Fyrir tæpu ári setti greinarhöfundur fram þá tilgátu að eftir rekstrarárið 2017 myndi svigrúm Landsvirkjunar til arðgreiðslna nema um 12 milljörðum íslenskra króna. Um leið var álitið sennilegt að arðgreiðslan yrði samt ekki svo há, en að hún yrði mögulega um 5 milljarðar króna. Og nú þegar Landsvirkjun hefur birt tölur um afkomu sína vegna 2017 sést að umrædd sviðsmynd telst væntanlega í prýðilegum takti við raunveruleikann.
Raunhæf sviðsmynd
Nú liggur sem sagt fyrir að hagnaður Landsvirkjunar 2017 var um 11,2 milljarðar króna. Sem er nánast nákvæmlega sama tala og greinarhöfundur sá fyrir sér sem mögulega arðgreiðslugetu Landsvirkjunar eftir umrætt rekstrarár (miðað við þær forsendur sem raktar voru í áðurnefndri grein). Þarna mætti því e.t.v. tala um raunsætt mat á rekstrarumhverfi fyrirtækisins eða jafnvel ofurnákvæmni.
Aðrir myndu þó kannski fremur vilja kalla þetta tilviljun eða heppni, enda er samsetning tekna og gjalda Landsvirkjunar 2017 ekki alveg sú sama og fólst í áðurnefndri tilgátu greinarhöfundar. En hvaða svo sem því líður, þá liggur nú fyrir sú staðreynd að hagnaður Landsvirkjunar vegna 2017 var nánast nákvæmlega sú tala sem greinarhöfundur áleit vera sennilega eða viðeigandi arðgreiðslugetu Landsvirkjunar eftir það rekstrarár.
Margir og stórir óvissuþættir
Stóru tíðindin eru að arðgreiðslugeta Landsvirkjunar er að aukast hratt. Margir óvissuþættir um afkomu fyrirtækisins valda því þó, að í upphafi sérhvers árs veit í reynd enginn hver niðurstaðan verður eftir árið. En það má reyna að nálgast sennilega niðurstöðu með því að meta alla óvissuþætti af raunsæi og þekkingu. Þar skiptir hvað mestu að meta hvernig orkusamningar fyrirtækisins eru, þ.e. hverjar tekjurnar verða.
Þar skipta álverin mestu máli. En sökum þess að raforkuverðið til álveranna er leyndarmál samningsaðilanna, þarf utanaðkomandi sjálfur að reyna að meta hvert verðið þar er í raun og veru. Og hvernig það muni þróast yfir árið.
Aðrir stórir óvissuþættir eru t.a.m. fjármagnskostnaður Landsvirkjunar og rekstrarkostnaður (sem virðist fara vaxandi). Og þegar reynt er að sjá fyrir hver afkoma Landsvirkjunar verði í íslenskum krónum, skiptir auðvitað miklu máli hinn risavaxni óvissuþáttur sem er gengi íslensku krónunnar. Hér skal líka nefnt að það orkumagn sem stóriðjufyrirtækin kaupa á hverju ári er nokkuð sveiflukennt. Einnig það skapar óvissu og er áhrifaþáttur fyrir tekjur Landsvirkjunar.
Raunsæi og þekking
Með því að meta alla ofangreinda þætti af þekkingu og raunsæi er unnt að sjá fyrir sér hvernig afkoma Landsvirkjunar er líkleg eða sennileg til að verða. Vegna óvissunnar, t.a.m. um þróun álverðs og gengis, er samt alltaf rétt að gera ráð fyrir því að hin raunverulega niðurstaða geti orðið allt önnur en álitin er líklegust! Óvissumörkin eru sem sagt ansið mikil. En þegar raforkuverðið er þekkt af nægilegri nákvæmni og ekki verða óvæntar sveiflur á álverði, gengi eða fjármögnun, getur áætluð niðurstaða orðið nálægt raunveruleikanum.
Verður arðgreiðslan 5 milljarðar króna?
Ýmislegt fleira en hagnaðurinn hefur áhrif á arðgreiðsluna. Það á því eftir að koma í ljós hver arðgreiðsla Landsvirkjunar til eiganda síns (ríkisins) vegna 2017 verður. Tilgátan er að hún verði nálægt 5 milljörðum króna. En til að forðast að tilgátur greinarhöfundar reynist nánast óeðlilega nákvæmar, ætti stjórn Landsvirkjun kannski að gæta þess að hafa arðgreiðsluna nokkru hærri eða nokkru lægri! Hver arðgreiðslan verður, skýrist líklega síðla í mars eða í apríl.
Leyndarmálið um raforkuverð stóriðju komið upp á yfirborðið
Greinarhöfundur viðurkennir fúslega að mat hans á arðgreiðslugetu Landsvirkjunar vegna 2017 hefði allt eins geta orðið langt frá raunveruleikanum. Vegna áðurgreindra óvissuþátta. En hvað svo sem líður öllum óvissuatriðum, þá hafa lesendur skrifa greinarhöfundar væntanlega flestir fyrir löngu áttað sig á því, að sá sem þetta skrifar veit með mjög verulegri nákvæmni hvaða raforkuverð Landsvirkjun fær frá álverunum hverju sinni. Og sú vitneskja gefur manni góða innsýn í tekjur Landsvirkjunar og auðveldar manni að ákvarða líklega sviðsmynd um afkomu fyrirtækisins.
Orkusala til gagnavera hratt vaxandi
Greinarhöfundur telur sig líka vita af talsverðri nákvæmni hvaða raforkuverð ýmsir aðrir smærri viðskiptavinir Landsvirkjunar greiða. En rétt er að halda þeim upplýsingum út af fyrir sig, enda er greinarhöfundur ráðgjafi nokkurra gagnaversfyrirtækja sem eru að leita eftir orkusamningum hér. Og er bundinn trúnaði um þau mál. Og það er athyglisvert að nýlegur stór raforkusölusamningur Landsvirkjunar var einmitt við gagnaver.
Það er þó reyndar svo að raforkusalan í hæst verðlögðu stóriðjusamningunum er hið raunverulega grundvallaratriði í arðsemi Landsvirkjunar. Þar skiptir samningurinn við ÍSAL sérstaklega miklu máli. Svo er þróun raforkuverðs á almenna heildsölumarkaðnum líka mikilvægur áhrifaþáttur í afkomu Landsvirkjunar, þ.á m. hækkandi verð í ýmsum samningum Landsvirkjunar við önnur raforkufyrirtæki. Ekki er ósennilegt að verðþróunin þar muni senn vekja aukna umræðu um það hvert hlutverk Landsvirkjunar eigi að vera á almenna heildsölumarkaðnum.