Bitcoin átti árið 2017. Gengið hátt í tuttugufaldaðist þegar best lét en endaði árið með um þrettán földun frá upphafi árs. Flugið er svipað og varð á gulli fjörutíu árin fram að toppi gullverðs árið 2011 (gull hefur lækkað um 40% síðan, svipað og Bitcoin frá hæsta punkti ársins 2017).
Tíminn frá því fólk hafði ekki heyrt á Bitcoin minnst, fór að spyrja hvað Bitcoin sé, í að spyrja undir lok árs hvernig kaupi ég Bitcoin, hefur verið ótrúlega stuttur. Bitcoin hefur farið á flug um samfélagsmiðla, fréttamiðla og fjölskylduboð, flug sem lætur einfaldlega allar fjármálabólur sögunnar líta illa út hvort sem litið er til umfjöllunar eða verðþróunar.
Það er auðvelt að segja að kunnuglegar bólubjöllur séu farnar að klingja. Með sama hætti og í fyrri bólum ræðir ólíklegasta fólk við mann um Bitcoin. Alveg eins og þegar hlutabréfaráðgjöfin fyrir áratug var áberandi segja leigubílstjórar manni núna í óspurðum fréttum frá Bitcoin.
Fjölmargar dæmisögur er hægt að segja til að sannfæra mann um að Bitcoin bóla sé í gangi. Bitcoin appið CoinBase, þar sem hægt er að fylgjast með þróun og eiga viðskipti með Bitcoin, er vinsælasta appið í Bandaríkjunum. Það skýtur bæði Facebook og Instagram öppunum ref fyrir rass. Hvernig er hægt að trúa að þetta sé ekki bara bóla?
Þeir sem lengi hafa verið á Bitcoin vagninum segja almenning einfaldlega ekki skilja Bitcoin frekar en internetið á sínum tíma. Hreintrúaðir segja að Bitcoin sé einfaldlega það ólíkt því sem við þekkjum að ekki sé hægt að bera það saman við neitt annað. Bitcoin breyti einfaldlega landslaginu. Ein vinsælasta söluræðan er að alveg eins og það var ekki fyrirséð á tíunda áratugnum hvað internetið gæti gert fyrir dreifingu og miðlun upplýsinga þá átta fáir sig nú á því hvað Bitcoin, og þá ekki síður Blockchain tæknin sem er á bak við Bitcoin, getur gert fyrir peninga og fjármálakerfið. Nokkuð kraftmikið, ekki satt? Hvort Bitcoin breytir öllu eða engu er þó enn algjörlega óljóst.
Er hægt að búa til traust án sterkra stofnana?
Það er mjög auðvelt að skrifa skemmtilegar Bitcoin sögur og pælingar. Uppáhaldið mitt er að hugsa um Bitcoin sem merkilega tilraun til að búa til dreifstýrt traust. Hingað til hefur traust í samfélagi orðið til á grunni sterkra stofnana eins og seðlabanka, þingi eða skóla. Ef traust myndast um eitthvað eins og Bitcoin verður í fyrsta sinn til dreifstýrt traust — traust til nets í stað traustrar stofnunar.
Það er svo margt áhugavert umfram ævintýralega hækkun Bitcoin síðustu mánuði. Tilurð Bitcoin er sveipuð dulúð, höfundurinn er leynipersóna, yfirvöld tortryggja tilgang þess og hlutverk og undirliggjandi flókna tækni skilja fáir.
Bitcoin hefur jafnframt um margt þróast öðruvísi en lagt var upp með á sínum tíma. Raunveruleikinn er mjög ólíkur hinni útópísku heimsmynd sem margir teiknuðu upp og heilluðust af.
- Í stað þess að vera mynt sem hægt er að nota til að kaupa víða vörur og þjónustu er Bitcoin fyrst og fremst spákaupmennskueign í ætt við hrávöru eins og gull.
- Í stað þess að vera skilvirk leið til viðskipta er viðskiptakostnaður mikill, viðskipti tímafrek og orkusóun gríðarleg. Daglega eru 300.000 Bitcoin færslur sem hver þarf 215 kílóvattstund af orku.
- Í stað þess að vera dreifstýrð og engum háð er bæði eignarhaldið á stærstum hluta Bitcoin sem og reiknigetan til námugraftarins á fárra höndum. Um 1,000 stórlaxar eiga yfir 40% af virði Bitcoin og meira en helmingur námugraftarkraftanna, þess sem þarf til að búa til ný Bitcoin, er á valdi fjögurra stærstu námafélaganna. Stærsta námufélagið, hið kínverska AntPool, er með 17% af reiknikraftinum.
Betra en gull?
Sumir trúa því að Bitcoin sé rafrænt gull og að Bitcoin geti myndað sams konar grunn fyrir viðskipti framtíðar og gull eða Bandaríkjadalur. Sumir spá því að það verði „Bitcoin-fótur“ á gjaldmiðlum og viðskiptum í framtíðinni og þjóðagjaldmiðlar líði undir lok.
Bitcoin, hefur eins og gull, ekkert eiginlegt virði. Pappírinn í dollaraseðlinum hefur að sama skapi ekkert virði. Það er einfaldlega sannfæringin um að þú getur skipt þessum bleðli, eða gullstöng, fyrir verðmæti sem grundvallar verðmæti seðilsins. Alveg eins gildir að virði Bitcoin felst í því að eigandi Bitcoin trúir því að einhver annar vilji taka við Bitcoin gegn afhendingu verðmæta. Þeir halda svo á Bitcoin, en nota það ekki í viðskiptum, því þeir trúa því að virðið verði meira í framtíðinni en í dag.
I bought my first BTC at $30 and watched it tumble to $2 in the next year. If you can't stomach a 90% drop in crypto, don't adopt early. 😀🚀
— Charlie Lee [LTC] (@SatoshiLite) November 6, 2017
Ómögulegt að segja hvað gerist næst
Það er ekki ofsögum sagt að mjög erfitt er að segja hvernig þróun á Bitcoin verður. Við getum spurt okkur hvort eiga megi von á því að gengi Bitcoin lækki árið 2018 um 70% eins og gerðist 2014 eða hækki eitthvað í líkingu við árið 2017.
Sannfærður um kraft Blockchain
Ég er sannfærður um að Blockchain tæknin sem Bitcoin byggir á mun í framtíðinni hafa áhrif á fjármálakerfið. Ég trúi líka að einhver dulkóðunarmynt í ætt við Bitcoin mun hafa mikil áhrif í framtíðinni. Ég trúi hins vegar ekki að Bitcoin sé stóra svarið við umbreytingu fjármálaþjónustu eða að sú dulkóðunarmynt sem mun hafa mestu áhrifin sé komin fram. Eina sem við vitum er að flug Bitcoin var sögulegt árið 2017, Bitcoin komst í almenna umræðu og spenningurinn fyrir framþróun fjármálaþjónustu er meiri en nokkru sinni fyrr.
Auðvelt er að trúa því að Bitcoin árið 2018 verði ólíkt 2017. Ef Bitcoin tekur yfir 2018 eins og 2017 þá hefur tekið Bitcoin í alvöru tekið yfir (fjármála)heiminn. Hækkun ársins 2017 var það svakaleg að ef hún heldur eins áfram 2018 mun virði Bitcoin fara yfir verðmæti allra hlutabréfa í kauphöllinni í London í júní, yfir verðmæti allra hlutabréfa í kauphöllinni í New York í október og yfir samanlagt virði allra hlutabréfa skráð á öllum mörkuðum í heiminum í apríl 2019[1]. Ég treysti mér til að spá að það gerist ekki.
Höfundur er hagfræðingur og stýrir stefnumótun og markaðsmálum hjá Íslandsbanka.