Meðal stefnumála Framsóknarflokksins í þessum kosningum er hækkun endurgreiðslu í tengslum við nýsköpun og rannsóknir. Segja má að ein af undirstöðum kröftugs hagvaxtar og velmegunar sé einmitt blómlegt rannsóknar- og nýsköpunarstarf. Ísland hefur verið að hækka á nýsköpunarlista Bloomberg (2017 Bloomberg Innovation Index) að undanförnu og færðist upp um tjú sæti á milli ára en situr nú í 25. sæti af 50 ríkjum. ísland er þó langt á eftir hinum Norðurlöndunum sem flest eru í top 10. Svíþjóð er í 2. sæti, Finnland í 5.sæti, Noregur stendur í stað milli ára í 14.sæti en Danir eru í 9. sæti en færast upp um eitt þrep milli ára. Samkvæmt samantekt Viðskiptaráðs var Ísland með lægstu endurgreiðslu af rannsóknum og þróun allra OECD ríkjanna í fyrra og er mögulega þaki á endurgreiðslu um að kenna. Því skal þó haldið til haga að þakið var hækkar verulega nýverið með lagabreytingum um nýsköpunarfyrirtæki. Margt gott var að finna í þeim breytingum s.s. varðandi stuðning við erlenda sérfræðinga sem hingað koma, en þannig má efla innflutning á þekkingu hingað til lands og bæta þar með stöðu þekkingarfyrirtækja sem þurfa að leita út fyrir landsteinanna.
Eins og áður sagði er það stefna Framsóknarflokksins að tryggja eins og unnt er samkeppnishæfni í kringum rannsóknir og þróun hérlendis. Hækkun á endurgreiðslu er vissulega skref sem hægt er að stíga fljótlega enda ólíklegt að mikil andstaða verði við slíkar tillögur. Endurgreiðslan væri þá 25% en um leið mætti skoða frekar núverandi þak á endurgreiðslur og annan stuðning í samstarfi við hagsmunaaðila. Fjárfestingar í menntamál, nýsköpun og þróun skilar sér margfalt til baka en huga þarf að því að sá ávinningur sé sem mestur.
Stjórnvöld þurfa síðan að tryggja fyrirtækjum á Íslandi umgjörð sem er samkeppnishæf við önnur lönd en þessi breyting væri vissulega skref í rétta átt. Í ágúst hélt RANNÍS fjölmennan fund í samstarfi við samtök Iðnaðarins þar sem Tækniþróunarsjóður var kynntur og farið var yfir breytingar á endurgreiðslum til rannsókna- og þróunar. Starf RANNIS er til mikillar fyrirmyndar og liður í því að skila ríki sem mestum arði af því fjármagni sem veitt er til málaflokksins.
Framsóknarflokkurinn mun ávalt standa í liði með þeim sem þora að láta verkin tala, þróa vöru og þjónustu, auka gæði, efla rannsóknir á öllum sviðum og sækja fram. Þannig náum við árangri. Erum við ekki öll sammála um það?
Höfundur er frambjóðandi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.