Þann 29. desember 2017 birtir Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun sína nr. 29/2017 sem var: „Flokkur fólksins braut gegn 1. mgr. 46. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, með því að láta senda smáskilaboð til kvartenda þar sem viðtakendur voru hvattir til að kjósa flokkinn í kosningum til Alþingis 28. október 2017.“
Smáskilaboðin sem send voru eru þessi: „Ertu með kosningarett? – Nyttu rettinn! Afnemum fritekjumark og haekkum skattleysismork. Kaer kvedja! Flokkur folksins X-F.“ (sic)
Engin ákvæði eru í íslenskum lögum sem banna fjöldasendingu smáskilaboða af þessu tagi þvert á móti er rétturinn til þess varinn af 73. grein Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33. 17. júní. Greinin hljóðar þannig: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“
Kosningabarátta er tvímælalaust það að láta í ljós hugsanir sínar – og hvetja aðra til þess að styðja þær. Sá réttur er nánast heilagur í lýðræðisríki.
Sum þriðja heims ríki hræðast þennan rétt því hann getur leitt til fjöldahreyfinga. Þannig var upphaf Arabíska vorsins með fjölda smáskilaboðum. Nokkur ríki þriðja heimsins munu hafa lagt bann við þessu tjáningarfrelsi s.s. Egyptaland og Indland. Ísland er ekki í hópi þessara landa - þó Póst- og fjarskiptastofnun virðist telja svo vera.
Hins vegar hafa verið settar takmarkanir um sendingu smáskilaboða „fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram.“ eins og segir í lögunum.
Póst- og fjarskiptastofnun telur kosningabaráttu vera „beina markaðssetningu.“
Því er undirritaður algerlega ósammála því bein markaðssetning er að bjóða vöru til kaups og hvetja almenning til þess að kaupa hana. Markaðssetning er því alltaf viðskiptalegs eðlis.
Kosningabarátta er ekki viðskipti.
Þá er því við að bæta að Póst- og fjarskiptastofnun telur í ákvörðun sinni sig ekki bæra til þess að gefa opinbert álit á málum sem þessum – en gerir það samt!
Í framangreindri ákvörðun segir: „Þrátt fyrr að ákvæði 10. gr. laganna vísi aðeins til þess að stofnunin leysi úr ágreiningi neytenda við fjarskiptafyrirtæki eða póstrekendur hefur stofnunin.......“
Niðurstaða mín er að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar er röng og brot á kjarnareglu Stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi – og það að Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekkert vald til þess að kveða upp dómsorð, hefur ekki það hlutverk og er ekki til þess bær.
Smáskilaboð þessi voru send grundvallað á mínu lögfræðiáliti, sem ég stend við og hef að baki 40 ár í lögfræði við fjölmörg mál, sem allflest hafa unnist fyrir dómstólum.
Því miður eru yfirlýsingar formanns og prókúruhafa Flokks fólksins, vegna þessa máls, ekki í minnsta takt við raunveruleikann. Ég hef hingað til talið mér trú um að Flokkur fólksins væri lýðræðisflokkur, en ekki í einkaeign Ingu Sæland.