Íslenska lífeyriskerfið er í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði. Hvort sem horft er til þátta á borð við nægjanleika lífeyrissparnaðar, eigna lífeyrissjóða sem hlutfalls af landsframleiðslu eða kostnaðar við rekstur kerfisins. Kerfið byggir á þeirri einföldu hugsun að hækkandi meðalaldri þjóðarinnar verði aldrei mætt með öðrum hætti en að hver kynslóð beri ábyrgð á eigin lífeyri í gegnum söfnunarkerfi. Gegnumstreymiskerfi, líkt og einkennir lífeyriskerfi flestra Evrópuríkja í dag, lendir óhjákvæmilega í vandræðum eftir því sem þjóðir eldast og fækkar á vinnumarkaði í hlutfalli við ellilífeyrisþega. Sé tekið mið af mannfjöldaspá Hagstofunnar má ætla þeim sem eru starfandi á vinnumarkaði í hlutfalli við ellilífeyrisþega muni fækka úr 6 á móti 1 í dag í 3 á móti einum á næstu 4 áratugum.
Hvernig stendur þá á því að ýmsir stjórnmálaflokkar og raunar einnig nokkrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafi allt á hornum sér þegar kemur að íslenskum lífeyrissjóðum? Í það minnsta þrír flokkar af þeim átta sem eiga fulltrúa á þingi í dag hafa það á stefnuskrá sinni að grípa inn í lífeyriskerfið með einum hætti eða öðrum og jafnvel snúa frá söfnunarkerfi yfir í gegnumstreymiskerfi að hluta, þvert á það sem flestar nágrannaþjóða okkar eru að gera.
Það þarf ekki að kafa djúpt til að sjá að það stendur ekki steinn yfir steini í röksemdafærslum þessara flokka. Það eru einkum þrjú atriði sem gagnrýnd eru og ég ætla að fjalla í stuttu máli um hvert þeirra.
1. Lífeyrissjóðakerfið er of dýrt í rekstri.
2. 3,5% ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða heldur uppi háum vöxtum hér á landi.
3. Lífeyrissjóðakerfið er of stórt og því ætti að skattleggja inngreiðslur í kerfið og/eða breyta því í gegnumstreymiskerfi að hluta.
Rekstrarkostnaður lífeyrissjóða hér á landi er með því lægsta sem gerist
OECD heldur utan um margvíslega og fróðlega tölfræði þegar kemur að lífeyrissjóðum. Þar er meðal annars hægt að sjá rekstrarkostnað sem hlutfall af heildareignum sjóða. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd erum við hér í fremstu röð, þrátt fyrir að vera með eitt minnsta lífeyriskerfi heims. Sú þráláta staðhæfing að lífeyriskerfið hér sé dýrt í rekstri fær því ekki staðist. Kerfið er vissulega mjög stórt á íslenskan mælikvarða og samanlagður rekstrarkostnaður þess því „hár“ í krónum talið en sem hlutfall af eignum er kerfið með því hagkvæmasta sem þekkist.
Íslenska kerfið er svo dæmi sé tekið nokkuð sambærilegt að stærð miðað við heildareignir og það norska og rekstrarkostnaður þessara tveggja er svipaður sem hlutfall af eignum. Lífeyriskerfi Portúgal, Austurríkis, Póllands og Belgía eru einnig sambærileg að stærð en rekstrarkosnaður þeirra er í öllum tilvikum hærri. Gagnrýni á rekstrarkostnað lífeyrissjóða á því ekki við rök að styðjast.
Forystumenn verkalýðsfélaga, sem eiga að þekkja vel til lífeyrissjóðakerfisins í gegnum störf sín, eiga líka að vita betur. Það er alvarlegt þegar slíkir forystumenn eru, annað hvort gegn betri vitund eða af hreinni vanþekkingu, að grafa undan trausti til lífeyriskerfisins með málflutningi sem þessum.
Raunávöxtunarkrafa myndar ekki vaxtagólf
Því er gjarnan haldið fram að 3,5% raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna myndi einhvers konar vaxtagólf, þ.e. að ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna viðhaldi háu vaxtastigi hér á landi. Sú fullyrðing stenst heldur enga skoðun.
Fyrir það fyrsta verður að hafa hér í huga að 3,5% raunávöxtunarviðmiðið er notað til að reikna upp þau réttindi sem sjóðfélagar eiga í lífeyrissjóðum. Gengið er út frá því að sjóðirnir skili til lengri tíma litið 3,5% raunávöxtun og lífeyrisréttindi þeirra sem þegar hafa hafið töku lífeyris sem og þeirra sem enn eru á vinnumarkaði byggja á þeirri ályktun. Ef þetta viðmið væri lækkað þyrfti að öðru óbreyttu að skerða verulega lífeyrisréttindi í núverandi kerfi. Það er hins vegar fátt sem bendir til annars en að sjóðirnir standi undir þessari kröfu til lengri tíma. Meðalraunávöxtun íslenska lífeyriskerfisins undangengin 5 ár er t.d. 5,2%.
Í öðru lagi eru ekki bein tengsl milli vaxtastigs ríkis og ávöxtunar lífeyrissjóða með blandað eignasafn. Lægri vextir þýða að öðru óbreyttu hærri ávöxtun hlutabréfa og öfugt. Þetta sést í sjálfu sér ágætlega á meðfylgjandi mynd sem sýnir raunávöxtun lífeyrissjóða undanfarin fimm ár í löndum OECD. Af myndinni að dæma verður ekki séð að nein sérstök fylgni sé milli vaxtastigs og ávöxtunar lífeyrissjóða. Þau ríki sem raða sér fyrir ofan okkur í þessari töflu eru til að mynda öll með umtalsvert lægri vexti af húsnæðislánum en tíðkast hér á landi.
Raunvextir hafa þar að auki lækkað um 2-3% hér á landi á undanförnum röskum tveimur áratugum án þess að það hafi haft áhrif á langtímaávöxtun lífeyrissjóða svo séð verði. Ávöxtun lífeyrissjóða ræðst af eignasamsetningu og þar skiptir miklu máli að eignasöfn séu vel áhættudreifð, bæði hvað varðar eignaflokka eins og hlutabréf og skuldabréf, en ekki síður hvað varðar landfræðilega áhættu.
Er lífeyrissjóðakerfið of stórt?
Þessi skoðun hefur verið áberandi á undanförnum misserum. Hefur verið bent á að hlutdeild lífeyrissjóðanna í innlendu hagkerfi kynni að verða óhóflega mikil og í því samhengi bent á vaxandi hlutdeild sjóðanna á innlendum hlutabréfamarkaði. Það var vissulega áhyggjuefni á meðan við bjuggum enn við gjaldeyrishöft hversu lítið lífeyrissjóðir gátu fjárfest erlendis. Sú staða hefur hins vegar breyst með afnámi gjaldeyrishafta og ekki verður séð an nað en að lífeyrissjóðir hafi aukið erlendar fjárfestingar sínar að undanförnu. Í frjálsu fjármagnsflæði munu sjóðirnir geta haldið áfram að byggja upp erlent eignasafn sitt. Það er líka skynsamleg stefna til lengri tíma enda ekki gott að sjóðirnir eigi allt sitt undir jafn sveiflukenndu hagkerfi og því íslenska.
Eignir íslenska lífeyriskerfisins eru nú um 150% af landsframleiðslu. Fjölmörg ríki OECD reka lífeyriskerfi af svipaðri hlutfallslegri stærð eða meira. Vegið meðaltal OECD ríkjanna er um 125% en í Danmörku, Hollandi og Kanada eru heildareignir lífeyrissjóða heldur meiri en hér á landi sem hlutfall af landsframleiðslu.
Stærð kerfisins sýnir fyrst og fremst að íslenska lífeyriskerfið hefur vaxið og dafnað og hefur alla burði til að takast á við lífeyrisskuldbindingar sínar gagnvart þeim kynslóðum sem nú eru á vinnumarkaði. Það er það sem skiptir mestu máli. Í nýlegri skýrslu OECD um nægjanleika lífeyrissparnaðar hér á landi kemur m.a. fram að samanlögð réttindi frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum tryggi miðgildi tekna um 94% af meðalævitekjum sínum. Sé séreignarsparnaði bætt við fer þetta hlutfall í 103%.
Til samanburðar þá tryggir norska lífeyriskerfið (almannatryggingar + söfnunarréttindi) lífeyrisþegum 70% af meðalævitekjum. Norska lífeyriskerfið byggir fyrst og fremst á gegnumstreymiskerfi en aukin áhersla hefur verið á uppbyggingu söfnunarsjóða á undanförnum árum. Eitt einkenna norska kerfisins eru umtalsvert lakari lífeyrisréttindi yngra fólks en þeirra sem eldri eru. Þannig geta einstaklingar fæddir 1953 vænst þess að ná um 80% af meðalævitekjum í lífeyri á sama tíma og þeir sem fæddir eru 1975 munu fá rétt liðlega 60%. Þessu er öfugt farið hér þar sem yngri kynslóðirnar munu hafa betri lífeyrisréttindi en þær eldri eftir því sem söfnunarlífeyriskerfið nær fullum þroska.
Misvitrir stjórnmálamenn eyðileggi ekki skynsamlegt og vel rekið lífeyriskerfi
Það sem einkennir íslenska lífeyriskerfið er framsýni þeirra sem það mótuðu. Það er óvenjulegt í Evrópu að til staðar sé jafn þroskað söfnunarlífeyriskerfi hjá jafn ungri þjóð og okkar. Fyrir vikið er öldrun þjóðarinnar ekki sérstök byrði á velferðarkerfið. Þvert á móti munu eldri borgarar framtíðarinnar ekki síður verða skattgreiðendur en þeir sem eru á vinnumarkaði. Þetta skiptir miklu máli, enda vitað mál að kostnaður við heilbrigðiskerfið okkar mun aukast í réttu hlutfalli við hækkandi meðalaldur þjóðarinnar.
Það leiðir hugann að annarri hugmynd sem skýtur reglulega upp kollinum, en það er að skattleggja innborganir í lífeyrissjóð í stað þess að skattur sé greiddur af útborgunum. Ein helsta röksemdafærsla þessa er að þetta muni að öðru óbreyttu minnka lífeyrissjóðina. Sú breyting á skattbyrði kynslóðanna sem þessu myndi fylgja er hins vegar grafalvarleg. Staðreyndin er sú að við skattlagningu útborgana, líkt og kerfið er byggt upp í dag, munu eldri borgarar framtíðarinnar standa straum af kostnaði velferðarkerfisins við öldrun þjóðarinnar. Verði þessu fyrirkomulagi breytt og inngreiðslur skattlagðar í staðinn þýðir það á mannamáli að þær kynslóðir sem nú eru á miðjum aldri eða eldri muni njóta góðs af en framtíðarkynslóðir munu fá reikninginn í formi hærri skattbyrði en ella. Tillögur þessa efnis snúast því í raun ekki um neitt annað en að ræna börnin okkar.
Það er grafalvarlegt að stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega skuli setja fram hugmyndir sem þessar. Í það minnsta Miðflokkur og Flokkur fólksins hafa það á stefnuskrá sinni að breyta skattlagningu lífeyrisgreiðslna og seilast þannig með krumlurnar í lífeyrissparnað landsmanna til að geta aukið útgjöld ríkissjóðs í dag. Slíkir tilburðir endurspegla annað tveggja, algert þekkingarleysi á eðli lífeyriskerfisins eða fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart því.
Lífeyriskerfið okkar er eitt hið öflugasta í Evrópu. Við eigum að vera stolt af því og verja þá framsýni sem aðilar vinnumarkaðarins sýndu með stjórnvöldum á sínum tíma við mótun þess og uppbyggingu. Við eigum að verja það með öllum tiltækum ráðum fyrir tilburðum skammsýnna stjórnmálamanna sem vilja fjármagna bólgin útgjaldaloforð með því að skattleggja framtíðina.