Ímyndaðu þér að þú gangir inn á veitingastað til þess að fá þér máltíð. Á veitingastaðnum eru tvö hlaðborð í sitt hvorum enda staðarins. Hægra megin er tuttugu metra langt steikarhlaðborð með meðlæti í öllum regnbogans litum. Borðið er útskorið úr fegursta harðviði og maturinn er á hlægilegu verði því hann er ríkulega niðurgreiddur. Vinstra megin er tveggja metra langt borð með frekar fátæklegum salatbar: Nokkur salatblöð, tómatar og gúrka. Engar sósur, engin fræ; lítið bragð.
Í hádeginu og á kvöldmatartíma er mikið að gera á veitingastaðnum og þá myndast biðröð við steikarhlaðborðið. Sumir fara að ókyrrast og kvarta undan því hvað allt gangi hægt. Föðurlegir eldri menn leggja til að borðið verði stækkað svo að fleiri komist í steikina á sama tíma. Steikarborðið hefur nú þegar verið stækkað nokkrum sinnum og er farið að taka nær helming gólfplássins staðarins.
Allt í einu kallar ein kona úr röðinni: „en ef fleiri fara á salatborðið, myndi þá ekki ganga betur að koma mat ofan í alla?“. Þetta mætir vægast sagt tortryggni. „Þú verður að átta þig á því að þjóðin hefur valið steikina,“ segir einn gesturinn. „Íslendingar, og sérstaklega ekki Seltirningar, verða ekki dregnir frá sínum steikum,“ segir móðir sem nálgast steikarborðið óðfluga. „Staðreyndin er bara sú að það langar engan í salat,“ segir sá þriðji í föðurlegum tón.
„En ef við gerum betri salatbar!“ segir konan aftur. „Við gætum fengið okkur betra borð, verið með fjölbreyttara salat, fyllt oftar á barinn og þá myndu fleiri fá sér salat og um leið myndi röðin á steikarborðið minnka. Allir vinna!“
Fólkið sem var bara pínu pirrað er nú orðið bálreitt. „Kostnaður við svona salatborð hefur alltaf farið langt fram úr áætlun“ segir einn gestur, „Ég veit hvernig ungt fólk hugsar; alveg eins og ég þegar ég var ungur fyrir 50 árum: steik en ekkert helvítis salat.“ segir annar. „Þetta er aðför að fjölskyldusteikinni“ æpir móðirin.
Miðaldra maður með vatnsgreitt hár aftur stígur út úr steikarröðinni og ávarpar hana: „Mér líst ekkert á þessar rándýru salathugmyndir. Við verðum að átta okkur á því að í framtíðinni verða allir í steikarröðinni með vélmenni sem halda á diskunum þeirra fyrir þá, það er miklu betri lausn.
„Fækkar þá í röðinni? Heyrist spurt út úr sal. „Nei, það verða jafnmargir í röðinni en þeir þurfa ekki að halda á disknum svo það verður miklu þægilegri upplifun fyrir þá, við stækkum svo steikarborðið til þess að allir fái nóg“.
Svona líta samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu út. Það er búið að byggja upp borg þar sem íbúar, atvinna og þjónusta hafa verið aðgreind og hraðbrautir byggðar upp á milli þeirra. Þetta er steikarborðið. Það er þó til fólk sem gengur, hjólar og notar almenningssamgöngur. Það borðar af salatborðinu.
Að tala um frjálst val í samgöngum í kjölfar þess að reglur, skipulag og fjárfesting í nokkra áratugi hafa farið nær eingöngu í einn valkost er eins og veitingastaðurinn hér að ofan. Það er búið að leggja hundruð milljarða í annan valkostinn og niðurstaðan er biðröð tvisvar á dag.
Svo þegar gestir sem vilja borða holla matinn spyrja hvort þeir megi líka fá gúrku og salatdressingu verður allt brjálað yfir þessari frekju og menn tala hver í kapp við annan um það hversu dýr gúrkan er og að hún verði næstum örugglega ekki borðuð og benda svo á hversu fáir hafa valið að borða af holla hlaðborðinu í gegnum tíðina.
Allar hugmyndir um að allir fari alltaf á bíl allt hafa fallið um sjálfar sig. Nýir vegir skapa nýja umferð og biðraðirnar lengjast.
Þær borgir sem bjóða upp á mest lífsgæði eiga allar sameiginlegt að hafa sett kraft í að bjóða upp á góða samgönguvalkosti: gott salat en um leið er tryggt að þeir sem þurfa að vera á bíl komist leiðar sinnar.
Höfundur er deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg.