Nú nálgast kosningarnar og loforðin streyma inn frá flokkunum í stórum stíl. Ástandið á húsnæðismarkaði er mörgum hugleikið og eru flokkar farnir að sýna á spilin. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir hinni svokölluðu Svissnesku leið. Sú leið snýst um að leyfa yngra fólkinu að taka lífeyrinn út fyrir fram. Við skulum hafa það í huga að vandamálið er á framboðshliðinni enda er gríðarlegur skortur á íbúðum. Húsnæðisbólur eiga það sameiginlegt að aukið aðgengi að fjármagni blæs upp húsnæðisverð. Við sáum besta dæmið í Bandaríkjunum hér á árunum fyrir hrun. Mæli með að fólk horfi á Inside Job og The Big Short en þar er þessu ástandi líst á skilmerkilegan hátt.
En aftur til Íslands. Tímasetning í hagfræði er mjög mikilvæg. Það skiptir máli hvenær vextir hækka og lækka, hvenær peningamagn eykst í umferð og hvenær aðgengi að fjármagni er aukið. Mér finnst það mjög varasamt að leyfa yngra fólkinu að taka lífeyrinn út fyrir fram við þessar aðstæður, eða þegar skorturinn er þetta mikill á markaði. Aukið aðgengi að fjármagni hækkar verð á húsnæðismarkaði eins og dæmin sanna en við núverandi aðstæður er enn varasamara að leyfa fyrir fram greiddan lífeyri. Af hverju? Jú, það myndast hætta á bólumyndun og megum við ekki við því í núverandi ástandi. Yngra fólk mun ekki fá þá ávöxtun á sinn lífeyrissparnað á þessu tímabili heldur er það að treysta á hækkun íbúðaverðs. Það er vafasamt þegar skorturinn er svona gríðarlega mikill. Eins og allar bólur í hagkerfinu þá springa þær að lokum. Þegar meira jafnvægi kemst á íbúðamarkað sem við skulum vona að verði á náinni framtíð, er nefnilega hætta á að verð lækki ef aðgengi að auknu fjármagni í dag blæs upp verðið. Þetta þýðir að fleira fólk getur barist um sömu íbúðirnar sem eru allt of fáar í dag.
Þegar jafnvægi kemst á markað gæti nefnilega eigið fé íbúðareigenda lækkað með lækkandi verði eigna. Einnig verður að hafa í huga að lækkandi verð er ekki eina hættan gagnvart eiginfjárhlutfallinu. Verðbólguskot sem við Íslendingar þekkjum mjög vel getur einnig étið upp eiginfjárhlutfallið á íbúðinni á svipstundu. Sum sé, að treysta á hækkandi eiginfjárhlutfall til þess að mæta tapaðri ávöxtun á lífeyrissparnaði er bara alls ekki í hendi við núverandi aðstæður. Ef jafnvægi væri á húsnæðismarkaði þá væri þessi hætta ekki nándar eins mikil.
Framboðshliðin
Eins og ég hef endalaust verið að tönglast á þá er vandamálið á framboðshliðinni. Ég reiknaði út að framleiðnin á byggingamarkaði árið 2014 var töluvert lakari en í Noregi. Þess vegna gengur uppbyggingin ekki nógu hratt fyrir sig eins og oft hefur komið fram í fréttum. Mikil starfsmannavelta á erlendu vinnuafli er síst til þess að auka framleiðni þannig að vandamálið er margþætt við núverandi aðstæður. Hvað er þá til ráða? Þegar við Píratar höfum verið að funda um húsnæðismarkaðinn erum við nær eingöngu að einbeita okkur að framboðshliðinni og hvað þarf til svo að uppbyggingin verði hraðari.
Ég veit af eigin raun að of hröð uppbygging getur haft slæm áhrif á frágang og þá sérstaklega með tilliti til rakaskemmda þannig að því sé haldið til haga. En af hverju erum við ekki að einbeita okkur að einsleitari og einfaldari íbúðabyggingum? Við höfum gert það áður eins og með byggingar í Bakkahverfinu og svo í Efra Breiðholti. Einsleitar og fjöldaframleiddar íbúðir er það sem við þurfum í dag. Þá er ég að tala um frágang með tilliti til staðlaðra gluggastærða, einfaldari frágang á rafmagni og pípulögnum og grófari frágang á veggjum og loftum svo eitthvað sé nefnt. Við þurfum að slaka á útlitskröfum og hafa frágang einfaldari sem eykur byggingarhraða.
Ég hef ekki heyrt að Íslendingar kvarti mikið undan útliti íbúða á Norðurlöndunum þegar þeir flytjast búferlum þangað frá Íslandi. Ef við förum ekki að velta þessum kostum fyrir okkur þá mun uppbyggingin taka langan tíma með miklum fórnarkostnaði. Við viljum ekki missa unga fólkið úr landi því unga fólkið þarf að taka við keflinu. Spekileki er mjög slæmur fyrir lítið og einhæft hagkerfi sem þarf í framtíðinni að treysta á hugvit og nýsköpun.
En það þýðir lítið að tala endalaust um hlutina. Það þarf að fara hugsa í lausnum og framkvæma. Þetta er ástand sem mun vara í nokkurn tíma og því er tíminn ekki með okkur í liði. Við verðum að fara varlega hvað varðar aukið aðgengi að fjármagni þegar svona mikill skortur er á markaði því það mun bara blása upp verð sem gæti svo seinna meir fallið. Ef fleiri slást um sömu íbúðina þá munu þessir aðilar yfirbjóða íbúðina þar til hæsta verð fæst. Einbeitum okkur að framboðshliðinni því þar verðum við að finna lausnirnar.
Höfundur er fjármálahagfræðingur og iðnaðarmaður og skipar 13. sæti á lista Pírata í Reykjavík Suður.