Í heimi þar sem viðskiptavinir okkar skilja eftir sig fingraför af hegðun sinni, það er að segja persónuupplýsingar, í bæði þjónustu- og vörukaupum á netinu þykir ýmsum fyrirtækjum freistandi að fara á fjársjóðsveiðar til að finna þessi hegðunarmynstur og hagnast af þeim upplýsingum. Sjálfur hef ég þó efasemdir um að slík leið sé arðbær til lengri tíma litið og seint verður hún siðleg. Enginn hefur gaman af því að vera með eltihrelli á eftir sér, auk þess sem ný persónuverndarreglugerð frá Evrópusambandinu sem tekur gildi á næsta ári hér á landi, mun draga verulega úr möguleikum á því að afla sér upplýsinga með þessum hætti. Til er farsælli leið til að komast að því hverjir réttu viðskiptavinirnir eru og svarið felst í því að ávinna sér traust viðskiptavinarins. Það verður ekki gert með aðferðum eltihrellisins.
Svarið liggur í persónuupplýsingum viðskiptavinarins
En hvernig leggur þú áherslu á réttan viðskiptavin? Hver eru réttu mæligildin? Hvernig veistu hver er rétti viðskiptavinurinn og hver er það ekki? Bestu gögnin liggja hjá viðskiptavininum þínum, þú þarft einfaldlega að setja þig í samband við hann en ekki lauma þér að honum með hjálp gagna frá utanaðkomandi aðilum, svo sem gagnaveitum og leitarfyrirtækjum. Með því að nálgast viðskiptavinina þína heiðarlega og skilja þá betur munt þú gera fyrirtæki þitt sjálfbært til framtíðar.
Fyrirtæki og stofnanir þurfa að ná til og byggja upp tengsl við viðskiptavini sína til að skilja þá betur. Persónusniðin þjónusta snýst um að byggja upp djúpt samband við viðskiptavininn svo að þú getir búið til viðvarandi og sjálfbært samband þar sem náð er hámarksvirði fyrir báða aðila.
Slíkt samband hefst ekki nema að fyrirtækin taki af skarið og byrji að deila þeim upplýsingum til viðskiptavina sinna sem þeir geyma um þá. Með því eru fyrirtæki að taka fyrsta skrefið í því að byggja upp traustið sem þarf til. Það vill svo skemmtilega til að fyrirtæki munu þurfa að láta þessar upplýsingar af hendi þegar reglugerðin verður innleidd. Hvers vegna ekki að hugsa út í þá hluti fyrir fram og undirbúa sig fyrir þá framtíð sem við okkur öllum blasir og vera á undan reglugerðinni og þar með samkeppnisaðilunum?
Traust í hagkerfi persónugagna verður ekki byggt nema að fyrirtæki taki upp nýja nálgun á viðskiptavini sína og innleiði djúpt í DNA fyrirtækis þá viðleitni til þess sem ég kýs að nefna GiveFirst lögmálið. Í heimi með aragrúa af vörum og þjónustu samkeppnisaðila þarf persónusniðna þjónustu til að ná í gegn til réttu viðskiptavinanna.
Þetta er það sem hvert nýsköpunarfyrirtæki gerir í upphafi starfsemi sinnar, afhendir eða gefur vöru sína frítt svo hugsanlegir viðskiptavinir þeirra geti mátað sig við hana áður en þeir þurfa að taka kaupákvörðun. Fjöldi viðskiptalíkana hafa komið fram frá farsælum nýsköpunarfyrirtækjum á síðustu áratugum sem þroskuð fyrirtæki geta svo sannarlega lært sitthvað af.
Höfundur er viðskipafræðingur og framkvæmdastjóri Dattaca Labs Iceland ehf.