Þegar við hugsum um lög og reglur og notkun þeirra í lýðræðislegu samfélagi spyrjum við ekki um leiðir ríkisvaldsins til að beita lögum til að ná ákveðnum markmiðum. Aðalatriðið er nefnilega að lög samfélagsins tryggi það réttarumhverfi sem borgurunum er nauðsynlegt til að lifa friðsælu lífi, geta athafnað sig að vild, tjáð sig, skipst á skoðunum og, ekki síst, í öryggi um að yfirvöld eða sterkir aðilar í samfélaginu geti ekki beitt aflsmunum til að þjóna sérhagsmunum fram yfir hag almennings.
Þegar sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á þá kröfu Glitnis HoldCo að gera lögbann á fréttaflutning Stundarinnar um viðskipti þáverandi forsætisráðherra sáu sem betur fer langflestir það sem sýslumaður annaðhvort sá ekki eða vildi ekki sjá: Að lögbannið var einfaldlega árás á réttarríkið og þar með árás á grundvallargildi samfélagsins.
Það kemur því engum á óvart að Héraðsdómur hafni kröfu um að staðfesta lögbannið. Ráðgátan í málinu er eftir sem áður sú hvernig Sýslumaðurinn í Reykjavík gat komist að þeirri niðustöðu að sér bæri að fallast á lögbannskröfuna. Skýringar á því er ekki að finna í gerðabók embættisins, eins og bent er á í dómnum – þar kemur ekkert fram um hvers vegna sýslumaður hafnaði rökstuddum mótmælum Stundarinnar og Reykjavík Media við lögbanninu.
Því miður kann að vera að fyrirtækið sem kröfuna gerir, Glitnir HoldCo hafi fengið það út úr málinu sem það ætlaði sér þrátt fyrir þessa niðurstöðu. Fyrirtækinu tókst að stöðva umfjöllun byggða á þeim gögnum sem lögbannskrafan náði til og kannski telja menn þess virði að hafa komið í veg fyrir umfjöllun í meira en þrjá mánuði miðað við þann kostnað sem í var lagt. Afhjúpaður er fulltrúi yfirvalda í málinu – Sýslumaðurinn í Reykjavík. Hinn almenni borgari hlýtur hins vegar að spyrja sig hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig að fulltrúi yfirvalda taki sér stöðu með stórfyrirtæki gegn almenningi og beiti lögunum gegn augljósum réttindum og hagsmunum almennings. Því það er ógnun við réttarríkið.
Höfundur er formaður Gagnsæis, félags gegn spillingu.