Í gegnum tíðina höfum við tekið ákvarðanir langt inn í framtíðina um það hvar og hversu mikið við ætlum að virkja án þess að hafa endilega ákveðið í hvað orkan á að fara. Þessu ætti að sjálfsögðu að vera öfugt farið, en til að svo megi verða þarf að setja Íslandi orkustefnu til framtíðar.
Kannski er eftirspurnin eftir framtíðarsýn stjórnmálamanna ekki mikil, en ég ætla að leyfa mér að setja fram þá sýn sem ég hef á orkumál Íslands. Umræðan um orkumál hefur um of snúist um einstaka virkjanakosti; hvort nýta eigi eða vernda. Við höfum einblínt um of á einstaka tré og fyrir vikið misst sjónar af skóginum. Ég vil snúa þessu við, horfa á hlutina frá nýjum sjónarhóli.
Fyrst þurfum við að setja það niður fyrir okkur hvernig samfélag við viljum sjá á Íslandi í framtíðinni, árið 2030 eða 2040. Viljum við að Ísland verði grænt samfélag, hafi náð kolefnishlutleysi, dregið úr innflutningi og notkun jarðefnaeldsneytis og nýti innlenda endurnýjanlega orkugjafa við rekstur samfélagsins? Slíkt er í samræmi við það sem ríkisstjórnin hefur sett fram um kolefnishlutleysi árið 2040 og uppfyllingu skuldbindinga vegna Parísarsamkomulagsins árið 2030.
Þegar við höfum sæst á það hvert við stefnum, getum við snúið okkur að því að skoða það hvernig við komumst þangað. Hvað þurfum við að nýta af orkuauðlindum landsins til að skapa grænt og umhverfisvænt samfélag? Hvernig getum við náð sem mestri sátt þar um, nýtt orkuna á sem umhverfisvænastan máta. Viljum við byggja upp lítil og meðalstór fyrirtæki á ákveðnum svæðum, viljum við tryggja betur afhendingaröryggi orkunnar.
Þegar við höfum svarað þeim spurningum setjumst við yfir það hvernig er hægt að flytja orkuna. Þurfum við að byggja upp betra dreifingarkerfi, tengja ákveðin landsvæði betur við kerfið? Hvernig tryggjum við nauðsynleg orkuskipti í samgöngum og aðgengi að rafmagni til þeirra um allt land? Í atvinnulífinu? Sjávarútvegi og landbúnaði?
Þetta er ferlið sem ég tel nauðsynlegt:
Framtíðarsýn (hvernig viljum við sjá Ísland) – í hvað ætlum við að nýta orkuna – hve mikla orku þurfum við – hvar ætlum við að afla hennar – hvernig eigum við að flytja hana.
Til að þetta sé mögulegt þarf einnig að samræma þær áætlanir sem þegar hafa verið samþykktar, eða eru í bígerð. Aðgerðaráætlun um orkuskipti í samgöngum, Rammaáætlun, stefnu í línumálum, stefnu um uppbyggingu iðnaðar, byggðastefnu, skuldbindingar vegna Parísarsamkomulagsins, stefnu um kolefnishlutlaust Ísland. Allt þarf þetta að tala saman, sem og fleiri stefnur og samþykktir, falla saman í það púsluspil sem samansett er það samfélag sem við viljum sjá.
Ég var svo heppinn að fá tækifæri til að eiga fundi í Svíþjóð og Danmörku fyrr í þessari viku og kynnast því hvernig vélað er um orkustefnu þar á bæ. Það var lærdómsríkt, svo ekki sé meira sagt. Vissulega eru aðstæður ólíkar í þeim löndum, en ferlið sem nauðsynlegt er til að sátt ríki í samfélaginu um orkumál er svipað hvar sem er í heiminum.
Eitt var sameiginlegt öllum sem ég ræddi við, bæði í Danmörku og Svíþjóð, hvort sem þau komu úr þinginu, stjórnsýslunni, umhverfissamtökum eða orkugeiranum; breið samstaða er nauðsynleg.
Danir fóru í markvissa vinnu við að efla innlenda orkugjafa í olíukreppu áttunda áratugarins. Þegar fram liðu stundir jókst síðan áherslan á endurnýjanlega orkugjafa og nú á stór hluti raforku þeirra slíkan uppruna. Núverandi orkustefna var samþykkt árið 2012 og gildir til 2020, en mikil vinna hefur farið fram síðustu ár við mótun nýrrar stefnu, bæði til lengri og skemmri tíma.
Í því ferli voru allir kallaðir að borðinu; almenningur, orkugeirinn, umhverfissamtök, stjórnmálamenn, dreifingaraðilar, sveitarfélög og svo mætti lengi áfram telja. Vissulega heyrðust gagnrýnisraddir, sumum fannst að almenningur hefði mátt hafa meiri aðkomu, að fleiri opnir fundir hefðu verið haldnir o.s.frv., en í stóru málunum þótti vinnan takast ágætlega. Niðurstaða hennar var skýrsla sem ríkisstjórnin vinnur nú með til að byggja tillögu um orkustefnu á. Sú fer svo fyrir þingið, sem á lokaorðið.
Í Danmörku er rík hefð fyrir minnihlutastjórnum og það hefur sett mark sitt á það hvernig samvinnu er háttað þar í landi. Ríkisstjórnir hverju sinni geta ekki keyrt stefnu sína í gegn í krafti meirihluta, heldur þurfa að ná breiðri samstöðu um hana. Það kallar á víðfeðmt samstarf, raunverulegt samstarf þar sem sjónarmið allra eru virt.
Ég held að við getum lært margt af þessu. Ef við ætlum að setja okkur langtímastefnu í orkumálum, og raunar á það við um fleiri mál, þá þarf sú stefna að lifa margar ríkisstjórnir. Það þarf að ríkja eins mikil sátt um hana og mögulegt er og til þess þarf stjórnarmeirihlutinn að vera tilbúinn að opna vinnuna.
Orkustefna er eitt af þeim málum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála að fari í þverpólitíska vinnu. Ég ber mikla von til þess að allir séu tilbúnir til að koma að þeirri vinnu með opnum huga og saman getum við sett Íslandi þá orkustefnu sem svo nauðsynlegt er að gera.