Það hafa líklega fáir farið varhluta af umræðum um skipulagsmál í Reykjavík undanfarin misseri, og sérstaklega nú þegar borgarstjórnarkosningarnar eru á næsta leiti. Allir hafa skoðanir á Borgarlínu, þéttingu byggðar og mislægum gatnamótum—og sitt sýnist hverjum, eins og gengur. Af einhverjum ástæðum, sem mér hefur aldrei tekist að átta mig fyllilega á, virðist sem skoðanir á þessum málum liggi nokkurn veginn eftir flokkslínum: Sjálfstæðismenn vilja halda áfram á sömu braut útþenslu og hraðbrauta en vinstrimenn í öllum flokkum vilja breytingar. Mér finnst þetta furðulegt vegna þess allt bendir til þess að dreifð borg kosti meira, bæði fyrir einstaklingana, fjölskyldur og hið opinbera. Þétt byggð er líka góð fyrir verslun og viðskipti, auk þess sem færri bílar á götunum þýða betri umferð fyrir þá sem eru á bíl. Hvers vegna ættu hægrimenn að vilja sóun og óhagkvæmni?
Það er auðvitað ekki svo að fólk hafi engin rök—til dæmis heyrir maður oft að fólk hafi valið einkabílinn og því sé það forræðishyggja að neyða það til að nota aðra ferðamáta. En er það svo? Velur fólk ekki ferðamáta eftir því sem er þægilegast og best fyrir það, og hefur borgarskipulagið þar engin áhrif? Auðvitað er þægilegast og best að keyra í borg sem er skorin í sundur þvers og kruss af hraðbrautum og bílastæðum. Það er auðvelt að keyra og erfitt að ganga, og þess vegna gerir fólk það. En þetta borgarskipulag spratt ekki upp af sjálfu sér, það var ákveðið af stjórnmálamönnum. Að stjórnmálamenn taki aðra ákvörðun í dag er ekki forræðishyggja frekar en það er forræðishyggja að ákveða að byggja fleiri mislæg gatnamót eða leggja meira land undir bílastæði. Hvort tveggja er pólitísk ákvörðun—það vill bara svo til að önnur var tekin í fortíðinni. Staðreyndin er sú að Reykjavík er full af fólki sem sér sig tilneytt til að keyra bíl, en gerir það samt, frekar en að það sé frjálst val (og greiðir fyrir það sem samsvarar 2-3 mánaðarlaunum á ári).
En stundum fær maður á tilfinninguna að röksemdir fólks gegn nýrri stefnu séu ekki settar fram í góðri trú. Dæmi um þetta er nýleg grein Sirrýjar Hallgrímsdóttur í Fréttablaðinu um þessi mál, en grein hennar er lítið annað en samansafn af klisjum sem löngu er búið að hrekja eða sýna að byggðar séu á misskilningi. Auk þess sem hún beitir fyrir sig litlu öðru en hæðni og ódýrum mælskubrellum til að rökstyðja mál sitt.
Til dæmis hæðist hún að ónefndum borgarfulltrúa fyrir að halda því fram að hraðbrautarstefnan sé ekki sjálfbær og leysi ekki umferðarvandann og lætur að því liggja að viðkomandi sé á móti því að borgin sinni sjálfsagðri þjónustu við íbúanna. En það er ekki sem borgarfulltrúinn er að segja, heldur að ef tilgangurinn er að bæta umferð, þá sýnir öll reynsla að gamla stefnan virkar ekki. Enda hafa umferðarspár sýnt að ferðatími muni að óbreyttu lengjast um allt að 65% fram til ársins 2040, vegalengdir aukast um 55% og umferðatafir um 80%. Ég er auðvitað ekki að segja að umferðarsérfræðingar hafi alltaf rétt fyrir sér og að það sé útilokað annað en að þessi spá gangi eftir—heldur að það séu ekki mótrök að draga dár að slíkri rökstuddri skoðun án þess að segja nokkuð frekar (öllum er kleift að skoða forsendur og aðferðirnar sem leiddu að þessari niðurstöðu). Hvers vegna ættum við ekki að búast við því að þessi rökstudda áætlun gangi eftir? Bara af því að Sirrý er svo sniðug? (En raunar viðurkennir hún óbeint að þetta sé rétt með því að segja að „allt muni fara aftur í sama horfið“)
Sirrý segir líka að Borgarlína sé „Sovét-stæl risalausn sem á að redda málum í eitt skipti fyrir öll“ og að nú eigi allir að fara í strætó. En það hefur enginn sagt. Stefnan er, og hún er fullkomlega raunhæf, að 12% ferða á höfuðborgarsvæðinu verði farnar í almenningssamgöngum árið 2040. Hvers vegna segir Sirrý þá að stefnan sé að „allir eigi að fara í strætó“? Eru 12% allir? Er það ekki í raun frekar hófleg og skynsamleg stefna? Sirrý ætti frekar að finna einhverjar röksemdir fyrir því af hverju þetta er óskynsamlegt—hæðni og ýkjur eru ekki rök. Hvers vegna er það „svo sovésk lausn“ að leggjast í framkvæmd sem hundruð borga í Ameríku og Vestur-Evrópu hafa lagst í með góðum árangri, margar sambærilegar við Reykjavík? Mætti ekki allt eins kalla þetta „norska lausn“ eða franska? Hvers vegna er það ekki „risalausn sem reddar öllu“ að breikka hraðbraut og byggja mislæg gatnamót? Það kostar líka.
Líklega er svarið það að það er ekki lausn, eins og Sirrý sjálf viðurkennir.
Hún lætur líka að því liggja að bílferðum muni bara fjölga með fleira fólki því veðrið á Íslandi sé svo vont. Þessu geti Borgarlínan ekki breytt. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að fólk í Vestubænum fer 57% sinna ferða með öðrum leiðum en einkabíl? Er veðrið þá svona gott í Vesturbænum, eða getur verið að fólk geri það vegna þess að þar er borgarskipulagið með þeim hætti að aðrir ferðamátar eru raunhæfir? Ég er auðvitað ekki að segja að veðrið hafi engin áhrif en það er augljóst að það er ekki einu sinni mikilvægasti þátturinn þegar kemur að því að velja sér ferðamáta—annars væri ekki svona sterk fylgni milli þess að velja aðrar leiðir að koma sér á milli staða og búsetu í borginni. Auðvitað keyrir fólk þar sem annað er erfitt—það vita það allir og um það snýst öll þessi umræða.
Loks gerir hún grín að Degi B. Eggertssyni fyrir að segja að það vanti krana og mannskap til að byggja fleiri íbúðir. Henni finnst sú fullyrðing ekki eiga rétt á sér því að lóðaskortur sé það valdi húsnæðisvandanum í Reykjavík. Þetta fullyrðir hún blákalt eins og um beinharðar staðreyndir sé að ræða, þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi úthlutað nógu mörgum lóðum til að byggja heilt Seltjarnarnes á síðasta ári (margfalt fleiri en nágrannasveitarfélögin til samans), að byggingarhraði á þéttingarsvæðum sé meirien í úthverfum og að framleiðslugeta byggingariðnaðarins sé einfaldlega ekki meiri en þetta.
Væri ekki til mikils unnið að færa umræðuna upp á aðeins hærra plan og sleppa ódýrri hæðni? Til þess þarf ekki einu sinni krana.