Síðustu daga hef ég fengið ótal símtöl og fyrirspurnir frá fólki vegna þess að húsið þeirra grætur. Veðrið er einmitt til þess fallið þessar síðustu vikur að mörg hús eru gráti nær. Húsin gráta vegna rakaþéttingar innandyra, skrifa þarf sérstakan pistil um leka og viðbrögð vegna slagveðurs sem hefur geisað síðustu misseri.
Rakaþétting
Helstu ummerki eru að við glugga má sjá vatn eða móðu. Í hornum við útveggi liggja taumar eða málning byrjar að bólgna. Í verstu tilfellum er komin svört, græn, grá eða bleik slikja á útvegg, við rúður eða glugga. Þarna leynist stundum mygla eða aðrar örverur, sem eingöngu ná að vaxa upp vegna raka. Gró myglu eru þegar til staðar alls staðar og eru ekki til ama fyrr en þau ná nógu miklum raka til þess að vaxa up og mynda myglusvepp.
Myglu- eða prótínpróf
Margir grípa til þess ráðs að kaupa ,,myglupróf“ sem verða fjólublá sé þeim strokið yfir þessi svæði. Þessi próf eru næm fyrir prótínum og svara ef prótínmagn er hækkað á því svæði sem er strokið yfir. Þetta eru ekki sértæk myglupróf en geta nýst til þess að fá vísbendingar sé þeim beitt á réttan hátt. Mygla og bakteríur eru prótínrík líkt og aðrar lífverur.
Vegna áberandi umræðu um myglu í fjölmiðlum undanfarið er skiljanlegt að fólk verði óttaslegið og gráti nær.
Þess vegna er nauðsynlegt að koma fræðslu til almennings um þessi mál og vona ég að þessi pistill gefi einhverjum svör. Við hræðumst minna það sem við þekkjum, skiljum og getum brugðist við.
Af hverju grætur húsið mitt?
Við venjulegt heimilishald fjögurra manna fjölskyldu getur rakainnihald og vatnsmagn í lofti aukist um að minnsta kosti 40 lítra á viku. Heitt loft getur haldið þessum raka í meira magni en kalt loft. Þessi raki í loftinu getur síðan orðið að vatni við það að komast í snertingu við kaldan flöt. Hver þekkir ekki að glerflaska sem er tekin út úr ísskáp ,,grætur“ á yfirborði þegar við tökum hana út og þá sérstaklega ef heitt og rakt er í kringum okkur. Gott dæmi er kaldur svaladrykkur erlendis.
Það sama gerist á veggjum, við glugga og rúður í húsunum okkar. Á veturna þegar það er kalt úti þá kólna veggfletir og rúður og rakinn sem er í heitu röku lofti hjá okkur innandyra nær þá að dagga, eða falla út á þessum flötum, líkt og á svaladrykknum. Í einhverjum tilfellum má hreinlega sjá vatn við glugga og oft telur húseigandi að gluggarnir hljóti að leka. En þegar betur er að gáð þá má merkja muninn á því að þessi raki kemur ekki eingöngu við slagveður eða í úrkomu, heldur einmitt á köldum vetrardögum.
Í okkar veðráttu er ansi freistandi að híma innandyra með lokaða glugga og njóta hlýjunnar. Húsin okkar eru ekki endilega á sama máli.
Hvað er kuldabrú?
Við á Íslandi einangrum gjarnan húsin okkar að innan og það byggingarlag eykur líkur á kuldabrúm. Það er að segja án þess að fara út í tæknileg atriði þá eru frekar kaldir fletir á yfirborði veggja en í húsum sem eru einangruð að utan. Þessir fletir eru þá sérstaklega þar sem gólf- eða loftplata mætir útvegg. Þess vegna er mikilvægt að við áttum okkur á því að þessi veikleiki er til staðar og að við þurfum að gæta að því hvernig við hegðum okkur og hver loftrakinn er inni hjá okkur. Að sama skapi getur heitt rakt loft í einhverjum tilfellum þéttst og grátið innan í veggjum, á milli einangrunar og steypu við ákveðnar aðstæður. Þessar afleiðingar of mikils rakaálags sjáum við ekki eins og rakaþéttingu á rúðum.
Innivist og loftgæði
Í þessum pistli verður ekki farið yfir hönnun húsa og hvað er til ráða til framtíðar. Fyrst og fremst bent á þau atriði sem við sem búum í húsum þurfum að hafa í huga til þess að lágmarka þessa áhættu sé þess kostur. Ef slíkar aðstæður eru til staðar og ef upp vaxa örverur, mygla eða bakteríur geta loftgæði innandyra skerst og á sama tíma aukið líkur á heilsufarskvillum sem tengjast öndunarfærum og sýkingar verða jafnvel tíðari. Þessa áhættu metur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og fjallar þá um raka og myglu í samhengi sem áhættuþátt vegna heilsu.
Góð loftgæði innandyra auka vellíðan og bæta heilsu. Ferskt útiloft og því loftskipti spila þar lykilhlutverk. Í þéttum húsum þar sem gluggar eru opnaðir sjaldan og loftskipti takmörkuð getur orðið uppsöfnun á koltvísýringi, sem við gefum frá okkur og öðrum efnum sem fylgja húsbúnaði, hreinlætisvörum og þrifum.
Gæði svefns og vellíðan í húsum ræðst að miklu leyti af loftskiptum.
Eftirfarandi atriði ætti meðal annars að hafa í huga:
- Loftraki inni hjá okkur hækkar við eftirfarandi
- Þvotta, þurrkun á þvotti, baðferðir, matargerð og inniveru fólks
- Loftrakamælir ætti að vera til á hverju heimili
- Fást m.a. í byggingarvöruverlsunum eða netverslunum
- Til þess að læra hvaða hegðun eykur loftraka og hvenær er þörf á að bregðast við.
- Loftraki ætti að vera undir 40% og jafnvel 30% þegar er kalt/veturna hærri á sumrin
- Háð húsagerð og aðstæðum, móða á glugga eða spegli er þó viðvörun
- Loftskipti þurfa að vera regluleg
- Þumalputtaregla er að skipta um loft amk tvisvar á dag, útiloft inn fyrir inniloft
- Við það að opna glugga verða ekki endilega loftskipti, þarf að gusta í gegn
- Útsog í íbúðum þarf að hafa loftflæði inn á móti til að mynda ekki undirþrýsting
- Undirþrýstingur getur aukið leka t.d. inn með gluggum
- Undirþrýstingur getur togað loft frá þakrými eða innan úr veggjum og skert loftgæði.
- Þegar opnað er upp í vindinn er undirþrýstingur takmarkaður, öfugt ef opnað er hlémegin.
- Í svefnherbergjum ætti að vera rifa á rúðu yfir nóttina
- Bætir einnig svefn og loftgæði
- Gardínur ættu ekki að vera þétt við rúður eða loka alveg loftflæði við rúður
- Húsgögn, rúmgaflar og annað ættu ekki að liggja þétt að útvegg
- Ryksöfnun við rúður eða í hornum getur aukið líkur á að örverur nái að vaxa upp við raka
- Umfram raka ætti ávallt að þurrka upp
- Við rúður á morgnanna eða annars staðar.
Við búum öll í húsum eða þau veita okkur skjól og því ætti það að vera hluti af fræðslu í skólum að kenna okkur að lifa í þeim og líða vel. Þessi pistill er alls ekki tæmandi og margir aðrir þættir sem við þurfum að huga að.
En vonandi grætur húsið ykkar minna eftir lesturinn, að minnsta kosti getið þið þurrkað tárin.
Höfundur er sérfræðingur í innivist, líffræði, lýðheilsa. Fagstjóri EFLU verkfræðistofu.