Ég hef oft skrifað grein um hvers vegna ég valdi Bjarta framtíð sem mitt stjórnmálaafl. Fyrir því eru ýmsar ástæður eins og heiðarleiki, ábyrgð, hugrekki og ný hugsun í stjórnmálum.
Þetta eru þriðju kosningarnar sem ég fer í gegn með flokknum mínum, ég er alltaf að læra eitthvað nýtt um sjálfa mig, um flokkinn og um aðra líka. Núna nýlega uppgötvaði ég eitt annað sem Björt framtíð heillaði mig með en það voru kosningaloforð! Björt framtíð eða fulltrúar flokksins hafa aldrei kastað út innantómum loftköstulum í kosningaloforð! Það að vera með yfirlýsingar í sjónvarpi, á pallborði eða fundum um milljónir og jafnvel milljarða í hin eða þessi málefni er óábyrgt. Við vitum það öll! En hvers vegna er þessi menning enn til staðar? Að fólk sem var hluti af fjárhagsvinnu ríkisstjórnarinnar fyrir örfum vikum geti staðið núna og sagst geta gert þetta og hitt en gátu það ekki þá? Eða flokkar sem hafa verið áður í ríkisstjórn og ekki komið þessum málum á koppinn þá. Mögulega vegna þess að það er óraunhæft.
Við megum ekki leyfa okkur að stökkva á fyrsta kosningaloforðið því það hljómar svo vel. Þegar ég fer að versla þá kaupi ég aldrei fyrsta hlutinn sem ég sé, það skiptir ekki öllu hvað hann kostar heldur vil ég líka skoða gæðin. Ég geri alltaf gæða- og verðsamanburð til þess að vera viss um að ég sé að fjárfesta rétt. Þannig er líka með kosningar og atkvæðin okkar, kynnum okkur raunverulega hvað er í boði, verum ábyrg í vali, hoppum ekki á það fyrst sem lítur vel út. Það skiptir máli fyrir framtíðina okkar að fjárfesta atkvæðinu okkar í rétt mál.
Frambjóðendur Bjartrar framtíðar gætu vel lofað kjósendum gull og græna skóga, loforð um að breyta klukkunni og að það verði alltaf gott veður á Íslandi, en er það ábyrgt? Við vitum öll að á Alþingi eru 63 þingmenn sem þurfa að komast að málamiðlun og samstöðu um helstu málin. Við í Bjartri framtíð getum þó haldið áfram að lofa að leggja okkur fram við að breyta stjórnmálum, okkur hefur tekist að breyta ansi miklu í stjórnmálum á Íslandi og ætlum að halda áfram að gera þennan vettvang mannlegan og mjúkan. Við getum lofað því að halda áfram að gera Ísland að vænlegum kosti til þess að búa á. Að við berjumst fyrir því að hér verði teknar skynsamar ákvarðanir til framtíðar vegna þess að við eigum alltaf að horfa til framtíðar í öllum málum, það eru eru ekki til góðar skyndilausnir. Loftkastalar hrynja auðveldlega.
Ég veit ekki með þig kæri kjósandi en ég er orðin langþreytt á tilgerðarlegum kosningaloforðum, ég vil bara fá heiðarleika í íslensk stjórnmál.
Höfundur er móðir og situr í 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Suðvesturkjördæmi.