Staðreynd:
Á Íslandi eru allt að tvisvar sinnum meiri líkur á þunglyndi meðal einstaklinga sem ekki hafa lokið menntun eftir grunnskóla heldur en meðal þeirra sem hafa lokið háskólaprófi.
Hið augljósa:
Einhverjir kynnu að segja að þeir sem ljúka framhaldsnámi séu einmitt frekar þeir sem eru með sterkar taugar. Þessar tölur séu að einhverju leyti vegna þess. Það er rökrétt ályktun. Það er engin spurning um að þeim sem hefur almennt vegnað betur í lífinu fram að þeim punkti, sem kemur að því að velja sér framhaldsmenntun, eru mun líklegri til að halda áfram að vegna vel í lífinu. En munurinn á milli þessara hópa er langtum meiri hér en annars staðar í OECD. Ég tel að þetta sé eitthvað sem mætti taka til skoðunar.
Kenning:
Hér ríkir viðhorfsvandi til menntunarstöðu og skortur á úrræðum fyrir þá sem kjósa aðra leið í lífinu en bóknám.
Gagnrýni:
Þessar tölur sýna að aukin framhaldsmenntun minnki líkur á þunglyndi.
Svar:
Ef það er rétt, þá ætti það lögmál að gilda á sama hátt um Svía og margar aðrar þjóðir þar sem munurinn er minni á tíðni þunglyndis milli menntunarstiga. Er ekki líklegra að „náttúrulegur“ munur á milli þessara hópa sé vegna þess að menn voru þunglyndir fyrir og áttu þess vegna erfiðara með að ljúka námi? Það sé þunglyndið sem hefur áhrif á námsárangur, en ekki öfugt?
Ef kenningin um að nám komi í veg fyrir þunglyndi á að standast, þá er greinilega mikill munur á námi á Íslandi miðað við t.d. Svíþjóð hvað þetta varðar. Við eigum líka enn eftir að sjá geðlækna skrifa upp á viðskiptafræði til að lækna þunglynda. Ég vek einnig athygli á að þunglyndi meðal háskólamenntaðra er svipað hér og í mörgum samanburðarlöndum. Þunglyndið meðal hinna er frávikið.
Ályktun:
Ef það má tala um „náttúrulegan“ mun á tíðni þunglyndis milli menntunarstiga, þá er munurinn þar á milli hér á Íslandi „ónáttúrulega“ hár. Að líkindum margfalt meiri en hann gæti best verið.
Orsakir:
Ég held að við getum útilokað tilgátuna að námsstig sé orsakavaldur. Þá sé ég á borðinu þrjá mögulega aðra orsakavalda:
1. Menntakerfið styður illa við þá sem lenda í andlegum erfiðleikum eða þurfa meiri félagslega aðstoð til að ljúka námi. Þannig að lítill hluti þess hóps lýkur námi.
2. Hugsanlegt er að vegna ríkrar kröfu frá samfélaginu um æðri menntun þá valdi það vandamálum hjá þeim sem ekki ljúka námi. Það sé í raun orsök þunglyndis hjá mörgum að verða undir í samfélagi sem gerir mikla kröfu um menntun. Menn sjá að tækifærin til að öðlast gott líf hafa að miklu leyti runnið úr höndunum á þeim. Ef til vill af ástæðum sem voru óviðráðanlegar til að byrja með.
3. Hugsanlega eru einfaldlega mun betri námsleiðir og úrræði fyrir aðra en þá sem vilja klára háskólanám í hinum löndunum.
Ég tel að blanda af þessum þremur þáttum útskýri muninn milli landanna.
Hver er þín skoðun?
Höfundur er félagsmálafrömuður