Það er auðvelt að taka undir með frægum manni bandarískum, Yogi Berra, sem sagði: „Það er erfitt að spá en alveg sérstaklega um framtíðina!“ Samt ætla ég að leyfa mér að spá því að núverandi stjórnarsamstarf muni ekki endast út kjörtímabilið. Og ástæðan fyrir þessari spágleði? Jú, á tímum einsog okkar þegar hverskyns þolendur rísa upp hópum saman gegn sínum andskotum, þá endast ofbeldissambönd ekki mjög lengi.
Hinn gagnkvæmi skortur
Stjórnvisku er stundum ruglað saman við stjórnkænsku og pólitísk klókindi, jafnvel refskap. Og kannski ekki að undra í landi þar sem Machiavelli hefur verið í öllu meiri metum en Lao Tse. En þegar Steingrímur Hermannsson hélt saman fimm flokka villikattastjórn um1990, þá gerði hann það af stjórnvisku. Og fyrir sakir stjórnvisku hélt Viðreisnarstjórnin velli þrjú kjörtímabil í röð. En þegar síðasta ríkisstjórn sprakk var það fyrir skort á stjórnvisku. Og þegar nýja þriggja flokka stjórnin springur verður það líka fyrir skort á stjórnvisku. Gagnkvæman skort á stjórnvisku.
Þegar ljóst var að dómsmálaráðherra hefði brotið lög með gerræðislegum skipunum sínum í Landsrétt, lá beinast við að Sigríður Andersen viki sæti, að minnsta kosti þartil dómstólar hefðu úrskurðað í málinu. Þess í stað krafðist Sjálfstæðisflokkurinn þess af samstarfsflokkunum að þeir kóuðu með honum og kyngdu gerræðinu. Skortur á stjórnvisku. Og þeir kyngdu. Líka skortur á stjórnvisku. En því þá? Jú, þvingun og meðvirkni eru ekki innlegg í heilbrigt samstarf. Þvert á móti. Við þetta bættist að sumir ráðherrar og þingmenn Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar gerðu sig að viðundrum með ummælum sínum um málið. Meðvirknin var augljós og stjórnin sem vanhæf fjölskylda þegar næsti réttur kom á borðið, tilraunir forsætisráðherra til að hylma yfir með nákomnum ættingja, málið sem kennt er við uppreist æru.
Einnig þar krafðist Sjálfstæðisflokkurinn þess af samstarfsflokkunum að þeir kóuðu með honum og kyngdu hneykslinu. Skortur á stjórnvisku. Og þeir kyngdu. Líka skortur á stjórnvisku. En því þá? Jú, þvingun og meðvirkni eru ekki innlegg í heilbrigt samstarf. Þvert á móti. Einsog sýndi sig þegar Björt Framtíð sprakk á limminu og rauk burt í fári einsog þolendur í ofbeldissamböndum eiga til þegar þeir sjá ekki aðra leið færa.
Einfaldari og skynsamlegri leið hefði verið að fara fram á afsögn ráðherrans sem með framferði sínu hafði brugðist því trausti sem ríkja þarf í hverri ríkisstjórn. Enginn ráðherra er ríkisstjórnin sem hann situr í. Það má skipta þeim öllum út, og stjórnin getur þá setið áfram og lokið þeim verkum sem hún var kosin til að vinna.
Ákallið
Þegar nýja stjórnin tók við undir forystu Katrínar Jakobsdóttir, vinsælasta stjórnmálamanns seinni tíma ef ekki lýðveldissögunnar, þá var ljóst að Hæstaréttardómur í Landsréttarmálinu myndi brátt falla. Áreiðanlega var Katrín ekki svo glámskyggn að ímynda sér eða telja víst að Hæstiréttur snéri við dómi Héraðsdóms. Því í ósköpunum gekk hún þá ekki frá því við formann Sjálfstæðisflokksins, áður en hún skrifaði undir, að Sigríður Andersen gæti ekki verið dómsmálaráðherra í nýrri stjórn undir hennar forsæti, ef Hæstiréttur felldi þann dóm sem hann hefur nú fellt? Var hún fyrirfram meðvirk? Eða trúði hún því að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði lært af eigin óförum í síðustu stjórn og kæmi nú fram nýr maður, laus við óbilgirni og yfirgang?
Hvernig sem þessu er varið þá er ljóst að stjórnviska beggja er ekki uppá marhnút hvað þá skötu. Katrín situr nú í sinni súpu sem þolandinn, beygð og illa fær um að bera í bætifláka fyrir sig og sinn flokk, Bjarni í sinni sem hrokafullur gerandi sem telur sig greinilega ekki þurfa að taka minnsta tillit til Katrínar og VG – sem hafa þó framlengt valdasetu hans og Sjálfstæðisflokksins. Hugarfarið greinilega úr hinu frumstæða íslenska viðskiptalífi þar sem win-win (báðir græða) er öllu sjaldgæfara en win-lose (ég græði, þú tapar). Þú samþykkir veskú minn dómsmálaráðherra og ég hrósa sigri yfir þér og þínum flokki!
Framhaldið ræðst af næstu réttum á borðið og viðbrögðunum við þeim. Hafi VG ekkert lært af því sem á gekk í síðustu ríkisstjórn og haldi áfram að kyngja og kóa, þá mun baklandið ókyrrast og hugsa sér til hreyfings, villiköttum fjölga og stjórnarslit verða óumflýjanleg. Og springi stjórnin, eða réttara sagt þegar hún springur, kemst Sjálfstæðisflokkurinn varla hjá því að velja sér nýjan formann. Hægrisinnaður valdaflokkur sem þolir afar illa að vera í stjórnarandstöðu hefur ekki efni á forystu með vægast sagt takmarkaða getu til pólitískra og mannlegra samskipta.
Allir flokkarnir þrír sem mynduðu síðustu ríkisstjórn töpuðu stórt þegar kosið var. Það bendir ekki til þess að meðal almennings sé hrifning á stjórnarfari sem minnir á fjölskylduna vanhæfu þar sem lífið einkennist af ofbeldi og viðbrögðum við því, leynd og yfirbreiðslu. Hinn pólitíski gerandi þykir ekki lengur töff (bara fauti) og þolendurnir í samstarfinu við hann fá falleinkunn fyrir kóeríið (bara aular).
Þetta er í senn framför og kall á annarskonar stjórnarhætti þar sem tillitsleysi, valdníðsla og laumuspil víkja fyrir heiðarleika, tillitssemi og gagnkvæmri virðingu.
Semsé kall á stjórnvisku. Stjórn og visku. Stjórn af visku. Stjórn í visku. Mannvisku.