Í Silfri Egils þann 12. nóvember var fjallað um fjölgun útlendinga á Íslandi, ein besta og málefnalegasta umræða um þennan málaflokk sem ég hef séð í langan tíma, Þórður Snær Júlíusson er einn besti greinandinn í þessum málaflokki og honum tókst að opna augun þátttakenda og okkar allra um gífurleg og jákvæð áhrif innflytjenda á efnahag Íslands, en fólk af erlendum uppruna telst nú þegar 27,3% allra skattgreiðenda og fjölgar ört. Sem dæmi fyrir grundvöll hagvaxtar á Íslandi voru nefnd útflutningur á makríl og innflutningur á vinnuafli af erlendum uppruna.
Skiljanlega var engum fulltrúa makrílstofnsins boðið í þáttinn. En engum innflytjanda heldur sem er nú erfiðara að skilja. Gætum við séð fyrir okkur í dag umræðuþátt um kynjajafnrétti þar sem einungis karlmönnum væri boðið? Umræðu um nýliðun í kennarastétt án þess að fulltrúi kennara væri viðstaddur sem sérfræðingur? Innflytjendur eru nú þegar 11 % af fólkinu sem byggir þetta land en langoftast heyrum við jafn lítið í þeim og makrílnum. Jákvæð teikn voru á loftinu á síðasta þingi þar sem tveir þingmenn voru af erlendum uppruna og í fyrsta skipti var rætt í einhverjum mæli við fólk sem fæddist ekki hér á landinu um breiða málaflokka, ekki bara innflytjendamál. Grunur læddist að manni að innflytjendur væru alls konar fólk, jafnvel fólk með alls konar skoðanir. En við virðumst hafa tekið fleiri skref til baka aftur núna.
Tölurnar sem lagðar voru fram og greinargóðar skýringar á þeim í þessum þætti verða að vekja okkur af værum blundi, okkur í sveitarstjórnarmálum sem þurfa að skapa börnum af erlendum uppruna framtíð og jöfn tækifæri en ekki síður þá sem starfa við stefnumótun þjóðfélagsins í heild sinni. Í þættinum var rætt um störf sem „við Íslendingar kærum okkur ekki um að vinna“, láglauna- og þjónustustörf sem eru ætluð innflytjendum. Hér kom mjög vel fram og mikilvægt er að nefna hlutina eins og þeir eru: að Ísland hefur engan metnað að vera aðlaðandi fyrir hámenntað fólk af erlendum uppruna, þó að það vantar líka t.d. lækna og hjúkrunarfræðinga. Við gætum með þessari þróun stefnt að því að skapa til langframa tvískipta þjóð: einhvers konar herraþjóð ráðandi stéttar auðugra innfæddra og þöglan her þjónustuaðila af erlendum uppruna. Nýrasistar í íslensku samfélaginu sem „þora að taka umræðuna“ gæti nú sagt „já, takk“ við þeirri framtíðarsýn. En ég er samt sannfærð um að stærsti hluti Íslendinga sættir sig ekki við að búa í slíku samfélagi.
Mikilvægt skref væri að gefa innflytjendum rödd í opinberri umræðu, ekki bara til að fá sérfræðiálit þeirra á eigin málefnum, heldur að sýna öllum, fólki af íslenskum sem og erlendum uppruna, að innflytjendur séu fjölbreyttur hópur sem gæti jafnvel auðgað umræðuna með víðari sýn og reynslu sinni. Ég hvet þess vegna fjölmiðla að nýta sér raddir innflytjenda í umræðunni, það græða allir á því. Hver veit, við gætum jafnvel haft skoðun á makrílveiðunum.
Höfundur er varaborgarfulltrúi.