Það er eilítið kaldhæðnislegt að upphaf almannatrygginga má rekja til Otto von Bismarck kaldrifjaðs kanslara Wilhjálms I keisara sem fékk hann til að senda þinginu þessi skilaboð 1881: Vinna þarf bug á félagslegu óréttlæti …. með því að bæta velferð verkalýðsins. Þrátt fyrir árásir hægri manna sem sökuðu hann um vinstrivillu hélt hann sínu striki. Þið getið kallað þetta sósíalisma eða hvað sem þið viljið. Það skiptir mig engu máli. Við lok áratugarins hafði fyrstu almannatryggingakerfi heims litið dagsins ljós í Þýskalandi.
Hagfræðingurinn Adolf Wagner velti um þetta leyti fyrir sér samhengi efnahagsþróunar og ríkisbúskapar. Hann taldi sig sjá að þegar hagur almennings batnar aukist eftirspurn fólks eftir því sem ríkið eitt getur boðið. Hervernd, löggæsla, góðir skólar og margs konar velferðarþjónusta. Hann spáði því að með iðnþróun og efnahagslegum framförum myndu ríkisútgjöld vaxa sem hlutfall þjóðarframleiðslu. Þetta einfalda kenning hefur gengið undir nafninu Lögmál Wagners og skýrir margt af því sem komið hefur í ljós á síðustu öld. Efnahagslega þróaðar þjóðir eru með hærri skatta en vanþróaðar fátækar þjóðir. Þær eyða meiru í heilbrigðismál, framfærslu aldraðra, löggæslu og flest þau verkefni sem hið opinbera hefur með höndum. Það er ekki fyrir tilviljun eða vegna útgjaldagleði heldur svar við eftirspurn samfélagsins og efnahagsleg nauðsyn.
Lögmáli Wagners hefur einnig verið grundvöllur að uppbyggingu sterkra efnahags- og velferðarríkja í Evrópu og N-Ameríku og víðar þótt ekki hafi farið mikið fyrir fræðilegri greiningu hans innan hagfræðinnar. Tvær heimstyrjaldir á fyrri helmingi 20 aldar leiddu til þess að skattheimta óx af þeirra völdum og leiddi til aukinna ríkisumsvifa á öðrum sviðum einkum að lokinni síðari styrjöldinni. Aldarfjórðungurinn á eftir var blómaskeið í efnahagsmálum Vesturlanda og hagur almennings í flestum ríkjum tók miklum framförum. Var svo einnig í Ameríku allt þar til að fjármálahagfræði og kreddur frjálshyggjunnar undir merkjum lítilla ríkisafskipta og brauðmolakenninga leiddu til stöðnunar í hagþróun almennings en gósentíðar stórfyrirtækja og fjármálabraskara. Lauk þeim ferli í bili með kollsteypunni á fyrsta áratug þessarar aldar.
Þau einföldu sannindi, sem felast í lögmáli Wagners, hafa staðist próf sögunnar eru mikilvæg nú þegar tekist er á um stefnu í ríkisfjármálum og sköttum. Það eru líka einföld sannindi að ríkisútgjöld og skattar eru eitt og hið sama þegar til lengri tíma er litið. Aukin ríkisútgjöld eru hækkun á sköttum. Þeir stjórnmálamenn sem boða aukin útgjöld í einu orðinu og lofa lækkun skatta í hinu eru í röklegri mótsögn við sjálfa sig og afneita þeirri efnahagslegu samfélagsþróun sem verið hefur í gangi og er enn.
Ástæður skattahækkana
Almenningur í landinu krefst aukinnar opinberrar þjónustu á ýmsum sviðum eins og fram hefur komið í umræðu um heilbrigðismál og undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar. Krafist er öryggis í húsnæðismálum fyrir ungt fólk og að vel sé búið að börnum og barnafjölskyldum, eldri borgurum og þeim sem hallar á í lífinu. Almenningur vill líka að stjórnvöld horfi til framtíðar og byggi upp efnahagslega innviði samfélagsins svo sem samgöngumannvirki og félagslega innviði í skólum, velferðarkerfum og stofnunum ríkisins. Þessari eftirspurn almennings eftir þjónustu verður ekki mætt á frjálsum markaði, hún er ekki í boði þar. Þessi verkefni verða ekki leyst af öðrum en ríki og sveitarfélögum og þau hafa í för með sér að opinber útgjöld munu vaxa á næstu árum og áratugum. Nokkur atriði sem augljóslega benda til aukinna útgjalda eða útgjaldaþarfar á næstu árum.
Lýðfræðileg þróun felur í sér hlutfallslega fjölgun aldraðra. Á síðustu áratugum ævinnar þurfa menn í meira mæli þjónustu heilbrigðiskerfisins og meira reynir á framfærslukerfin.
Menntun og heilbrigðisþjónusta, er vinnuaflsfrek starfsemi sem krefst sérhæfingar og gerir þessi störf og þjónustuna kostnaðarsama.
Menntað og sérhæft starfsfólki hjá hinu opinbera og á almennum markaði er lykill að framförum í framleiðslu og þjónustu. Þörf fyrir öflugar mennta- og rannsóknastofnanir vex.
Misskipting tekna- og eigna hefur farið vaxandi en hagur og afkoma millistéttarinnar hefur staðnað og sífellt verður erfiðara fyrir ungt fólk að koma undir sig fótum. Beita þarf sköttum til að jafna tekjur og eignir og kosta meiri gjaldfrjálsa þjónustu fyrir þessa hópa eða styrkja þá svo sem í húsnæðismálum.
Aukin opinber útgjöld hafa í för með sér hærri skatta. Stjórnmálamenn þurfa að horfast í augu við þá samfélagsþróun sem er í gangi. Að boða skattalækkanir er forkastanleg tilraun til að blekkja almenning. Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir því að í samfélagi í framþróun munu skattar hækka. Þeir eru forsenda jákvæðrar samfélagsþróunar og verkefni stjórnmálamanna í skattamálum eru fyrst og fremst að sjá til þess að þeir séu lagðir á af skynsemi, sanngirni og jafnræði.
Ríkisfjármálastefnan í aðdraganda kosninga
Sá ferill ríkisfjármála, sem gerður var að umtalsefni, hefur varað nokkuð á aðra öld síðan Wagner benti á hann. Þróun hér á landi síðustu fjögur ár og ástand á ýmsum sviðum er órækt merki um að breyta þurfi um stefnu í ríkisfjármálum en hver er stefnan í ríkisfjármálum nú í aðdraganda kosninganna? Segja má að þar skipti í þrjú horn.
Hægri flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn, eru enn fastir í hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Þeir neituðu lengi vel að viðurkenna að uppbygging opinberrar þjónustu hafi verið vanrækt en þegar þeim var ekki lengur stætt á því þykjast þeir ætla að ráða bót á því án þess að viðurkenna að aukin útgjöld þýða einfaldlega hærri skatta. Í stað þess veifa þeir löngu dauðri brauðmolahagfræði. Stefna Framsóknarflokksins er óljós meðan hann glímir við pólitískan áttunarvanda eftir þá hundahreinsun sem hann hefur gengið í gegnum.
Lýðskrumsflokkarnir, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, eru marklausir í þessum málum. Tal þeirra um eigin góðvilja er marklítið. Á bak við þau standa loforð um töfrabrögð og sýndarlausnir eins og að gefa þjóðinni bankahlutabréf sem hún er fyrst látin kaupa. Reynslan er að þau lenda eftir stuttan tíma á útsölumarkaði þar sem fjársterkir aðilar komast í feitt og kaupa þau fyrir slikk.
Samfylkingin og Vinstri grænir eru einu flokkarnir sem gera sér grein fyrir þeim vanda sem ríkisfjármálin eru í og þora að segja hið augljósa hreint út, þ.e. að hann verður ekki leystur nema með aukinni tekjuöflun ríkisins. Þessi afstaða þeirra hefur legið fyrir frá því að þessir flokkar hreinsuðu flórinn eftir síðasta frjálshyggjutímabil. Við óhjákvæmilegan niðurskurð útgjalda var velferðarmálum hlíft sem unnt var með öflun nýrra tekna gegn heiftúðugri andstöðu hægri flokkanna sem kröfðust meiri niðurskurðar. Með markvissri stjórn á ríkisfjármálunum var jafnvægi náð á ný og stefnan sett á enduruppbyggingu velferðarkerfanna. Hægri stjórnin, sem tók við, vék af þeirri braut.
Vinstri grænir hafa sett fram ábyrga ríkisfjármálastefnu til næstu ára. Skilgreind er markmið á flestum sviðum og áætlað hvað kosta muni að ná þeim. Jafnframt er gerð grein fyrir því hvernig standa má undir þeim aukna kostnaði. Þessi áætlun er hægri flokkunum að sjálfsögðu þyrnir í augum og ekkert sparað í falsfréttum og ósannindum til að ófrægja hana. Um leið leið skreyta þeir sig stolnum fjöðrum og þakka sér þann viðsnúning sem orðið hefur í efnahagslífinu frá hruni þótt staðreyndin sé sú að þeir hafi lítið lagt að mörkum í því efni og geta ekki bent á neinar þær aðgerðir sem veruleg áhrif hafa haft.
Í áróðri sínum halda hægri flokkarnir hvoru tveggja fram að áformuð aukning ríkisútgjalda sé óskapleg og að stórfelldar skattahækkanir á allan almenning séu í kortunum. Hvort tveggja er rangt.
Útgjaldaaukningin og auknar tekjur
Áformaðar aðgerðir til að styrkja velferðarkerfin og uppbyggingu innviða munu kosta 40 til 50 milljarða króna á ári. Það er vissulega mikið fé en ekki óviðráðanlegt. Það svarar til um 1,6 til 2% af vergri landsframleiðslu. Til að fjármagna þau útgjöld þyrfti til lengri tíma að auka tekjur ríkisjóðs sambærilega.
Í grein minni „Að hækka til að lækka” sem ég birti í Kjarnanum og á heimasíðu minni fyrir nokkru kemur fram sú þróun skatttekna ríkisins frá 2005 til 2016 sem sést á þessari mynd af sköttum sem hlutfalli af VLF. Skattar 2016 og 2017 eru um 27% af VLF. Með aukningu skatttekna til að fjármagna tillögur VG þyrfti hlutfall þetta að hækka í 28,6 til 29%. Það væri samt 2 - 3 prósentustigum lægra en skatttekjurnar voru á árum fyrir hrun. Við það er því að bæta að tillögur VG ganga ekki út á að sækja allan tekjuaukann í þessar skatttekjur eins og fram kemur hér á eftir.
Hugmyndir VG um auknar tekjur ríkissjóðs eru af ýmsum toga en allar þess efnis að þær lenda ekki á almenningi. Auknar skatttekjur myndu koma frá þeim fáu prósentum þjóðarinnar sem hafa margfaldar meðaltekjur og/eða eignir langt yfir þeim mörkum sem öðrum er mögulegt. Auknar tekjur kæmu einnig frá þeim sem með ýmsum hætti hafa komið sér hjá því að greiða eðlilega skatta til samfélagsins og auknar tekjur kæmi líka frá þeim sem hafa einkarétt til að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar án þess að greiða eiganda þeirra, þjóðinni, eðlilegt gjald fyrir. Dæmi um þær leiðir til tekjuöflunar sem nefndar hafa verið:
Viðbótarskattur á mjög háar fjármagnstekjur. Um 60% fjármagnstekna falla til um 5% tekjuhæstu framteljenda og uxu um 53% frá 2012 til 2015 á meðan launatekjur hækkuðu um innan við 20%.
Auðlegðarskattur á eignir langt yfir verðmæti stórra einbýlishúsa. T.d. 200 m.kr. hjá hjónum. Greiðendur yrðu aðeins fá þau fáu prósent landsmanna sem eiga nú stóran meirihluta eigna í landinu.
Viðbótartekjuskatt á laun yfir 25 m.kr. á árim sem næði einungis ná til fárra prósenta framteljenda sem hafa ofurlaun.
Auk þess að afla verulegra tekna eru þessar breytingar til þess að gæta jafnræðis og gera skattlagningu sanngjarnari en verið hefur.
Tekjur með hertri löggjöf og auknu eftirliti með skattsvikum og skattasniðgöngu. Aðgerðir gegn aflandsvæðingu hafa verið máttlitlar. Herða þarf lagareglur með það fyrir augum að aflétt verði leynd af starfrækslu aflandsfélaga og skattahagræði með þeim afnumið. Milliverðlagningu í innflutningi og útflutningi er stórt vandamál. Nýleg skýrsla staðfestir gamlan grun um að haft sé fé af neytendum og ríkissjóði með “hækkun” í hafi og eins fer stór hluti útflutning fram í viðskiptum tengdra aðila. Lagabreytingar þarf til að koma í veg fyrir að eignir og tekjur séu faldar í eignarhaldsfélögum og þannig komist hjá eðlilegri skattlagningu.
Hækkun veiðigjalda og eftir atvikum uppboð aflaheimilda. Auðlindaarður í sjávarútvegi, þ.e. hagnaður umfram eðlilega ávöxtun fjármagns, er mjög mikill og rennur nú ekki til þjóðarinnar.
Skattur á raforku sem seld er undir markaðsverði. Enginn arður rennur nú til þjóðarinnar af þeim orkuauðlindum sem nýttar eru til stóriðju.
Ríkisfjármála- og skattastefna VG er góð. Hún er skynsamleg leið til að koma til móts við eðlilegar kröfur um úrbætur. Hún felur í sér hófleg skref til uppbyggingar á þeim velferðarkerfum sem verið hafa að molna.
Hún er raunsæ með tillit til getu þjóðarbúsins til breytinga. Hún er ábyrg og stefnir fjárhag ríkisins ekki í hættu. Hún er sanngjörn og dreifir kostnaði af siðuðu samfélagi með hliðsjón af greiðslugetu borgaranna.