Flest teljum við vafalaust samkeppni vera jákvætt fyrirbæri. Öflug og góð samkeppni tryggir fjölbreytt vöru- og þjónustuúrval, lægra verð og aukið valfrelsi okkar sem neytenda. Samkeppni er líka undirstaða vöruþróunar og tækninýjunga svo eitthvað sé nefnt. Skortur á samkeppni hér á landi á ýmsum mörkuðum hefur líka verið harðlega gagnrýnd í gegnum tíðina og aukinni samkeppni með tilkomu nýrra aðila á borð við Costco, H&M, Nova, WOW o.fl. hefur almennt verið tekið fagnandi. Einokunarstaða á mörkuðum er aldrei til góðs fyrir neytendur. Það er mikilvægt að nýta krafta samkeppni á sem flestum sviðum samfélagsins til að tryggja gæði, framboð, nýsköpun og ekki síst lágt verð. Um það hljótum við öll að vera sammála.
Þrátt fyrir jákvætt viðhorf almennings til samkeppni virðist hún litin hornauga á fjölmörgum sviðum samfélagsins og þá ekki hvað síst af stjórnvöldum. Það er ótrúlega stutt síðan einokun var á smásölu mjólkur og ríkið eitt þótti fært um rekstur fjölmiðla. Rökin sem notuð hafa verið gegn frjálsri samkeppni hafa í gegnum tíðina verið heldur veik. Undanþága mjólkuriðnaðar frá samkeppnislögum var þannig afgreidd af Alþingi á aðeins tveimur vikum með þeirri meginröksemd að um ferskvöru væri að ræða þar sem „samkeppni á innanlandsmarkaði er ekki eins virk“. Þá væri um tímabundna ráðstöfun að ræða til að undirbúa greinina undir aukna samkeppni erlendis frá. Nú eru liðin fjórtán ár frá þeirri „tímabundnu“ ráðstöfun án þess að bóli á afnámi undanþágunnar né aukinni samkeppni erlendis frá.
Treysta stjórnvöld ekki neytendum?
Stjórnvöld virðast eyða talsvert meira púðri í að hindra samkeppni en liðka fyrir henni. Það má stundum halda að stjórnvöld treysti ekki neytendum til að velja. Þannig búum við enn við ríkiseinokun eða umtalsverða þátttöku ríkisins í samkeppnisrekstri á ýmsum sviðum sem oft og tíðum skekkir verulega stöðu annarra aðila. Sé það ekki nógu slæmt þá er hið opinbera gjarnt á að reisa samkeppnishindranir sem hygla einstökum aðilum á markaði.
Ríkið má þannig eitt stunda smásöluverslun með áfengi, heildsöluverslun með tóbak og að stórum hluta póstdreifingar. RÚV er rekið með myndarlegum opinberum framlögum án þess að reisa stofnuninni neinar skorður á auglýsingamarkaði sem hefur í för með sér verulega skekkta samkeppnisstöðu fyrir einkarekna fjölmiðla.
Landbúnaður er sérstaklega undanþeginn samkeppnislögum og rammgerður tollamúr hindrar eðlilega samkeppni innfluttra vara. Í heilbrigðisþjónustu er einkarekstur litinn hornauga í stað þess að hann sé nýttur til að lækka kostnað ríkisins af heilbrigðisþjónustu. Leigubílar eru reknir á sérleyfum með fjöldatakmörkunum sem dregur úr samkeppni með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur. Þjóðkirkjan býr við verulegt forskot í fjárframlögum samanborið við önnur trúfélög. Einkareknir grunnskólar fá almennt lægra framlag á nemanda en opinberir, stærsta sveitarfélag landsins virðist heldur andsnúið einkareknum leikskólum og ríkið eitt virðist fært um að sinna námsgagnagerð af einhverju viti. Við hyglum Háskóla Íslands sérstaklega, sér í lagi hvað varðar framlög til rannsókna og vafalítið mætti fjölmargt fleira tína hér til.
Samkeppni er heilbrigð á öllum sviðum samfélagsins
Ef við trúum því að samkeppni skili almennt betri vöru eða þjónustu á lægra verði en ella, ættum við þá ekki frekar að beina kröftum okkar að því að liðka fyrir henni með öllum tiltækum ráðum? Í heilbrigðisþjónustu skiptir okkur mestu máli að fá sem besta þjónustu. Við viljum að sú þjónusta sé að stærstum hluta kostuð af hinu opinbera (hér er ekki verið að tala fyrir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins) en það getur verið skynsamlegt að nýta kosti samkeppni til að halda kostnaði niðri og um leið örva nýsköpun og fjölbreytni í þjónustu. Hið sama gildir um menntakerfið okkar. Þar skiptir okkur mestu máli að hafa fjölbreytt, hagkvæmt og öflugt menntakerfi þar sem nýsköpun og framsækni eru í fyrirrúmi. Ég er t.d. ekki í nokkrum vafa að tilkoma Háskólans í Reykjavík hafi haft mjög jákvæð áhrif á Háskóla Íslands, vegna samkeppni um nemendur. Þegar kemur að matvælaframleiðslu höfum við sem neytendur mestan hag af fjölbreyttu og góðu vöruúrvali á sem bestu verði. Þar er stærsta vandamálið hið síðastnefnda. Matvælaverð er hér langtum hærra en í nágrannalöndum okkur, ekki hvað síst vegna verndarstefnu okkar í landbúnaði en afar fá lönd innan OECD vernda landbúnað sinn jafn mikið og við.
Það er löngu tímabært að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína til frjálsrar samkeppni. Við eigum stórkostleg tækifæri til að draga úr samkeppnishindrunum og lækka þannig kostnað neytenda. Alþingi ætti frekar að verja tíma sínum í að liðka fyrir samkeppni með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi en viðhalda þeim samkeppnishindrunum sem tíðkast svo víða í samfélaginu. Í Viðreisn viljum við setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og það gerum við best með því að stuðla að sem mestri samkeppni á sem flestum sviðum þjóðfélagsins.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.