Skattrannsóknarstjóri rannsakar mögulega aðild öryggisfyrirtækisins 115 Security að meintum skattsvikum undirverktaka fyrirtækisins á árunum 2011 til 2014.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, og segir í umfjöllun blaðsins að rannsóknin beinist að 700 milljóna króna verksamningi 115 Security við níu undirverktaka sem nú hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota.
Fréttablaðið greinir frá þessu. Þar segir að rannsóknin beinist að 700 milljón króna verksamningi 115 Security við níu ónefnda undirverktaka sem nú eru allir gjaldrota en grunur leiki á að þar hafi verið um svarta atvinnustarfsemi og svokallaða gerviverktöku að ræða. Með þessum hætti hafi allt að 400 milljónum króna verið stungið undan skatti.
Friðrik Sverrisson, framkvæmdastjóri 115 Security, segir í viðtali við Fréttablaðið að það sé af og frá að fyrirtækið hafi átt nokkurn þátt í meintum svikum og furðar sig á því að það sé dregið inn í rannsóknina – enda hafi það ávallt staðið í skilum. Verktakasamningum hafi sömuleiðis verið rift um leið og fyrirtækinu hafi verið gert viðvart um hugsanleg skattsvik. „Þetta er mjög skrítið mál og fordæmalaust með öllu. Það er verið að rannsaka skattskil hjá undirverktökum fyrirtækisins, og verið að blanda okkur inn í málið algjörlega að ósekju. Þeirra skattskil eru okkar félagi algjörlega óviðkomandi, en þegar við fengum ábendingu um að skattskil þessara undirverktaka væru í ólestri þá hættum við strax viðskiptum við þá,“ segir Friðrik.