Svo mikið að segja en of lítill tími til að segja það. Ég hata þetta, ég hata allt um það. Ég hata að þurfa að berjast fyrir hreinu lofti sem við þurfum öll að anda. Ef bæjaryfirvöld hefðu hugsað út fyrir kassann þegar kom að því að skapa störf fyrir íbúa Reykjanesbæjar hefði verið hægt að koma í veg fyrir allt varðandi umhverfisslysið í Helguvík. Þeir hefðu getað skapað næga vinnu og tryggt okkur öruggt, hreint og heilbrigt umhverfi.
Í stað þess að setja saman hóp af skapandi fólki til að hugsa upp hvernig við hefðum getað tekist á við það atvinnuleysi sem blasti við okkur þá hoppuðu ráðamenn og bæjaryfirvöld um borð í einn mesta mengunardjöful sem hægt var að finna og seldu okkur íbúa á algjöru gjafaverði. Ég er ekki viss um hvert hlutverk kjörinna fulltrúa okkar er en þau eru klárlega ekki að vinna vinnuna sína þegar kemur að því að vernda íbúa og umhverfi þeirra. Kísilver nútímans eru uppfærð 19. aldar skrímsli jafnvel þó þau framleiði 21. aldar vörur.
Hvað voru ráðamenn að hugsa þegar þau ákváðu að styðja við uppbyggingu á ekki einu heldur tveimur mengandi kísilverum sem eiga bara eftir að menga umhverfið okkar og stofna heilsu okkar íbúa í hættu? Voru þau bara að hugsa um að skapa störf? 150 störf?Pening til að rétta af fjárhag bæjarins? Voru þau að fóðra eigin vasa? Átti þetta að vera fjöður í hattinn þeirra ?
Hvað voru þau að hugsa?
Mér líður svolítið eins og það sé verið að leggja okkur íbúa í einelti. Mér líður eins og við séum lögð í einelti af United Silicon og þeim kjörnu fulltrúum sem voru kosin einmitt til að standa vörð um hagsmuni okkar. Kæru íbúar, ef við berjumst getum við tapað, ef við berjumst ekki þá höfum við tapað nú þegar.
Núna er rétti tíminn til að berjast. Að hefja bardaga sem við öll, íbúar þessa bæjarfélags, ættum að vera saman í. Það er ekkert eðlilegt við það að hér sé komið starfsleyfi fyrir tveimur stærstu kísilverum í heiminum. Það sem er óeðlilegt við það er að sumum finnst þetta bara allt í lagi og jafnvel styðja við áframhaldandi vegferð skrímslavinnslunnar í Helguvík. Nú vil ég ekki leggja neinum orð í munn en það er mín ályktun að þeir opinberu starfsmenn sem koma að málinu virðast halda að þessi kísilver eigi eftir að bjarga bæjarfélaginu frá gjaldþroti. Það er hins vegar staðreynd að ef verksmiðjur af þessari stærðargráðu fá að rísa eiga þær eftir að skila mjög takmörkuðu fjármagni til bæjarfélagsins.
Eina sem þær munu skilja eftir sig er mjög sviðin jörð og heilsulausir og vansælir íbúar. Ég neita að trúa því að mannréttindi okkar íbúa hér í Reykjanesbæ trompi ekki þau starfsleyfi og samninga sem gerð hafa verið í kringum Helguvík. Hér er ég að tala um þá staðreynd að takmarkið er að brenna um eða yfir 4000 tonnum af kolum, kvarsi og viðarkurli hvern einasta dag. Barátta okkar bæjarbúa gegn þessari vá á hins vegar eftir að skila sér út í samfélagið. Við fáum náttúruna okkar til baka, lífsgæði aukast, heilsa íbúa batnar og svæðið okkar eftirsóknarverðara. Auk þess getum við státað okkur af því afreki að vera bærinn sem stóð saman og sigraði Golíat.