Sjálfstæðiskonan Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hitti naglann beint og örugglega á höfuðið með eftirfarandi orðum, sem finna má á vefsíðu Ríkisútvarpsins:
„… við þurfum auðvitað bara að ná saman og sýna það að við ætlum að láta stjórnmálin virka á ný. …“
Þótt konan sé ung þá blasir við mér að hún horfi til þeirra tíma fyrir sitt minni, tíma helmingaskiptastjórnmálanna þegar eigendur Sjálfssóknarflokkanna réðu því, sem þeir vildu ráða og kölluðu um leið þungbært og langvinnt böl spillingar, fátæktar og þröngsýni yfir þjóðina.
Eftirfarandi má einnig finna á sömu vefsíðu:
Fyrirhugaðar stjórnarmyndunarviðræður leggjast mjög vel í þingkonurnar Bryndísi Haraldsdóttur frá Sjálfstæðisflokki, Svandísi Svavarsdóttur frá Vinstri grænum og Þórunni Egilsdóttur frá Framsóknarflokki, …. „…kannski verðum við öll Framsóknarmenn,“ segir Svandís Svavarsdóttir.
Svandís, sem er ögn eldri og töluvert reyndari en Áslaug Arna, hittir naglann líka á höfuðið. Vissulega talar Svandís í hálfkæringi en það breytir því ekki að þarna bendir hún á þann sorglega sannleik að þessa dagana koma nytsamir sakleysingjar Vinstri grænna til bjargar helmingaskiptaöflunum, sem voru loksins að missa mátt sinn og gátu ekki lengur af eigin rammleik ráðskast með fjöregg þjóðarinnar að geðþótta sínum.
Loks má lesa þetta á vefsíðu Ríkisútvarpsins:
„Það hefur ekkert breyst í því að við erum, að okkar mati, höfuðandstæðingar Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum og við viljum beita okkur fyrir annars konar vinnubrögðum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs….
Ef hér talaði stjórnmálakona með 25-30% fylgi (eins og vonir voru bundnar við fyrir kosningar) væri það stórhættulegur leikur að eldspýtum að ganga til liðs við þennan höfuðandstæðing. Þegar maður kemur laskaður og þjakaður af vonbrigðum út úr kosningum með 16,9% fylgi í farteskinu þá jafngildir það tendrun elds í Kaupinhafn að ganga til stjórnarsamstarfs við höfuðandstæðinginn með von í hjarta um breytt vinnubrögð.
Höfundur er prófessor emeritus í félagsfræði við Háskóla Íslands.