Við erum orðin vön því að stjórnmál sé eitthvað sem við verðum fyrir, ekki eitthvað sem við iðkum. Þess vegna eigum við erfitt með að sjá fyrir okkur að við getum verið gerendur á hinu stjórnmálalega sviði. Við högum okkur í raun ekki eins og fullorðið fólk í umræðunni af því að við höfum ekki fengið tækifæri til þess að þroskast sem þátttakendur í stjórnmálum. Við erum í vissum skilningi börn. Við myndum okkur kannski skoðanir og höldum þeim jafnvel fram en göngum út frá því að hafa þurfi vit fyrir okkur. Þess vegna viljum við á endanum bara að mamma og pabbi hætti að rífast. Margir önduðu því léttar þegar VG og Sjálfstæðisflokkurinn gengu í eina sæng saman. Einn þeirra var Jóhann Friðrik Friðriksson.
Í greininni „Guð blessi Ísland“ dregur Jóhann upp mynd af eftirhrunsstjórnmálum og byrjar á því að bera saman kosningu Obama í Bandaríkjunum og stjórnmálaumræðuna á Íslandi á mánuðunum í kjölfar hrunsins. Hann skrifar: „Strax frá byrjun talaði Obama um bjartari tíma ef allir legðust á eitt og lagði áherslu á það að hann væri forseti allrar þjóðarinnar, ekki bara þeirra sem hann kusu. Sjaldan heyrði maður forsætisráðherra sem hér sátu tala í þá átt. Hér heima fannst mér hatrið allsráðandi og átakapólitíkin í tísku.“ Hann tekur nokkur dæmi og bætir svo við: „Heima var upphrópunarpólitíkin nefnilega hafin strax í byrjun kreppunnar.“
Þar með leggur hann grunn að söguskoðun sinni sem hljóðar nokkurn veginn svona: Stjórnmálamenn í Bandaríkjunum brugðust við komu kreppunnar af yfirvegun en smám saman náði svokölluð „upphrópunarpólitík“ að festa rætur, sem varð til þess að Trump var kosinn. Á Íslandi var þetta öfugt að mati Jóhanns. Við byrjuðum á hatrömmum deilum en eygjum nú von um að vera að komast út úr þeim praxis og yfir í nýtt skeið sáttastjórnmála. Hann tekur ekki afstöðu til málefnanna sjálfra heldur tekur yfirlitsmynd af tóni umræðunnar í löndunum tveimur og litar í eyðurnar. Við skulum líta framhjá staðreyndum eins og þeirri að byssusala rauk upp úr öllu valdi í Bandaríkjunum um leið og Obama var kjörinn, auk þess sem vefþjónar sem hýstu heimasíður kynþáttahatarasamtaka hrundu á síðustu mánuðum ársins 2008 vegna skyndilega aukinnar umferðar og gefa okkur að heildarmynd Jóhanns sé í aðalatriðum rétt.
Hvað segir það okkur?
Til eru tvær leiðir til að skoða orsakir og afleiðingar á hinu stjórnmálalega sviði. Gróflega mætti kalla þær efnishyggju og hughyggju. Á meðan efnishyggjan gerir ráð fyrir því að pólitískar sviptingar eigi rætur sínar að rekja til raunaðstæðna hjá fólki og að þær aðstæður móti ríkjandi viðhorf er nálgun hughyggjunnar á þann veg að það séu fyrst og fremst ríkjandi viðhorf sem móti raunaðstæður. Það er því skiljanlegt að hughyggjufólk hallist að því að yfirvegun ráðamanna sé mikilvægasti þátturinn í því að koma öllu á réttan kjöl og líti fram hjá þætti óréttlætis í afbökun stjórnmála. Þetta fólk botnar hvorki upp né niður í kosningu Donalds Trump af því að það er blint á það hvernig kapítalismi elur af sér ójöfnuð, ójöfnuður elur af sér stéttagremju og stéttagremja sem fær ekki eðlilega útrás (sérstaklega í kæfandi elítisma bandarískrar stjórnmálaumræðu) verður að sálarætandi hatri.
Forsetinn Donald J. Trump er skilgetið afkvæmi þeirrar samfélagsspennu sem kapítalismi leiðir af sér. Lausnin er ekki að allir andi djúpt og séu kurteisari. Auðvitað er mikið uppbyggilegra að orða hlutina málefnalega og barnaleg útlegg eins og uppnefni og gífuryrði eru ekki áhrifaríkar leiðir til að finna lausnir. En þau útlegg eru ekki orsök hatursins í umræðunni heldur afleiðing þess. Orsök gremjunnar er ekki hugmyndafræðilegt sjónarhorn heldur bersýnilegt og kaldrifjað óréttlæti. Freud kennir okkur að bæling elur af sér óeðli og það sýndi sig svo ekki var um villst haustið 2016 í Bandaríkjunum.
Barack Obama var nefnilega síðasta falsvonin sem auðvaldinu í Bandaríkjunum tókst að selja almenningi. Hann bauð sig fram sem boðbera nýrra tíma í pólitík, talaði um von og breytingar, notaði slagorð sósíalistans César Chavez (Sí, se puede! = Yes, we can!) og stýrði svo landinu að eigin sögn eins og hófsamur Repúblikani. Það er satt sem Jóhann segir að Obama-stjórnin lagðist í fáheyrðar aðgerðir „til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang“ en umbótaaðgerðir hans í heilbrigðismálum voru eftir rúmlega áratugsgamalli forskrift Repúblikana og hann jók líka við hernaðarumsvif Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum og víkkaði verulega út hlerunarstarfsemi þá sem Bush-stjórnin hóf. Er eitthvað skrýtið að ameríska þjóðin hafi verið reið Demókrötunum? Og svo bætti flokksforystan gráu ofan á svart með því að svindla í forkosningunum í þágu Hillary Clinton til að hafa útnefninguna af kratanum Bernie Sanders. Auðvitað er foráttuheimskulegt að kjósa fasista eins og Trump í þeim tilgangi að rétta Washington miðfingur í geðvonskukasti en reiði sem fær ekki heilbrigðan farveg mun finna sér óheilbrigðan í staðinn.
Og hvað með Ísland?
Jóhann víkur nú athyglinni að kosningunum á Íslandi í október 2017 og skrifar: „Í takt við kosningar Trumps fylgdu mykjudreifandi lygaauglýsingar veraldarvefsins og þá stóð fátt sem aðskildi örríkið og risaveldið. Eftir kosningar á Íslandi hvað þó óvænt við nýjan tón. Nú var ljóst að menn urðu að vinna saman ef starfhæf ríkisstjórn ætti að nást. Ákall eftir meiri samvinnu var skýr og almenningur vaknaður til lífsins.“ Þessi röksemd er algjörlega úr lausu lofti gripin. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig nokkur manneskja getur sett fram þá túlkun að kosninganiðurstöður sem komu átta flokkum inn á þing hafi verið „ákall eftir meiri samvinnu.“ Auðvitað settu formenn stóru flokkanna þetta fram svona, enda þeim í hag. En hver neyddi okkur til að apa eftir þeim þetta kjaftæði? Kosningarnar voru ákall um breytingar, ekki þingsamstöðu. Og eins og í Bandaríkjunum leitaði gremjan yfir óréttlætinu til flokka lýðskrumara (Miðflokksins og Flokks fólksins) þar sem enginn róttækur valkostur stóð fólki til boða.
VG hlaut risavaxna fylgisaukningu í könnunum en glopraði henni niður fyrir tuttugu prósentin með því að neita að útiloka samstarf við íhaldið; með því að neita að vera rödd róttækra breytinga. Auðvitað er satt hjá Jóhanni að nóg var um „mykjudreifandi lygaauglýsingar“ og óneitanlega er alltaf gagnlegra að vera málefnalegur en rætinn. En það að forðast illkvittni gagnvart hugmyndafræðilegum aðstæðum er ekki það sama og að bjóða þeim með sér í ríkisstjórnarsamstarf. Tökum dæmi: Að kalla Bjarna Ben drullusokk er ómálefnalegt og óhjálplegt. Að kalla hann Panamaprins er kannski líka óþarfi. En að kalla hann spilltan? Það er ósköp einfaldlega sannleikur sem allir landsmenn eiga rétt á að fá að vita. Máltækið segir: oft má satt kyrrt liggja. En það á ekki við um heilindi stjórnmálamanna. Og hér komum við að lýðræðislegum þroska íslensku þjóðarinnar.
Bak við heiftina í íslenskri stjórnmálaumræðu er raunveruleg neyð fólks sem samfélag okkar hefur brugðist. Við strokum þá neyð ekki út með því að láta Katrínu vera kurteisa við Bjarna eða með því að festa upp platta sem á stendur: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.“ Raunveruleg samræðustjórnmál byggjast á gagnkvæmu trausti og Sjálstæðisflokkurinn er ekki traustsins verður. Við þurfum að horfast í augu við það að Íslendingar eru ekki allir á sama báti og að sum okkar sjá beinlínis hag sinn í því að viðhalda eymd annarra. Við þurfum að þroskast. Stéttabarátta er ekki marxískur tilbúningur heldur raunveruleg átök um framtíð þjóðarinnar og heimsins alls. Hverjir vita þetta manna best? Eignastéttin. Enda er hún ekki í neinum sáttahug. Hún er ekki mamma okkar eða pabbi og það eru fulltrúar hennar á þingi ekki heldur. Hún vill bara fá að halda áfram að færa auð þjóðarinnar upp á við til sín og sinna án þess að almenningur skipti sér af. Þess vegna ávarpar hún okkur sem börn og vonast til þess eins að við förum nú að halda kjafti.