtaka hefur þurft að leggja í tugmilljóna kostnað, t.d. eftirfarandi:
- Kostnaður við nýtt mat skipulagsstofnunar á áætluðum byggingartíma nýs spítala
- Kostnaður við nýtt kostnaðarmat KPMG
- Kostnaður við tíma ráðherra og aðstoðarmanna þeirra
- Kostnaður við fundi fjárlaganefndar
- Kostnaður við fundi stjórnmálaflokka og tímaeyðslu einstaklinga sem að þeim umræðum komu
- Kostnaður við tíma sveitastjórnamanna
- Kostnaður vegna viðtala í útvarpi og sjónvarpi
- Kostnaður starfsmanna nýs spítala við að svara endurtekið þessum áróðri
Að mínum dómi er nánast ekki að marka eitt einasta atriði sem komið hefur frá þessum hópi. Ég hef hér að ofan vísað í frumheimildir máli mínu til stuðnings. Ég hvet lesendur til að kafa sjálfa ofan í málin í stað þess að trúa því sem aðrir (þar á meðal ég ) segi ykkur. Þannig og eingöngu þannig getum við komið almennilegu lýðræðissamfélagi á laggirnar á íslandi.
Spurningin eftir lestur þessarar greinar á ekki að vera staðsetning spítalans, hún er löngu ljós, heldur hvernig getum við sem þjóðfélag farið að ræða málefnin á vitrænum grunni en ekki með upphrópunum, staðreyndavillum og tilfinningalegri móðursýki yfir staðreyndum sem ekkert er að marka.
Við verðandi þingmenn get ég ekki sagt annað en: „farið nú að vinna vinnuna sem þið eigið að vinna, þannig og eingöngu þannig getið þið farið að ávinna ykkur aftur traust þjóðarinnar“, „traustið fæst ekki keypt með ömurlegum slagorðum eða loforðaflaumi rétt fyrir hverjar kosningar“.
Höfundur er líffræðingur, vísinda- og uppfinningamaður.
B) https://drive.google.com/file/d/0B6H4wZqyQeY3N0tFR1BoazBrMzA/view
- http://www.mbl.is/media/13/10113.pdf
- http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP49528
- http://www.nau.rn.dk/~/media/Kampagner/NAU/Luftfoto/Oversigtsbilled%20med%20flyttet%20Helipad.ashx Aalborg
- http://www.godtsygehusbyggeri.dk/Byggeprojekterne/~/media/Hospitals/RG/Etape%201%20%20%203.ashx Vest, Gödstrup
- http://www.dnu.rm.dk/byggeriet/prasentationer/tegninger-og-illustrationer/ Aarhus
- http://www.godtsygehusbyggeri.dk/Byggeprojekterne/~/media/Hospitals/USK/Fugleperspektiv%20%202%20skaler.ashx Köge
- https://www.regionh.dk/Sundhed/Hospitaler/Hospitalsbyggerier/PublishingImages/Herlev_model_370x185.png Herlev
- https://www.herlev.dk/erhverv/pdf/vvm/vvm-redegorelse-heh
- https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad/photos/rpp.660039650795485/907268702739244/?type=3&theater
- http://www.tv2lorry.dk/artikel/supersygehus-i-hilleroed-bliver-mindre-super
- https://www.uhcw.nhs.uk/clientfiles/File/Annual%20Reports%20and%20Quality%20Accounts/2002-03%20Annual%20Report.pdf
- https://www.thesun.co.uk/news/1692893/hospital-hit-with-380m-bill-after-its-revealed-builders-had-failed-to-fire-proof-it/
- https://www.velferdarraduneyti.is/media/frettatengt2015/Landspitali-ryni-KPMG-20150831.pdf