Í Hávamálum er svo ort um hvernig tækla skuli varhugavert fólk: „Fagurt skaltu við þann mæla en flátt hyggja.“ Á aðventunni hef ég verið þungt hugsi um stöðu kjaramála og hafa þá þessi orð, hvað eftir annað, komið upp í huga mér. Það liggur einhver óeinlægni í loftinu sem gæti, ef allt fer á versta veg, grafið undan öllum stöðugleika og samvinnu.
Árið endaði á sprengju. Flugvirkjar fóru í verkfall og samtök atvinnulífsins ákváðu að það væri góð hugmynd að gera verkfallið að uppgjöri um stöðugleika og Salek (Samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga). Framkvæmdastjóri SA steig ítrekað fram og talaði um að það kæmi ekki til greina að mæta fáránlegum kröfum flugvirkja og það yrði ekki hvikað frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í kjaramálum í landinu, m.a. í samstarfi við ríki og sveitarfélög. Lína hafi verið dregið í sandinn og þar við skyldi sitja. Það var líka fullljóst að krafa atvinnurekenda var sú að sett yrðu lög á verkfallið ef flugvirkjar gæfu sig ekki. Þegar svo í ljós kom að sá kostur var pólitískt ómögulegur var allt í einu samið, öllum að óvörum. Samningurinn hefur nú verið samþykktur meðal flugvirkja með atkvæðagreiðslu
Ekki man ég eftir því að nokkurn tíma hafi verkfalli lokið með samningi sem svo er haldið leyndum fyrir almenningi. Blaðamenn misstu líka áhugann og hafa ekki nennt að fylgja málinu eftir. Heimildir mínar herma þó að það sé um margfalt meiri hækkanir að ræða en þau 1,3 - 1,6% sem BSRB og ASÍ hafa verið að semja um fyrir suma af sínum félagsmönnum á sama tíma.
Við skulum ekki gleyma því að flugvirkjar voru í ASÍ og ef þeir væru það enn heyrðu þeir undir Salek í dag. Þeir sögðu sig þó úr sambandinu á sínum tíma, líklegast töldu þeir hagsmunum sínum betur borgið utan þess. Þessir tímamótasamningar flugvirkja senda því smærri aðildarfélögum innan ASÍ heldur betur öflug skilaboð. Alþýðusamband Íslands er ekki lengur það félag sem launþegar flykkja sér á bak og líta á sem öflugan málsvara sinn. Nýjasta dæmi þess er krafa sjómanna í Grindavík um allsherjaratkvæðagreiðslu um það hvort þeir ættu að fylgja fordæmi flugvirkja og ganga úr sambandinu. Nær allir greiddu atkvæði með úrsögn úr ASÍ. Það er grafalvarlegt mál.
Krafa flugvirkja var mjög eðlileg og sanngjörn. Kannski var tímasetningin á verkfallinu umdeilanleg en það er ekkert óeðlilegt við það að grundvallarstétt í góðærisgeira geri kröfu um kjarabætur. Það hefur orðið gríðarleg sprenging í ferðamannastraumi til landsins og það er afleit röksemd (sem kom fram hjá viðsemjendum flugvirkja) að við slíkar aðstæður sé það nánast heilög skylda stjórnenda fyrirtækja að reyna að fá alla þjónustu og vinnuafl eins ódýrt og mögulegt er. Þetta er sérlega óviðeigandi í ljósi þess að í febrúar 2017 sendi Icelandair frá sér afkomuviðvörun á sama tíma og lagt var til að félagið greiddi eigendum sínum hátt í 600 milljónir í arð. Þetta er bókstaflega snargalið.
Kjarabarátta á Íslandi stendur á krossgötum. Hjá stórum hópi launafólks hefur hún verið afar veikburða. Það hefur þó ekki komið mjög að sök þar sem við höfum verið ótrúlega heppin með það að ofsavöxtur í ferðaþjónustu hefur haldið uppi velsæld og kaupmætti. Aðstöðumunur milli hópa hefur þó um leið verið gríðarlegur. Á sama tíma og eigendur Icelandair geta skammtað sér mörg hundruð milljónir úr félaginu, jafnvel þegar hagnaðaráætlanir bregðast, krefst atvinnulífið þess að lögum sé beitt á þá starfsmenn fyrirtækisins sem neita að láta skammta sér úr hnefa.
Að þessu leyti var barátta flugvirkja grundvallarbarátta. Afleiðingar samningsins eiga enn eftir að koma í ljós en kalt mat er það að margfalt líklegra sé að þessi samningur stefni stöðugleika í hættu en launakjör biskups eða dómara. Það er nokkuð ljóst að hafi Salek-ramminn verið brotinn á bak aftur með samningnum munu aðrir hópar ekki láta bjóða sér að vera haldið innan hans.
Talsmenn stöðugleika líta eflaust á flugvirkja sem ófriðarseggi. Það finnst mér afar óréttlátt. Kröfu um stöðugleika má aldrei byggja á ranglæti! Augljósast og réttlátast er að starfsfólk í ferðaþjónustu njóti uppsveiflu í geiranum, þetta sama starfsfólk mun svo sannarlega fá að finna fyrir því þegar kemur að niðursveiflunni.
Samvinna og traust á vinnumarkaði er algjörlega gegnumsýrt af vantrausti. Við grunnskólakennarar finnum oft fyrir því. Viðsemjendur okkar tala nú ekki oft um okkur í fjölmiðlum en þegar það gerist er það á þann hátt sem hendingin úr Hávamálum lýsir hér að ofan. Engir tala oftar um mikilvægi grunnskólakennara en þeir sem standa hvað harðast gegn kjarabótum okkar.
Nú um áramótin eru runnin upp önnur mánaðamótin hjá samningslausum grunnskólakennurum. Ekki er hægt að skilja það litla sem gefið er upp öðruvísi en að við séum föst í einhverskonar biðröð eftir lendingu.
Ef ekki verður samið við okkur fljótlega verður það hin stóra kjarabarátta næstu mánaða. Við eigum skýra kröfu á verulegar kjarabætur, svo einfalt er það. Krafan er að öllu leyti málefnaleg og réttlætanleg og ekkert sem ætti að standa í vegi fyrir því að hægt sé að gera góðan samning við okkur.
Fyrirstaðan er þó tvíþætt.
Annars vegar að í landinu eru sum hver illa rekin og fátæk sveitarfélög sem geta illa rekið sérfræðiþjónustu með sérfræðilaunum.
Hins vegar að viðsemjendur okkar grunnskólakennara hafa sagst ætla að draga línu í sandinn í nafni stöðugleika.
Það er ósköp einfalt að svara fyrri mótbárunni. Það er ekki hlutverk okkar launafólks að niðurgreiða með launum okkar verkefni sem sveitarfélög eru ófær um að sinna. Ráði þau ekki við verkið á að taka það af þeim eða veita þeim stuðning. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.
Seinni mótbáran er jafn veikburða í okkar tilfelli og hún var í tilfelli flugvirkja. Ætli sveitarfélögin sér að standa við þessa línu sína og krefja löggjafann um baktryggingu munu þau þvinga okkur grunnskólakennara til átaka af fullum þunga.
Nú er einmitt rétti tíminn til að semja við okkur og semja vel. Staða sveitarfélaganna er betri en hún hefur verið um langa hríð. Þau eru mun betur í stakk búin til að bæta kjör grunnskólakennara en oft áður. Það má vel vera að styrkja þurfi tekjustofna þeirra í framtíðinni til að sinna verkefninu, það er einungis sanngjörn krafa sem leiðir af því að fela sveitarfélögunum verkefni af þeirri stærðargráðu sem grunnskólinn er.
Við grunnskólakennarar eigum nefnilega að minnsta kosti fimmþætta kröfu um kjarabætur.
og fyrir því ætla ég að færa málefnaleg og skýr rök.
Í fyrsta lagi hefur grunnskólakennurum verið haldið niðri í launum m.a. af þeirri ástæðu að lífeyrisréttindi þeirra séu betri en margra annarra. Nú um síðustu áramót voru lífeyrisréttindin hins vegar skert verulega og fyrir það eitt eigum við inni ríflega launahækkun.
Í öðru lagi verður kennarastarfið að vera launalega samkeppnishæft. Helmingur menntaðra kennara er í öðrum störfum og það stefnir hratt í óefni. Að sjálfsögðu er hægt að grípa til stuðningsaðgerða eins og að gera námið styrkhæft en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að launin eru of lág og þau þurfa að hækka. Á meðan launin eru of lág er sjálfkrafa minni aðsókn í námið þrátt fyrir stuðning. Hækkun launa þarf að vera hlutfallsleg miðað við aðrar stéttir svo fólk hætti að flýja starfið og þeir sem menntaðir eru nú þegar komi helst til baka.
Í þriðja lagi hafa hæfni- og menntunarkröfur til grunnskólakennara verið auknar verulega á síðustu árum. Um leið og það var gert var því lofað að því fylgdi launaleiðrétting. Það var (fáum að óvörum) að sjálfsögðu svikið. Nú er tímabært að efna það!
Í fjórða lagi bitnar ómálefnalegur kynbundinn launamunur á grunnskólakennurum. Við erum að stærstum hluta konur og af þeirri ástæðu einni eru launin of lág, ekki vegna menntunarkrafna að starfsins sjálfs heldur vegna þess að kennarar tilheyra kvennastétt. Kynbundinn launamunur er þjóðarskömm og hluti af kerfisbundinni kúgun. Þetta þarf að laga og það strax og fátt betur til þess fallið en kjarasamningar.
Í fimmta lagi er almenn sátt um kjarabætur grunnskólakennara. Launaleiðrétting til þeirra ógnar ekki stöðugleika. Gylfi Arnbjörnsson kom fram í fjölmiðlum á aðventunni og sagði að aðilar vinnumarkaðarins hefðu fyrir sitt leyti samþykkt launabætur til grunnskólakennara umfram aðra hópa. Hann átti reyndar við að þessar hækkanir hafi nú þegar verið veittar og væru ríflegar, það er nú bara alls ekki rétt og hluti af þessum eilífa blekkingarleik sem verið er að leika. Aðgerðir kennara síðasta vetur skiluðu því að öll Salek-hækkunin var sett á einu bretti inn í samninginn, enn hafa kennarar samt ekki brotið Salek-ramman á bak aftur og verði engar frekari hækkanir hafa grunnskólakennarar ekki fengið neinar hækkanir umfram aðra hópa eins og Gylfi sjálfur talar um að sé sátt um. Hvort þeir fái hækkanir umfram aðra hópa ræðst af þeim samningi sem nú á að gera. Þess vegna geta sveitarfélögin ekki samtímis samið við grunnskólakennara og framfylgt einhliða rammasamkomulaginu. Hækkunin myndi ekki ógna neinum stöðugleika, að minnsta kosti ætti ASÍ algjörlega að geta sætt sig við það því forseti sambandsins hefur, sjálfur úr hásæti sínu, þegar lýst því yfir að það sé ásættanlegt.
Af ofangreindu er augljóst að kjarabætur til grunnskólakennara eru málefnalegar, ásættanlegar, þarfar og tímabærar. Það er alveg ljóst að stöðugleiki á vinnumarkaði verður ekki keyptur með því að halda kennurum niðri og hvað þá stöðugleiki í menntamálum. Það sem stendur helst í vegi fyrir samningum er einhver rótgróinn óheiðarleiki í kjaramálum. Síðustu samningar voru mjög fegraðir og ýktir þegar um þá var talað, bæði af viðsemjendum okkar og okkar eigin forystu.
Það sem blasir við er að laun grunnskólakennara eiga og verða að hækka. Það er kjarni málsins. Krafan er skýr og á bak við hana er fullkomin alvara. Sveitarfélögin verða að átta sig á þessu og grípa tækifærið til að ganga til samninga við kennara með það að markmiði að leiðrétta og bæta kjörin. Vilji þau frekar fara átakaleið verða þau að bera ábyrgð á því svo og fyrirsjáanlegri eyðileggingu heillar starfsstéttar.