Morgunblaðið birti síðasta sunnudag grein eftir Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, þar sem hún vitnar í launakönnun Hagstofunnar og heldur því fram, út frá útreikningum á meðallaunum, að skattbyrði millistéttarinnar á Íslandi hafi lækkað verulega.
Þegar talað er um meðaltekjur skal fyrst gera sér grein fyrir því að þær eru ekki mælikvarði fyrir helminginn af fólkinu í landinu. Meðaltekjur eru hærri en miðgildistekjur. Miðgildistekjur eru þær tekjur sem hafa jafnan fjölda beggja megin við sig. Á Íslandi eru þeir sem hafa meðaltekjur með um 63%-65% launamanna fyrir neðan sig á þessum árum.
Einnig er nauðsynlegt að vita, að þegar launakönnun Hagstofunnar er notuð til að tala um meðallaun, þá nær hún einungis til fólks sem er í fullu starfi. Það þýðir að í könnuninni eru engir námsmenn, ekkert fólk á ellilífeyri, ekkert fólk í hlutastarfi og engir öryrkjar. Til samanburðar voru meðallaun samkvæmt launakönnuninni á síðasta ári 667 þúsund, en meðaltekjur Íslendinga samkvæmt skattframtölum fyrir aldurshópinn 25-74 ára voru 570 þúsund.
Þannig að þegar ráðherra talar um fólk sem er með meðallaun sem „millistéttina“ þá er það nokkuð langsótt. Í besta falli er hér um einhvers konar efri millistétt að ræða.
Skatthlutfallið hækkar
Síðasta og ekki sísta athugasemdin sem hér er gerð við grein Þórdísar Kolbrúnar, er að í útreikningum sínum notar hún vísitölu neysluverðs til að færa launatekjur frá árinu 2013 til nútímans. Þetta er einfaldlega röng reikniaðferð, því launatekjur eru ekki leiðréttar með tilliti til verðlagsvísitölu, heldur á að nota launavísitölu. Það er líka röng aðferð að miða við að tekjumörk skattþrepa hefðu fylgt vísitölu neysluverðs þegar við launaútreikninga á að nota launavísitölu.
Þegar við skoðum breytinguna á skattkerfinu síðastliðin 4 ár, frá 2013 til 2016, þá sjáum við nokkuð athyglisvert.
Á vef Hagstofunnar má finna meðal- og miðgildislaun aftur í tímann. Ef við höldum okkur við árin sem ráðherrann ræðir um í sinni grein, þá höfum við eftirfarandi töflu.
Það hlutfall tekna sem fer í staðgreiðslu skatta er breytilegt, ekki eingöngu eftir skattprósentu heldur einnig með tilliti til persónuafsláttar. Út frá þessu má reikna raunhlutfall staðgreiðslu af launatekjum. Síðastliðin fjögur ár hefur þetta hlutfall þróast þannig, að það hefur hækkað jafnt og þétt, bæði af meðaltekjum og miðgildistekjum. Ólíkt því sem fram kemur í grein ráðherrans, þá voru skattgreiðslur millistéttarinnar síður en svo lægri en þær voru árið 2013. Ef við færum svo meðallaun ársins í fyrra yfir til ársins í ár með launavísitölu júnímánaðar, þá væri skatthlutfallið 29,3% sem er hærra en það var árið 2013.
Útreikningar ráðherra á ætluðum gróða almennings upp á hundruð þúsunda króna vegna skattbreytinga eru þannig að engu orðnir.
Hvað veldur? Hvernig fór ráðherrann að því að reikna meðaltekjufólki 655 þúsund krónur í sparnað á ári vegna skattbreytinga, þegar raunin er sú að skattar á vinnandi fólk hafa bara hækkað í tíð síðustu ríkisstjórna? Eins og áður hefur verið sagt á ekki að leiðrétta laun með vísitölu neysluverðs heldur launavísitölu. Einnig skiptir hér miklu máli að hefði persónuafsláttur fylgt launavísitölunni frá lokum síðustu vinstristjórnar væri hann 66 þúsund í dag, en ekki 53 þúsund. Með því að halda aftur af eðlilegri hækkun persónuafsláttar er seilst æ dýpra í vasa venjulegs launafólks á meðan athyglinni er allri haldið á skattprósentunni.
Ef skattkerfið frá 2013 væri leiðrétt fyrir launavísitölu til dagsins í dag væri ætlaða millistéttin með nokkrum hundraðköllum meira í útborguð laun, en ekki minna. Munurinn er svo enn meiri þegar neðar dregur vegna þess hversu persónuafslátturinn eykur vægi sitt þegar laun eru lægri. Skattkerfið frá 2013 var þannig sanngjarnara gagnvart öllum nema þeim allra hæstu tekjuhópunum en það skattkerfi dagsins í dag, sem ráðherra státar sig af í Morgunblaðinu.
Barnabætur að engu orðnar
En skattkerfið er ekki bara persónuafsláttur og skattprósentur.
Hugsum okkur tvær fjölskyldur, aðra með meðaltekjur og hina með miðgildistekjur, sem báðar samanstanda af foreldrum og þremur börnum, þar af tveimur börnum undir 7 ára aldri. Taflan hér að neðan sýnir hvernig þessi hópur hefur misst barnabæturnar sínar á undanförnum árum.
Strax árið 2014 hætti fjölskyldan með meðaltekjurnar að fá barnabætur. Hjá miðgildisfjölskyldunni eru þær nánast að engu orðnar á fjórum árum.
Vaxtabætur
Það hefur alltaf verið átak fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð, en nú er það orðið nánast vonlaust. Fyrir þá sem það gera, þá er algeng stærð að fólk kaupi sér fasteign að verðmæti sem nemur um fimmföldum árslaunum. Ef við skoðum dæmi um hjón sem kaupa sér sína fyrstu fasteign og eiga 10% í henni, þá hefur þróun á vaxtabótum fyrir þann hóp verið á þá leið sem sést á töflunni hér til hliðar.
Hér er átakanlegt að sjá þróunina. Í tíð síðustu tveggja ríkisstjórna hefur vaxtabóta- og barnabótakerfið breyst úr almennu velferðarkerfi í einhvers konar fátækrastyrk.
Það er því ekki hægt að sjá að millistéttin horfi á hag sinn vænkast vegna skattbreytinga af hálfu fráfarandi ríkisstjórnar, heldur hefur launaskatturinn hækkað og þær tilfærslur sem til staðar voru til handa þeim sem eiga börn og eru að koma sér upp húsnæði hafa með öllu horfið.
Sumt var einfaldlega betra í gamla daga.
Höfundur er hagfræðingur.
Heimildir:
Heimasíða Ríkisskattstjóra
Heimasíða Hagstofunnar