Rússneska byltingin 100 ára

Rósa Magnúsdóttir, sagnfræðingur við Árósaháskóla í Danmörku og sérfræðingur í sögu Sovétríkjanna og kalda stríðsins, skrifar um rússnesku byltinguna sem á 100 ára afmæli í dag.

Auglýsing

Í dag eru liðin 100 ár frá valdatöku bolsévika í Rússlandi. Hvað sem manni kann að finnast um byltinguna eða bolsévika almennt er engum blöðum um það að fletta að rússneska byltingin var einn allra mikilvægasti atburður tuttugustu aldarinnar, enda gætti áhrifa hennar langt út fyrir landamæri rússneska heimsveldisins. Alla öldina og fram að hruni Sovétríkjanna var haldið veglega upp á afmæli byltingarinnar ár hvert bæði heima og víða erlendis. Ísland var þar engin undantekning; byltingarafmælið skipaði stóran sess í félagslífi íslenskra sósíalista og var minnst með margvíslegum hætti.   

Hátíðahöldin í Sovétríkjunum báru þess alla tíð merki að nauðsynlegt var að réttlæta tilvist Sovétríkjanna og viðhalda útópískum hugsjónum bolsévika. En eftir því sem tíminn leið mátti greina áherslubreytingar í minningarathöfnunum. Í upphafi lögðu bolsévikar þunga áherslu á gildi byltingarinnar og þaulskipulögð hátíðahöld voru ein leið til þess að skapa „grundvallargoðsögn“ hinna nýju Sovétríkja. Hin opinbera goðsögn hvíldi á þeirri staðhæfingu að októberbyltingin hefði verið sjálfsprottin: að bolsévikar hefðu nánast verið bornir til valda í bylgju fjöldahreyfingar í Rússlandi. Ekki upplifðu þó allir byltinguna á þennan hátt og frá október 1917 hefur verið deilt um hvort byltingin hafi í raun verið valdarán bolsévika eða verið gerð í krafti fjöldahreyfingar. 

Þátttaka Rússlands í fyrri heimsstyrjöldinni kostaði miklar mannfórnir og eftir byltingarnar árið 1917 tók við áralöng blóðug borgarastyrjöld. Hin nýja ráðstjórn bolsévika lagði því mikla áherslu á að uppfræða almenna borgara um „rétt og viðeigandi“ viðhorf gagnvart byltingunni. Þar skiptu þjáningar óbreyttra borgaranna litlu máli. Markmiðið var að skapa og viðhalda goðsögn og sameiginlegum minningum um viðburð sem réttlætti einræði bolsévika og síðar Sovétríkin sjálf. Ekki þarf því að koma á óvart að til viðbótar við íburðarmikil hátíðahöld og umfangsmiklar hersýningar beitti hið unga ríki ritskoðun og kúgun til að útiloka viðhorf er ekki samræmdust grundvallargoðsögninni um októberbyltinguna.

Auglýsing

Að vissu leyti átti sigur Sovétmanna í „föðurlandsstríðinu mikla“ (eins og síðari heimsstyrjöldin er kölluð í Rússlandi) þátt í að styrkja lögmæti byltingarinnar, enda tengdu yngri kynslóðir mest við þann atburð fram eftir allri tuttugustu öldinni. Þegar opinber hátíðahöld á sigurdeginum 9. maí hófust í tíð Leoníd Brésnévs, leiðtoga sovéska kommúnistaflokksins á tímabilinu 1964–1982, fengu þau einnig meira vægi hjá Sovétmönnum en hátíðahöldin vegna októberbyltingarinnar höfðu haft. Og þannig hefur það haldist frá því að Sovétríkin liðu undir lok.

Frá árinu 1996 var ekki lengur vísað í „dag hinnar miklu októberbyltingar“. Í staðinn ákvað Boris Jeltsín, þáverandi forseti Rússlands, að dagurinn yrði endurskírður „dagur einingar og samstöðu“, enda ekki lengur ástæða til að standa vörð um grundvallargoðsögn ríkis sem var ekki lengur til. En þó svo að valdhafar í Rússlandi hefðu ekki séð ástæðu til að halda áfram upp á byltinguna opinberlega breytti það ekki sögulegu mikilvægi hennar fyrir Rússa. Mörgum finnst þó einkennilegt hversu lítill almennur áhugi hefur verið á rússnesku byltingunni í Rússlandi og hversu auðvelt hefur reynst að afmá eða bæla minningar um marga helstu atburði tuttugustu aldarinnar. 

Eins og áður sagði miðast áhugi Rússa á eigin samtímasögu aðallega við „föðurlandsstríðið mikla“ og valdhafar ýta undir þann áhuga með íburðarmiklum hátíðahöldum í maí ár hvert. Svo mikill er stuðningurinn við minningu föðurlandsstríðsins að 7. nóvember árið 2015 ákváðu rússnesk stjórnvöld að sviðsetja á nýjan leik hersýningu frá árinu 1941, þegar Rauði herinn marséraði fram hjá Kreml á leið sinni á vígstöðvarnar. Þessi viðburður, þar sem byltingarafmælið var notað til að halda upp á síðari heimsstyrjöldina, sýnir vel hversu erfitt það er fyrir núverandi valdhafa að halda upp á 7. nóvember. 

Núverandi forseti Rússlands, Vladimír Pútín, er þekktur fyrir aðdáun sína á stórveldi Sovétríkjanna, enda taldi hann upplausn þeirra „mestu hamfarir“ 20. aldar. Það samræmist þó ekki markmiðum hans að sýna stuðning sinn við byltingu sem velti sitjandi valdhöfum úr sessi – og á það jafnt við um mótmælendur á Maidantorgi í Kíev árið 2013 sem og byltingarsinna á Hallartorginu í Petrógrad árið 1917. Pútin hefur unnið markvisst að því að sameina Rússa og byggja upp sjálfsmynd þeirra sem þjóðar. Frá upphafi valdatíðar sinnar hefur hann þannig lagt áherslu á rússnesk gildi og hefur ekki viljað minnast umrótatíma, hvorki atburðanna árið 1917 né árið 1991, heldur túlka sögu Rússlands sem órofa heild.

Til að gera þeirri sögutúlkun skil hefur Pútín þurft að finna nýjar leiðir til að standa að sameiginlegum hátíðahöldum. Í valdatíð hans hefur verið gripið til þess ráðs að beina athyglinni frá 7. nóvember með því að endurvekja 4. nóvember sem sameiningardag þjóðarinnar og gera hann að opinberum hátíðisdegi. Fram að byltingunni 1917 hafði verið haldið upp á þennan dag til að minnast þess að sama dag árið 1612 tókst að reka pólskt hersetulið frá Moskvuríki og lauk þar með ólgu og ógnarstjórn þessa tímabils í sögu Rússlands. Alveg eins og byltingarafmælið var til þess fallið að sameina Sovétmenn í tryggð við hið nýja ríki og markmið þess duldist engum þau skilaboð sem fólust í því árið 2005 að sameina Rússa um minninguna um frelsi frá erlendum áhrifum, enda hefur Pútín ekki farið leynt með markmið sitt um „óháð og sterkt“ Rússland. 

Ekki voru þó allir sáttir við þessa viðleitni Pútíns að færa athyglina frá 7. nóvember. Þannig hefur Kommúnistaflokkur Rússlands haldið áfram að halda daginn hátíðlegan víðs vegar um landið. Kommúnistaflokkurinn minnist einnig 100 ára afmælisins með vikulangri dagskrá og viðburðum. Sömu sögu er að segja um Rétttrúnaðarkirkjuna, sem hefur haldið á lofti minningu byltingarinnar, en vitaskuld á allt öðrum forsendum en Kommúnistaflokkurinn, enda markaði rússneska byltingin upphaf ofsókna kommúnista gegn fulltrúum kirkjunnar.   

Á tímabili leit út fyrir að Pútín myndi standa að opinberri minningarathöfn í tilefna atburðanna árið 1917, en ekkert hefur orðið af því. Í nýlegri ræðu á rússneska þinginu notaði Pútín byltingarafmælið til að ítreka orðræðu sína um mikilvægi sátta og samstöðu í rússnesku samfélagi. Ekki eru þó allir sáttir við það hvernig Pútín ýtir undir þjóðernissjálfsmynd Rússa með því að stýra því hvernig almenningur upplifir og túlkar söguna. Í ár er Mikhail Zygar, þekktur rússneskur blaðamaður og gagnrýnandi Pútins einna mest áberandi fulltrúi þeirra sem vilja tefla fram annarri söguskoðun. (Þess má geta að Zygar kom hingað til Íslands á ráðstefnu árið 2016 til að fjalla um stjórnarfarið í Rússlandi á tímum Pútíns). Hann ákvað að koma sögunni um byltinguna árið 1917 áleiðis til almennings með því að opna vefsíðu ásamt hópi sagnfræðinga, blaðamanna og hönnuða sem ber heitið „1917: Svobodnaja istorija. Þar er sagan rakin daglega með vísun í atburði og raddir frá árinu 1917. Lesandinn sér þannig tímalínu sem minnir á samfélagsmiðla (hægt er að finna verkefnið bæði á ensku og rússnesku á öllum helstu samfélagsmiðlum) og er sérstök áhersla lögð á að sýna myndir ásamt textum úr dagbókum og bréfum fólks af öllum samfélagsstigum.

Þessi endurgerð sögunnar höfðar ekki aðeins til nýrra kynslóða; hún vekur einnig athygli á því að árið 1917 voru margs konar straumar í Rússlandi, ekki aðeins í stjórnmálunum heldur líka í listum og samfélagsmálum almennt. Verkefni Zygars er sjálfstætt framtak og hefur hlotið verðskuldaða athygli í Rússlandi og utan þess, enda mjög vel að því staðið. Hópurinn kom einnig að gerð viðamikillar sýningar í Tretjakov-galleríinu í Moskvu sem nú stendur yfir. Með því að beita nútímalegum aðferðum við miðlun sögunnar hefur Zygar tekist að beina sjónum að þessari flóknu sögu bæði heima við og út um allan heim. Hundrað ára afmælis byltingarinnar hefur einnig verið minnst við háskóla, söfn og stofnanir í Rússlandi og utan þess. Út hafa komið ótal nýjar bækur og greinar um rússnesku byltinguna á fjölmörgum tungumálum og sjónvarpsstöðvar sýna heimildamyndir um dramatíska sögu byltingarinnar og Rússlands á 20. öld. Minningu byltingarinnar og sögulegu mikilvægi hennar er þannig haldið á lofti í fræðasamfélaginu sem og fjölmiðlum. 

Margir skýra þögn Pútíns um byltingarafmælið svo að hann sé með hugann við forsetakosningarnar sem fara fram í Rússlandi á næsta ári. Til að styrkja stöðu sína skipti mestu máli að koma á framfæri ímynd „stöðugleika og samstöðu“ meðal rússnesku þjóðarinnar, en ekki minnast umdeildra atburða. Mótmælin gegn honum í Rússlandi síðustu helgi og vikur sýna þó að einhver hluti Rússa er honum ekki hliðhollur. Og augljóst er að Pútín, eða hinn „nýi keisari Rússa“ eins og breska vikuritið The Economist kallaði hann í nýlegri umfjöllun, sér sér engan hag í því að minnast eða vekja opinberlega athygli á valdatöku fámenns hóps fyrir hundrað árum.

Höfundur er dósent í sagnfræði við Árósaháskóla í Danmörku. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja og sonur hans, Baldvin Þorsteinsson, er yfir Evrópuútgerð Samherja.
Norskur ráðherra segist ekki sjá ástæðu til að hjálpa Samherja að safna meiri kvóta
Norsk stjórnvöld hafa gripið formlega til aðgerða vegna tilraunar Samherja til að komast yfir aukin fiskveiðikvóta þar í landi. Reglur verða hertar og fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi þar í landi verða bundnar sérstakri heimild.
Kjarninn 9. maí 2021
Women Empowerment – bók eftir Eddu Falak
„Kynþokki er allavega og við ættum ekki að vera hræddar við að sýna hann“
Edda Falak safnar nú fyrir bók sem ber nafnið „Women Empowerment“ á Karolina Fund.
Kjarninn 9. maí 2021
Mótmælandi steytir hnefa í borginni Cali en þar hafa átök milli mótmælenda og lögreglu orðið hve hörðust í mótmælunum sem staðið hafa yfir frá því 28. apríl í Kólumbíu.
Mótmæla harðræði lögreglu í Kólumbíu
Mótmæli hafa staðið yfir í Kólumbíu í á aðra viku. Upphaflega voru það breytingar á sköttum sem fólk mótmælti en síðar varð það harðræði lögreglu sem dró fólk af stað. Félagasamtök segja að hátt á fjórða tug mótmælanda hafi látist vegna aðgerða lögreglu.
Kjarninn 9. maí 2021
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar