Ég hugsaði að það væri að bera í bakkafullann lækinn að tala um Metoo núna en um leið, af hverju ekki? Höfum við allar ekki þagað nógu lengi?
Þap sem ekki mátti tala um hefur öðlast rödd.
Þaggaðar raddir kvenna sem hafa læðst með fram tímanum sem líður og blómstra nú í faðmi þúsunda. Metoo sprengdi stíflu og frásagnir streyma niður fordóma karlrembunnar.
Ég skil erfiðleika karla sem eru vanir því að vera miðpunktur alls, að fylgjast nú með Metoo þar sem þeir eru það ekki.
En, sorrí guys, en þetta heitir framfarir og það er svo sannarlega kominn tími á þær. Þið eruð öskubakkarnir þegar reykingabann var sett á veitingastaði.
Að konur þori að segja frá andlegu og líkamlegu ofbeldi eru mikilvæg skref í átt að betra og réttlátara samfélagi. Og heilbrigðara of kors.
Eitt af mörgu sorglegu sem kemur í ljós í tengslum við umræðuna, er að sumir ungir menn virðast ekki hafa aðrar fyrirmyndir en hrædda karla og klámkjafta.
Góðar fyrirmyndir og uppeldi skiptir máli. Að tala saman um um virðingu og mörk.
Sem unglingur hélt ég að málið væri að leysast. Að allir vissu þá að ójafnrétti væri ekki „nútímalegt“ og við því yrði brugðist. Því miður var það ekki svo og hafa dætur mínar einnig þurft að þola áreiti þessa markarlausu karla á sínum tuttugu plús árum.
Ég ól dætur mínar upp í Stokkhólmi, í landi sem samkvæmt öllum mælingum, býður upp á mest jafnrétti. Vorum á sumrin á Íslandi og ég man þegar stelpurnar komust á þann aldur að þær færu að taka eftir því sem sló mig eftir langa fjarveru frá Íslandi. Karlremban og viðhorf til stelpna.
Ég segi ekki að íslenskar karlrembur séu verri en sænskar. Ég bý í Þýskalandi og eru þýskar karlrembur jafn slæmar og þær sænsku og íslensku, svo ég tali nú ekki um þær austurrísku.
Þegar ég heimsæki tvíburasystur mína á Ítalíu þá skil ég að allar karlrembur eru jafn óþolandi og vont mein sama á hvaða máli þeir tala eða káfa.
Þegar ég fór sextán ára sem skiptinemi til Austurríkis var karlremban mesta menningarsjokkið. Að ganga fram hjá byggingarsvæði og heyra hvernig körlunum á stillönsunum fannst í lagi að kalla og lýsa hvað þeir vildu gera. Hvernig kennari tók um rassinn á mér og spurði hvort ég ætti bara gallabuxur og ekkert pils, og margt verra. En það var líka vont þegar kennari í íslenskum menntaskóla króaði mig af. Í gegnum Metoo byltinguna rifjast ýmislegt upp. Kraftur hugrakkra kvenna sem stíga fram hefur hjálpað mér eins og öðrum að vinna úr kynbundnu ofbeldi sem flestar konur hafa upplifað.
Vinkona, sem kennir við listaháskóla í Sviss, sagði nýlega að þeir einu sem töluðu um Metoo þar væru karlar og þá til að kvarta yfir því að þeir „megi“ ekkert lengur. Að yfirmaður hennar hafi komið þétt aftan að henni og sagt að hún væri alltaf svo sexí þó hún væri bráðum fimmtug. En, bætti hann við, það mætti hann ekki segja í „Þessu Metoo rugli öllu“.
Þetta fórnarlambatal karla er svo patetískt að það hálfa væri nóg, en kannski er ástæða til þess að skoða það nánar til þess að gera sér grein fyrir óréttlátu kerfi og því sem sumir menn óttast að þeir séu að missa. Karlar með völd vegna samtryggingar við aðra karla en ekki vegna menntunar eða hæfileika.
Þar stendur kannski hnífurinn í kúnni (eða nautinu).
Óttinn um að vera afhjúpaður sem fúskari, vel meðvitaður um það að margar konur í kringum þig eru mun betur menntaðar, undirbúnar o.s.frv. En þú, forréttindakarlinn hefur rennt þér áfram á remúlaði flokksins, frímúrara eða vottever gegnum lífið í feitum jeppa og nú eru allt í einu konur farnar að „væla“. Tala um sannleikann og segja bara hreint út hvað þú ert mikið fordómafífl. „Andskotinn hafi það vinstrikellur á Alþingi að kvarta...eh nei, bíddu eru konur úr öllum flokkum, ha? Best að hætta á Facebook það eru allir svo vondir við okkur „
Hér í Þýskalandi er Metoo langt frá því að vera hreyfing og óhugsandi að þýskar þingkonur fylgdu í fótspor þeirra íslensku.
Ég er stolt og hrærð yfir sænskum og íslenskum konum og styrk þeirra.
Það er enn langt í land og karlremban hnattrænt mein, með þjóðlegum sérkennum. Kannski eru íslenskar karlrembur bara fastar í giljum og gjótum menningarlegrar mishröðunar. Það sem við þurfum að gera er að rétta þeim hendur og kippa inn í nútímann, þar sem er bjartara og skemmtilegra að lifa heil saman.