Reykjavíkurborg hefur verið að reyna að þétta byggð undanfarin ár með því að úthluta færri lóðum í úthverfum og úthluta fyrir kústaskápaíbúðum í miðbænum í staðinn sem eru að meðaltali um 80,2 fm.
Á kjörtímabilinu hefur borgarmeirihlutinn aðeins úthlutað 14 lóðum fyrir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum á sama tíma og þörfin er metin vera um 5000 íbúðir. Í tölum sem teknar voru saman í mars sl. kemur fram að frá síðustu kosningum hefur Reykjavíkurborg úthlutað 317 lóðum fyrir íbúðarhúsnæði. Meðan Kópavogur úthlutaði 348 lóðum, Hafnarfjörður 329 og Reykjanesbær með 359.
Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig Reykjavíkurborg hefur því dregið lappirnar með hlutfallslegar lóðaúthlutanir. Borgin hefði þurft að vera með 3x fleiri úthlutanir til að sinna skyldu sinni og vera í kringum meðaltalið hjá nágrannasveitafélögum. Garðabær fær líka skömm í hattinn fyrir að leggjast ekki fastar á árarnar.
Enda hefur íbúðaverð rokið upp á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa heimatilbúna vanda. Svo ekki sé minnst á að það er orðið ógerlegt að fá íbúð leigða. Þetta er óhjákvæmileg afleiðing af því að stærsta sveitarfélagið á svæðinu setur handbremsuna á uppbyggingu.
Þessi þrjóska við að úthluta íbúðum er komin til vegna þess að borgarmeirihlutinn vill gera hvað sem er til að þétta byggð í borginni. Jafnvel þó það kosti umtalsverð óþægindi fyrir íbúana. Þetta er gert með það samfélagslega markmið að fólk geti tekið strætó í vinnuna eða gengið og hjólað einhvern tímann í fjarlægri framtíð. Hugsunin er sem sagt sú að ef það búa nógu margir nógu þétt, þá þurfi fólk ekki að ferðast eins mikið innan borgarmarkanna.
Það eru margir gallar við þessa hugsjón. Fyrir utan að það er á mörkum góðs siðferðis að reyna að þröngva samgönguvenjum fólks í aðra átt en það vill og reyna að þröngva fólki til búsetu við skilyrði önnur en náttúruleg þróun á húsnæðismarkaði myndi óhjákvæmilega leiða til. Það sem gerist þegar fólk fær ekki lóðir í Borginni er að það flýr þá til nágrannasveitarfélaga. Það verður að teljast ósennilegt að það hjálpi með þéttingarmarkmiðin. Því stórir hlutar þessa fólks vinnur og starfar áfram í borginni.
Myndin hér sýnir hverslags ógjörningur þessi þétting byggðar er. En þarna sést að 1998 var síðasta árið þar sem íbúafjöldi í Reykjavík jókst umfram íbúafjölda í Kraganum. Þetta gerist þrátt fyrir að Reykjavík sé lang fjölmennasta sveitarfélagið. Þessari þróun verður ekki snúið með því að þrengja að fjölskyldubílnum og hætta að úthluta íbúðalóðum í úthverfum.
Strætósamgöngur, Borgarlína, hjólreiðar og göngustígar munu ekki heldur mæta þessari þróun. Mér virðist sem borgarstjórnarmeirihlutinn sé að aka sofandi að rauðu ljósi. Fólk sem býr í úthverfum og Kraganum er að fara að upplifa gríðarlega lífskjaraskerðingu ef þessum áætlunum um þéttingu byggðar og þrengingu gatna verður ekki snúið við. Þegar sífellt stærri hluti dagsins fer í að sitja föst í umferðaröngþveiti.