Gamla Ísland
Fyrr í mánuðinum hélt íslensk þjóð upp á 9 ára afmæli neyðarlaga bankahrunsins með ferskum fréttum af vafasömum viðskiptum forystu Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda Hrunsins.
Hrunið var auðvitað meira en bara bankahrun. Innherjaviðskipti, klíkuskapur, eftirlitsleysi, gríðarleg misskipting og græðgi, samansúrrað með pólitík nýfrjálshyggjunnar reyndist svo eitraður kokteill að hið gamla Ísland fór á hliðina, hrundi undan eigin spillingu og mistökum.
Viðbrögð almennings voru fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar þar sem þess var krafist að gert væri upp við fortíðina og betra samfélag reist á rústum bankakerfisins; nýtt Ísland.
Stjórnin sem þá tók við gerði á kjörtímabili sínu atlögu að breytingum á nokkrum af kerfum gamla Íslands, svo sem stjórnarskránni og kvótakerfinu, en mætti strax harðri andstöðu sérhagsmunaafla sem stóðu vörð um óbreytt ástand.
Vinstri stjórnin varðaði leiðina til breytinga með setningu siðareglna, útgáfu rannsóknarskýrslu Alþingis, vann að setningu nýrrar stjórnarskrár og innleiddi veiðigjöld stórútgerða.
En ekki tókst að fullgera breytinguna vegna málþófs og mótmæla málsvara gamla Íslands og fyrr en varði voru sömu flokkar og höfðu setið nær óslitið að völdum frá Lýðveldisstofnun komist aftur til valda í krafti fegurra en falskra loforða.
9 árum eftir hrun lifir hið gamla Ísland því enn góðu lífi. Við búum enn við úrelta bráðabirgða stjórnarskrá, risahagnað stórútgerða sem rennur í vasa fárra útvaldra kvótakónga, og ekki líður það ár þar sem siðferðisbrestir og spilling skekur íslensk stjórnmál.
Sem betur fer glittir í von um raunverulegar breytingar. Þriðja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins á 10 árum er nú sprungin, fallin á siðferðisprófi, og flokkurinn virðist óstjórntækur vegna spillingar. Arfleið Hrunsins og Búsáhaldabyltingarinnar er þrátt fyrir allt sú, að íslensk stjórnvöld komast ekki lengur upp með hvað sem er.
Nýja Ísland
Í kosningunum á morgun gefst okkur tækifæri til að skilja við okkur gamla Ísland og koma hér á réttlátara og betra samfélagi; hinu nýja Íslandi.
Ísland efnahagslegs réttlætis, þar sem 50% auðsins í landinu hvílir ekki hjá aðeins 5% fólksins, heldur þar sem skattkerfið er nýtt til að leiða hina ofurríku til samfélagslegrar ábyrgðar. Þar sem þjóðin nýtur meira en 2% af þeim virðisauka sem myndast við nýtingu fiskistofna og með álvinnslu. Þar sem skattbyrði er létt á lág- og millitekjufólk.
Ísland félagslegs réttlætis, þar sem raunverulega er forgangsraðað í þágu mennta- og velferðarkerfisins en því ekki bara getið í kosningaloforðum.
Ísland réttlátara stjórnkerfis, með nýja stjórnarskrá, minna samkurli viðskipta og stjórnmála, meira gegnsæi og minni leyndarhyggju.
Sigrumst á sérhagsmunum í kosningunum 28. október og komum á nýju Íslandi.
Höfundur er formaður Ungra jafnaðarmanna.