„Margur sparar sitt en níðist á annarra.“ (Gamall málsháttur).
Það er alveg magnað, næstum því ótrúlegt, að ef þú lætur hóp af fólki taka ákvarðanir, að þá tekur það alla jafna góðar ákvarðanir. Vel samansettur hópur af meðalmönnum tekur betri ákvarðanir heldur en örfá ofurmenni. En eins og með flest í lífinu að þá er þetta ekki algilt. Heldur á þetta alla jafna við. Með öðrum orðum að það séu yfirgnæfandi líkur á því.
Ég veit ekki með ykkur en ég þarf ekki að vera algjörlega 100% viss um allt. Mér dugar að vera nokkuð viss. Alla jafna. Vitandi að mér gæti skjátlast, veð ég í óvissuna. Nokkuð viss að ég hafi rétt fyrir mér og nokkuð viss að ég hafi rangt fyrir mér. Alla jafna.
Ég veit ekki hvað þessi eiginleiki heitir. Að þegar maður er ekki viss að þá er maður ekkert að þykjast vera viss. Hvort að þetta heitir auðmýkt, efasemd eða gagnrýnin hugsun skiptir ekkert endilega máli. En ég er alveg pottþéttur á því að þetta karaktereinkenni sé af hinu góða. Stundum. Að minnsta kosti oftast. Jæja alla jafna þá.
Það þýðir ekkert heldur að efast um allt og alla endalaust því þá kemst ekkert í verk. Einhvern tímann verða pælingarnar að hætta. Ákvörðun tekin. Framkvæmd. Til að vita hvenær krefst visku.
Það þýðir samt ekki að eftir að ákvörðunin hefur verið tekin að henni megi ekki breyta. Til að vita hvort krefst visku.
Það þýðir samt ekki að það sé hægt að skipta um skoðun hægri vinstri því slíkur hringlandaháttur einkennir skort á stefnu. Að vita hvert krefst visku.
Öll höfum við okkar visku. Sumir meiri en aðrir. Svona er þetta bara. Hins vegar er það alveg magnað, næstum því ótrúlegt – eins og ég kom að hér í byrjun – að þegar þú leggur saman visku einstaklinga að þá margfaldast útkoman. Stundum. Svona alla jafna.
Fræg er sagan af tölfræðingum Francis Galton (1822-1911) sem alla jafna hafði ekki mikla trú á „visku fjöldans.“ Galton var einn daginn staddur á landbúnaðarsýningu þar sem einstakir gestir gátu giskað á þyngd nauts. Yfir 800 manns tóku þátt og af einstæðri forvitni bað Galton um að fá að sjá tölurnar. Það kom honum hressilega á óvart þegar miðgildi hópsins sýndi nákvæmlega þyngd nautsins (542.9kg). Þessi tilraun hefur oft verið endurtekin og niðurstöðurnar eru alltaf eins. Hópurinn veit betur. Alla jafna. Enn fremur hafa sambærilegar niðurstöður komið fram þar sem um töluvert flóknari ákvarðanir var um að ræða heldur en að giska á þyngd nauts.
Það gerist eitthvað magnað þegar viska er lögð saman. Það má segja (eða ekki?) að hún sé ekki lögð saman heldur sé margfölduð. Ég veit ekki hvort að það sé til íslenskt orð yfir þetta fyrirbæri en á ensku kallast þetta synergy. Í grófum dráttum gengur hugmyndin út á að útkoman sé meiri heldur en summa einstakra hluta. Gott dæmi er þegar tvö fyrirtæki sameinast og heildartekjurnar verða meiri fyrir vikið eða sú staðreynd að heilsufarleg áhrif svarts pipars og túrmeriks eru meiri ef þessum kryddum er blandað saman eða þegar teymi einfaldlega smellur saman.
Hins vegar, er það þannig að það þýðir ekkert endilega að henda í hóp og halda síðan að hann verði óskeikull. Það þarf að huga að fjölmörgu. Svo mörgum að ekki gefst ráðrúm til þess hér en í mjög grófum dráttum þarf hópurinn að vera settur saman á fjölbreyttum einstaklingum sem gefin eru tækifæri á að viðra sínar skoðanir jafnvel þótt þær gangi gegn almenningsálitinu og einhverja leið til að nota niðurstöðurnar.
Næst þegar þú heyrir niðurstöður nefndar sem þú ert ekki sammála. Skaltu aðeins staldra við, því þú hefur pottþétt rangt fyrir þér – alla jafna.