Þegar ég var 16 ára gekk ég í Dr. Martens stígvélum með klút um hálsinn, hlustaði á „The Clash“ og reif kjaft við foreldra mína, sérstaklega pabba! Hann vissi alltaf best og það var í hans valdi að ráða því hvaða tækifæri ég nýtti og hvenær. Auðvitað elskaði hann mig og meinti vel. Ég fann hins vegar fyrir mikilli þörf fyrir að sýna „feðraveldinu“ fingurinn og finna mína eigin rödd. Ég tengi þetta við „Know Your Rights“ með Clash þar sem Joe Strummer lýsir alls kyns réttindum og skyldum sem við eigum að þekkja sem borgarar en eingöngu valdhafar fá þó að njóta. Lagið er í raun köllun til samfélagsins um að vakna til lífsins. Undanfarna viku hef ég samt aftur fundið þörf fyrir að dusta rykið af Dr. Martens, Clash plötum og að senda feðraveldinu fingurinn aftur.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að við, konur af erlendum uppruna, erum farnar að mynda tengsl og rjúfa einangrun sem allt of margar okkar hafa upplifað of lengi. Það er jákvætt að við erum farnar að styðja hver aðra og efla félagsleg tengsl okkar á milli. Samfélagið hlýtur einnig að gera ráð fyrir því að við séum farnar að bera saman bækur okkar og tala um réttindi og skyldur. Áskorun okkar til samfélagsins var ósk um að fólk átti sig á að ábyrgð hvílir á þeim sem stjórna og gæta samfélagsins, kerfanna og atvinnulífinu. Mér finnst hægt að segja að feðraveldið hafi brugðist okkur. Okkar hlutur af #MEtoo byltingunni nær lengra en til kynjamismununar, áreitni og ofbeldi á heimilum og vinnustöðum. Okkar sögur eru litaðar af kynþáttafordómum, mismunun og valdníðslu sem hefur verið beitt gegn okkur á kerfisbundinn hátt. Þessi mismunun kemur í veg fyrir að við getum nýtt okkur réttindi og njótum tækifæra til að fóta okkur og vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu.
Við veltum því fyrir okkur hvort valdhafar átta sig á hvaða ábyrgð þeir bera á að mæta, upplýsa og taka þátt í að gefa okkur sanngjörn tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í íslensku samfélagi. Við veltum því líka fyrir okkur hvort menn átta sig á því að þegar þessi ábyrgð er hundsuð og við ekki upplýst, skapist rými til að beita mismunun og misnotkun með þeim afleiðingum að við hættum að reyna að taka virkan þátt. Sum okkar hreinlega upplifa að tækifærum og möguleikum til að dafna og þroskast hafi verið rænt af okkur.
Við höfum rætt mikið okkar á milli um kerfisbundna mismunun og valdníðslu í garð innflytjenda. Mig langar til að deila með ykkur smá sögum, dæmi um mismunun á vinnumarkaði sem hefur þær afleiðingar við við segjum „ég er hætt að nenna þessu, ég er hætt að reyna og ég get ekki meira.“
- Ég hef starfað í tvö ár án samnings og hef ekkert starfsöryggi. Ég veit ekki hvort ég hef einhver réttindi á vinnustaðnum mínum.
- Mér hafa aldrei verið kynnt réttindi á vinnustaðnum og hef ekki hugmynd um hvort eða hver trúnaðarmaðurinn er.
- Ég hef heyrt um launamismun en þori ekki að spyrja yfirmanninn minn um það. Ég veit ég verð rekin.
- Menntun mín verður aldrei metin. Ég er ekki nógu góð til þess að starfa við það sem ég hef lagði mig fram að læra en er nógu góð til að sinna íslenskum börnum og gömlu fólki.
- Ég var ráðin til starfa sem aupair og sá um þríf í húsum, í fjósi, hestum, þvott, börn og eldamennsku dag og nótt fyrir heilar 15.000 kr. á viku.
- Það hefur alltaf dregið af laununum mínum þegar ég er með veikt barn eða er ég látin vinna það upp með ógreiddri yfirvinnu.
- Ég var rekin vegna þess að læknirinn minn sagði mér að fara í fimm vikna veikindaleyfi.
- Mér er sagt upp starfinu hvert einasta sumar í staðinn fyrir að fá greitt sumarfrí. Ég fæ launalækkun og þarf að fara atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði.
- Það er alltaf dregið af laununum mínum ef ég fer til læknis, í foreldraviðtöl eða Útlendingastofnun til að endurnýja pappíra.
- Ég heyrði yfirmanninn minn segja um daginn að hún læsi aldrei umsóknir frá innflytjendum, það skapaði bara álag á vinnustaðnum að ráða mörg okkur til starfa.
- Ef ég er veik ég þarf að finna einhvern til þess að vinna fyrir mig.
- Ég spurði yfirmanninn minn hvað gerðist ef eitthvað kemur fyrir mig þegar ég er að þrífa alein á nóttunni. Hún bara hló og sagðist vona að ekkert gerðist.
- Þegar ég byrjaði í starfinu vorum við þrír að vinna saman. Nú hafa hinir tveir verið reknir, ég vinn einn að gera allt sem við gerðum þrír áður og fæ ekki launahækkun. Mér er bara sagt vinna hraðar.
- Ég tilkynnti einelti á vinnustaðnum og var sagt „er það ekki bara vegna þess að þú talar ekki nóga góð íslensku. Læra bara íslensku og þetta mun lagast.“ Samt fæ ég ekki leyfi að fara á námskeið á vinnutíma.
Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að sum okkur fá einungis tækifæri til að læra íslensku og um íslenskt samfélag þar sem við störfum og meðal þeirra sem við störfum með. Ef okkar reynsla á vinnumarkaði gefur okkur skýr skilaboð um að við séum undir, séum minna virði og höfum ekki sömu réttindi og þeir sem við störfum við hliðina á, hvað gerist þá þegar við mætum erfiðleikum heima við eða í öðrum kerfum?
Ég spyr líka hvort fólk á að sætta sig við svona framkomu. Félags- og jafnréttismálaráðherra hyggst leggja aftur fram frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna (heildarlög) og frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði (jafnrétti á vinnumarkaði) nú í febrúar. Ég vona að nefndin taki málin til vinnslu. Þegar þessi mál komu inn í allsherjar- og menntamálanefnd í apríl í fyrra voru þessi sömu frumvörp ekki snert. Ráðherrann á einnig að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör þeirra starfsmanna. Við tókum það mál til vinnslu í velferðarnefnd í fyrra en þaðan var það sent aftur í ráðuneytið til frekari vinnslu þar sem ákvæði þess voru á skjön við lög um persónuvernd.
Það mál ekki bíða lengur með það að virða alvöru og „all inclusive“ jafnrétti og mannréttindi á vinnumarkaði. Ef þessi frumvörp verða að lögum þýðir það að í fyrsta sinn hérlendi yrði einstaklingum, sem telja sér mismunað á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar, veitt heimild til að leita réttar síns hjá úrskurðarnefnd innan stjórnsýslunnar.
Ég ætla að hinkra aðeins með Dr. Martins og hálsklútinn. Ég ætla líka geyma fingurna í vasanum og leggja mitt traust á feðraveldið í þeirri trú að yfirvöld sýni ekki sýndarmennsku við samþykkt þessarra laga. Ég ætla að trúa því að þeir sem bera ábyrgð á að fylgja þessum lögum verði sýnt aðhald og eftirlit. Ég ætla að trúa því að Jafnréttisstofa, Persónuvernd og kærunefndin verði fjármögnuð til samræmis við eðli og umfang verkefnanna, að starfsmönnum verði fjölgað til muna og að horft verði til landsins alls, ekki eingöngu hér í Reykjavík. Ég ætla einnig að hafa trú á því að sérfræðingar, með sérþekkingu á málefnum innflytjenda og mannréttindum verði ráðnir til starfa í þessi mikilvægu verkefni.