Þögnin rofin

Ragnhildur Ágústsdóttir varð ung forstjóri hjá fyrirtæki í tæknigeiranum. Hún var beitt kynbundnu ofbeldi af mönnum sem lokuðu hana inni í fundarherbergi, neyddu Ragnhildi, sem var barnshafandi, til að skrifa undir samning og meinuðu henni útgöngu.

Auglýsing

Eftir mikla og langa íhugun hef ég ákveðið að stíga fram með frásögn af atviki sem ég varð fyrir árið 2009, þá barnshafandi. Atvik sem ég vil meina að hafi falið í sér klárt kynbundið ofbeldi. Það hafði varanleg áhrif á mig og mín lífsviðhorf og setti vafalítið afgerandi strik í reikninginn hvað varðar mína framtíð sem upprennandi stjórnanda í tæknigeiranum. 

Ég vil taka skýrt fram að ég er ekki að stíga fram núna með það fyrir augum að draga einstaka gerendur fram í dagsljósið. Ástæðan er sú vitundarvakning sem orðið hefur með tilkomu #metoo byltingarinnar þar sem athygli er vakin á bjöguðum kúltúr og kynbundinni valdníðslu sem virðist hafa viðgengist í íslensku atvinnulífi og hefur meðal annars beinst að ungum konum á framabraut. Við sögu koma engu að síður þrír gerendur: einn kaupsýslumaður, einn hæstaréttarlögmaður og einn stjórnandi sem í dag er forstjóri opinberrar stofnunar hér á landi.

Sú staðreynd að ég er aftur barnshafandi hefur vakið upp minningar frá þessum dramatíska tíma. Ég var lengi vel hrædd við þessa menn og óttaðist hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér fyrir mig og mína fjölskyldu ef ég greindi frá málavöxtum. En tíma þöggunar virðist vera lokið og því þótti mér tímabært að gera þetta upp, sjálfrar mín og samfélagsins vegna.

Auglýsing

Aðdragandi

Vorið 2008 urðu breytingar á fyrirtæki sem ég hafði stýrt frá árinu 2006 er það sameinaðist öðru félagi. Í nýju sameinuðu félagi sat ég í framkvæmdastjórn undir forystu nýs forstjóra sem áður hafði starfað í bankageiranum. Í fyrstu var ég spennt fyrir starfinu en smám saman fóru að renna á mig tvær grímur, m.a. þar sem ég fór að sjá nýjar hliðar á hinum annars geðþekka forstjóra.

Í desember þetta sama ár, komst ég að því að ég væri ófrísk að mínu öðru barni, þá 28 ára, og plöguð af ógleði fór ég inn í jólin með það fyrir augum að hvílast sem mest. Jólin reyndust þó allt annað en róleg þetta árið. Að kvöldi laugardagsins 27. desember fékk ég óvænt símtal frá stjórnarformanni félagsins þar sem ég var beðin að koma á fund með meirihluta stjórnar morguninn eftir. Er ég vinsamlegast beðin um að halda símtalinu og fundinum leyndum. Á fundinum fékk ég að vita að kominn væri upp alvarlegur trúnaðarbrestur milli meirihluta stjórnar og forstjóra og að til stæði að víkja honum úr starfi. Var ég beðin að stíga inn í starf forstjóra í hans stað. Á þessum tímapunkti þótti mér rétt að greina frá því að ég væri gengin 7 vikur og gefa þeim færi á að draga boðið til baka. Eftir andartaksumhugsun héldu þau bóninni til streitu og eftir að hafa ráðfært mig við manninn minn og fjölskyldu þáði ég boðið.  

Mánudaginn 29. desember mæti ég til vinnu vitandi hvað væri í vændum. Atburðarásin var nokkurn vegin í takt við það sem von var á undir þessum kringumstæðum og í lok dags var búið að kynna mig inn sem nýjan forstjóra. Ég gleymi þó aldrei fyrsta fundinum sem ég átti með allri stjórninni þar sem ég hitti í fyrsta sinn fulltrúa minnihlutaeiganda, þekktan kaupsýslumann. Þar sem við sátum tvö ein við fundarborðið andspænis hvoru öðru meðan aðrir fundarmenn sóttu sér kaffibolla, hallaði hann sér yfir borðið og sagði við mig í hálfum hljóðum: „Þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ert búin að koma þér útí stelpa“. Mér krossbrá en svaraði eins æðruleysislega og ég gat: „Nei, sennilega er það rétt hjá þér“.

Krísuástand

Þeir örfáu dagar sem voru til áramóta fóru að mestu í að ræða við starfsfólkið og koma starfseminni í sem eðlilegastan farveg. Strax í upphafi nýs árs hófust harkalegar deilur á vettvangi fjölmiðla milli minnihluti stjórnar, sem var fyrrum forstjóra hliðhollur, og meirihluta stjórnar, þar sem ásakanir um svik og samkeppnissamráð fuku á báða bóga. Með undraverðum hraða var Samkeppniseftirlitið komið inn í málið og 2. janúar birtist yfirlýsing í fjölmiðlum um að eftirlitið hefði tekið deilur eigenda til skoðunar og 7. janúar var gerð húsleit í húsakynnum félagsins og meirihluta stjórnar. Fjölmiðlar gerðu sér mat úr málinu sem var slæmt fyrir ímynd og starfsemi félagsins. Í grein sem birtist í fjölmiðlum biðlaði ég, fyrir hönd félagsins, til eigenda að þeir létu strax af deilum sínum á opinberum vettvangi þar sem það hefði skaðleg áhrif á félagið. Það hafði lítil áhrif. Í lok janúar úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að til bráðabirgða skyldu fulltrúar meirihluta stjórnar víkja og í þeirra stað skyldu tveir óháðir aðilar skipaðir í stjórn. 

Eins og gefur að skilja voru þetta erfiðar vikur sem fóru að mestu í krísustjórnun. Starfsfólk stóð sig með mikilli prýði við að svara ótal fyrirspurnum frá fjölmiðlum og viðskiptavinum til að fullvissa þá um að allt fjaðrafokið hefði ekki áhrif á daglega þjónustu. Starfsfólk var duglegt að stappa stálinu í hvert annað og varð ástandið smátt og smátt betra og ró færðist yfir. Mér var þó ekki fyllilega rótt þar sem ég fékk í tvígang nafnlaus hótunarbréf í pósti heim til mín þar sem ég var vöruð við því að beita mér eða taka afgerandi ákvarðanir í starfi mínu sem forstjóri.

Atvikið sjálft

Dag einn í lok febrúar, gengu tveir menn inn á skrifstofu til mín og óskuðu eftir að ég settist inn í fundarherbergi með þeim. Um var að ræða fyrrnefndan fulltrúa minnihluta stjórnar, sem hafði varað mig svo óhugnanlega við á okkar fyrsta fundi í lok desember. Með honum í för var virtur hæstaréttarlögmaður. Ég beindi þeim inn í fundarherbergið við hliðina, herbergi þar sem einn veggurinn var úr gleri og þakinn mattri filmu um miðbikið til að hindra að hægt væri að sjá hvað fram færi á fundum.

Ég var ekki fyrr komin inn í herbergið en að hurðinni var lokað á eftir mér og lagt fyrir mig plagg sem mér var gert að lesa. Ég settist tortryggin niður og las fyrstu línurnar en spurði svo hvað væri eiginlega um að vera. Þá tók hæstaréttarlögmaðurinn umbúðalaust til máls og greindi frá því að um væri að ræða brottvikningu úr starfi þar sem ráðning mín í starf forstjóra hafi verið ólögmæt og að ég þurfi að kvitta undir plaggið. Ég tók upp farsímann til að hringja í lögfræðinginn minn sem ég hafði ráðfært mig við varðandi mína stöðu nokkrum vikum áður. Ég náði sambandi við skiptiborðið, kynnti mig og bað um samband og skömmu síðar svaraði lögfræðingurinn með nafni en þá slitnaði sambandið. Ég hringdi strax aftur en heyrði þá rödd svara „Lokað hefur verið fyrir þetta símanúmer“. Vitandi hvernig fjarskiptageirinn virkaði, leit ég vantrúuð á þá félaga sem enn voru standandi og spurði: „Létuð þið loka fyrir símanúmerið mitt?“. Þegar þeir svöruðu ekki stóð ég upp og sagði „Ég ætla að fara inn á skrifstofu og hringja í lögfræðinginn minn“. Þá steig hæstaréttarlögmaðurinn ákveðið fyrir dyrnar og í sömu andrá snéri fulltrúi minnihlutaeiganda sér að mér og ýtti mér ákveðið niður í sætið og sagði: „Þú ferð ekki út úr þessu herbergi fyrr en þú ert búin að skrifa undir þetta plagg“. 

Þarna hætti mér að standa á sama og ég fann hvernig hjartað byrjaði að hamast í brjósti mér. Þarna sat ég, gengin rétt um fjóra mánuði á leið (eitthvað sem fulltrúi minnihlutaeiganda vissi vel af), skíthrædd um sjálfa mig og ófætt barnið, hugsandi um hótunarbréfin sem mér hafði borist í pósti og reyndi eftir fremsta megni að halda kúlinu. Ég reyndi aftur að standa upp en þegar mér var aftur ýtt af festu niður í sætið reyndi ég að höfða til skynsemi þeirra og segja „Þið getið ekki bannað mér að tala við lögfræðinginn minn. Og þið getið alls ekki haldið mér hérna inni og lokað fyrir símanúmerið mitt“. Þeir hins vegar högguðust ekki og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að tala um fyrir þeim endaði þetta með því að ég sat þarna hálffrosin og reyndi að lesa í gegnum skjalið til að skilja hvað í því stóð.  Það tók óratíma enda átti ég bágt með að hugsa rökrétt og þurfti að endurlesa sömu setningarnar aftur og aftur til að ná innihaldi þeirra. Að því loknu reyndi ég aftur að tala um fyrir þeim og útskýra að það væri ekki nokkur leið að ég myndi skrifa undir þetta fjarstæðukennda plagg en án árangurs. Ég veit ekki nákvæmlega hvað tímanum leið svo brugðið var mér, líklegast um 60-90 mínútur þó mér hafi liðið eins og ég hafi setið þarna í margar klukkustundir. Að endingu skrifaði ég undir plaggið en bætti við fyrirvara um að skjalið stæðist lög og reglur. Að því loknu fékk ég að standa upp og yfirgefa herbergið. Á þessu augnabliki komst það eitt að hjá mér að leggja á flótta frá þessum mönnum og þessum hræðilegu aðstæðum og því gekk ég rakleiðis stystu leið leið út úr húsinu án þess að sækja yfirhöfnina mína eða veskið mitt.

Ég man ennþá eftir tilfinningunni sem helltist yfir mig þegar út var komið. Ég vildi bara komast eins hratt í burtu frá þeim og ég mögulegast gat. Það var kalt þennan dag, ég án símasambands, seðlaveskisins og bíllyklana. Án þess að hugsa rökrétt ákvað ég að leita uppi fyrstu manneskjuna sem ég mundi eftir sem ég vissi að væri í næsta nágrenni, góðan vin minn sem þá vann hjá öðru stóru fjarskiptafélagi skammt frá. Þar gekk ég rakleiðins inn í starfsmannasvæðið þar til ég fann vin minn og leiddi ekki einu sinni hugann að því að þetta gæti þótt undarleg hegðun af hálfu forstjóra samkeppnisaðila. Hjá honum hringdi ég beint í lögfræðinginn minn sem var símtalinu feginn enda hafði hún reynt að hringja aftur til baka án árangurs og þótti í hæsta máta óeðlilegt að heyra símsvara segja að búið væri að loka fyrir númerið þegar ég hafði reynt að hringja andartaki fyrr. 

Stuttu síðar gekk ég inn á skrifstofu lögfræðings míns þar sem ég brotnaði saman. Ég mun aldrei gleyma vanmáttartilfinningunni sem ég fann fyrir á því augnabliki. Eftir að hafa farið yfir atburðarásina héldum við saman á lögreglustöðina í skýrslutöku þar sem ég lagði fram formlega kæru um frelsissviptingu á hendur mönnunum tveimur. Lögreglumaðurinn sem tók af mér skýrsluna sýndi mikla hluttekningu en setti þó um leið þann varnagla að sjaldnast færu frelsisviptingarmál fyrir dómstóla – nema þá helst í mannsalsmálum.

Eftirleikurinn

Ekki leið á löngu þar til orðrómur kvisaðist út um að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað þennan dag og næstu daga var ég umsetin fjölmiðlamönnum sem reyndu af fremsta megni að hafa eitthvað eftir mér. Ég fór að ráði lögfræðingsins míns og neitaði að tjá mig. Lítil sem engin umfjöllun varð um málið í fjölmiðlum enda um orðróm að ræða og lítið haldbært að hafa. Sjálf trúi ég því að það hafi verið fulltrúar meirihluta stjórnar sem hafi lekið upplýsingum út um atvikið, vafalaust til að koma höggi á minnihlutaeigendur. 

Mest brá mér þó þegar hæstaréttarlögmaðurinn fyrrnefndi hringdi í gsm símann minn nokkrum dögum síðar. Vildi hann meina að um tóman misskilning væri að ræða og að þetta hefði nú alls ekki verið nein valdbeiting – hvað þá frelsissvipting – og hvort ég vildi nú ekki draga kæruna til baka. Með hjartað í buxunum sagði ég honum að það kæmi ekki til greina, að það væri samdóma álit mín og lögfræðingsins míns að þetta hefði verið gróft brot og bað hann vinsamlegast um að hafa ekki samband við mig aftur. Ég frétti síðar að lögreglan hefði látið málið niður falla. 

Hvað við kemur fyrrum forstjóra þá var það ekki fyrr en síðar um daginn þegar atvikið átti sér stað að það rann upp fyrir mér ljós. Ég mundi að þegar ég æddi í gegnum skrifstofuna og út úr húsinu að það hafði ekki verið einn einasti starfsmaður við starfstöðina sína. Ég frétti síðar hjá nokkrum starfsmönnum að mennirnir tveir sem ég var að glíma við inni í fundarherberginu voru ekki einir að verki. Meðan mér var haldið inni í fundarherbergi hafði fyrrum forstjóri valsað inn í fyrirtækið og boðað til starfsmannafundar þar sem hann tjáði starfsfólkinu að ég hefði látið af störfum og að hann væri aftur tekinn við forstjórataumunum. Því miður sá ég hann aldrei þennan tiltekna dag og því gat ég ekki lagt fram kæru á hendur honum eins og hinum tveimur þó ég sé ekki í vafa um að hann hafi verið vitorðsmaður í þessari framkvæmd allri. 

Tel ég víst að ég hafi komið þeim félögum nokkuð í opna skjöldu með mótbárum og ákveðni þegar þeir lögðu fyrir mig plaggið. Í þeirra huga var ég ung og óreynd kona og varla meira en lítið peð í valdatafli meirihluta stjórnar gegn þeim. Þá óraði líklega ekki fyrir því að ég myndi hreyfa við andmælum eða leita til lögfræðings þegar þeir legðu fyrir mig uppsagnarbréfið, þar sem ég átti, nota bene, að afsala mér öllum rétti til uppsagnarfrests og launa. Hefðu þeir komið öðruvísi fram hefði ég verið karlmaður? Ég veit það ekki fyrir víst en sjálf er ég sannfærð um það. 

Hvað svo?

Til að gera langa sögu stutta þá sat forstjórinn sem fastast í sínum stól næstu 18 mánuðina eða svo. Þegar hann lét af störfum fór hann aftur í bankageirann og vann þar sem stjórnandi um nokkurra mánaða skeið þar til hann var settur í leyfi eftir að upp komu ásakanir um kynferðislega áreitni gagnvart nokkrum kvenkyns starfsmönnum bankans. Smávægileg umfjöllun varð um það mál í fjölmiðlum en málið náði aldrei neinum hæðum. Um margra ára skeið vildi ég sem minnst af honum og félögum hans vita. 

Mig rak þó í rogastans í júlí 2015 þegar fjölmiðlar greindu frá því að stjórn opinberrar stofnunar hafi ráðið forstjórann fyrrverandi sem forstjóra stofnunarinnar. Ég átti erfitt með að sætta mig við að maður sem hafði svo afgerandi beitt valdi sínu, ekki aðeins gagnvart mér heldur, að því er virtist, einnig gagnvart öðrum konum, hefði einhvern veginn náð að koma því þannig fyrir að hans fyrri athafnir virtust ekki skipta neinu máli. Ég gat ekki skilið hvernig maður með þetta vafasama fortíð skyldi koma til greina sem forsvarsmaður veigamikillar opinberrar stofnunar. 

Ég hef álasað sjálfa mig fyrir að hafa þagað yfir málinu. Að hafa ekki sagt frá og þar með lagt mitt á vogarskálarnar til að forða því að menn af þessu tagi kæmust í áhrifastöður. Að hafa með þögninni stefnt öðrum konum í hættu. En ekki lengur. Tíminn þagnarinnar er liðinn. Við verðum, sem þjóðfélag, að rísa upp gegn kúltúr sem lætur einstaklinga halda að þeir geti traðkað yfir annað fólk á skítugum skónum. Við verðum, sem þjóð, að krefjast þess að virðing sé borin fyrir öllum og standa vörð um þá hugsjón.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Daði Már Kristófersson
Gölluð greinargerð um fyrningu aflaheimilda
Kjarninn 24. júlí 2021
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar hafa sem sakir standa ekki kost á því að starfa á einkareknum stofum innan greiðsluþátttökukerfis hins opinbera fyrr en eftir tveggja ára starf í greininni.
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar byrja að veita þjónustu án greiðsluþátttöku ríkisins
Á nokkrum sjúkraþjálfarastofum er nú hægt að bóka þjónustu nýútskrifaðra sjúkraþjálfara, en þá þarf að greiða fullt verð fyrir tímann, vegna ákvæðis í reglugerð heilbrigðisráðherra. Tveir eigendur stofa segja þetta ekki gott fyrir skjólstæðinga.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ríkisstjórnin fundaði á Egilsstöðum í dag. Mynd úr safni.
200 manna samkomutakmarkanir til 13. ágúst
Í mesta lagi 200 manns mega koma saman frá miðnætti á morgun og þar til 13. ágúst og eins metra regla verður í gildi. Barir og veitingahús þurfa að loka á miðnætti.
Kjarninn 23. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar