Í umræðunni um umskurð drengja undanfarnar vikur hefur þeirri staðhæfingu nokkrum sinnum verið varpað fram að bann við umskurði ómálga drengja í nafni trúarbragða stríði gegn mannréttindum foreldra barnsins, nánar tiltekið trúfrelsi þeirra.
Í viðtali við DV kvað framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi umskurð drengja heyra til réttar fólks sem múslima. Verða orð hans ekki skilin öðruvísi en svo að þar eigi hann við frelsi múslima til þess að iðka sína trú, þ.e. þeirra trúfrelsi. Benti hann á að umskurður sé ekki nokkuð sem sé bundið við Ísland, heldur tíðkist hann á meðal múslima um allan heim og hafi viðgengist í þúsundir ára.
Samkvæmt erlendum fréttamiðlum hafa rabbínar í Evrópu kallað eftir alþjóðlegum þrýstingi til þess að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum og tryggja með því trúfrelsi. Þá hefur forseti samtaka biskupa innan Evrópusambandsins lýst því yfir að lög er banni umskurð barna feli í sér mikla ógn við trúfrelsi í Evrópu.
Trúfrelsi hvers?
Sú spurning hefur einnig komið upp í umræðunni hvort umskurður brjóti á mannréttindum barnsins, en þeirri spurningu verður látið ósvarað að sinni og einungis leitast við að svara spurningunni um það hvort bann við umskurði á börnum, á borð við það sem lagt er til í að frumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi, myndi brjóta gegn réttindum foreldranna, þ.e. trúfrelsi þeirra.
Í stuttu máli má telja það ljóst frá lögfræðilegu sjónarhorni að bann við umskurði barna stríðir ekki gegn trúfrelsi foreldranna, fyrst og fremst þar sem heimilt er að takmarka trúfrelsi einstaklinga vegna réttinda og frelsis annarra.
Hvað er trúfrelsi?
Þó hugtakinu trúfrelsi sé iðulega fleygt bæði í almennri umræðu og lögfræðilegri, er oft á tíðum ekki fyllilega ljóst hvað nákvæmlega er átt við með orðinu og hvað í því felst. Hið svokallaða hugsana-, skoðana- og trúfrelsi er á meðal grundvallarmannréttinda sem tryggð eru í stjórnarskránni. Ákvæði um trúfrelsi er einnig að finna í alþjóðlegum samningum á borð við Mannréttindasáttmála Evrópu og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Í 1. mgr. 9. gr. Mannréttindasáttmálans segir að sérhver maður eigi rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, svo sem með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.
Samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar eiga allir rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu. Í 64. gr. stjórnarskrárinnar er svo áréttað að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum vegna trúarbragða sinna, né heldur má nokkur skorast undan almennri þegnskyldu á grundvelli trúarbragða. Í sömu grein kemur fram að öllum sé jafnframt frjálst að standa utan trúfélaga. Þá er bann við mismunun á grundvelli trúarbragða lögfest í 14. gr. Mannréttindasáttmálans auk 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Frelsi án takmarkana?
Þó fólk hafi rétt til þess bæði að hafa sína trú og iðka, þarf inngrip í þann rétt ekki að þýða að brotið sé á trúfrelsi þess. Trúfrelsið er því ekki án takmarkana, en það skal þó einungis takmarkað með lögum og aðeins ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði, eða rétti og frelsi annarra.
Árið 1981 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna yfirlýsingu um útrýmingu alls umburðarleysis vegna trúar. Í 5. gr. yfirlýsingarinnar er fjallað sérstaklega um rétt forráðamanna barns til þess að skipuleggja líf barnsins í samræmi við eigin trú og sannfæringu um siðferðilega kenningu. Kveðið er á um rétt barnsins til fræðslu í samræmi við óskir foreldra sinna, en þó tekið fram að börn skuli ekki þvinguð til þess að þiggja slíka fræðslu gegn vilja sínum, og skal grundvallarreglan um það sem barninu er fyrir bestu höfð þar að leiðarljósi. Í lokamálsgrein ákvæðisins er sérstaklega tekið fram að iðkun trúar þeirrar sem barnið er alið upp í megi ekki valda skaða á líkamlegu eða andlegu heilbrigði barnsins eða hamla fullum þroska þess, og er þar aftur vísað til þess að slíkar takmarkanir skuli vera samkvæmt lögum og einungis ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.
Hvað segir Mannréttindadómstóllinn?
Spurningin um það hvort umskurður ungbarna eða bann við honum standist ákvæði Mannréttindasáttmálans eða ekki hefur ekki komið til kasta dómstólsins enn sem komið er. Þó veita ummæli dómstólsins í nokkrum öðrum dómum ákveðnar vísbendingar um afstöðu dómstólsins í þessum efnum.
Í dómi sínum í máli Osmanoğlu og Kocabaş gegn Sviss komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að lagaskylda barna til þess að sækja sundkennslu bryti ekki gegn trúfrelsi foreldra barnanna. Kvað dómstóllinn að um inngrip í trúfrelsi þeirra væri að ræða, ekki síst rétt þeirra til þess að ala börn sín upp í sinni trú. Hins vegar taldi dómstóllinn inngripið eiga sér stoð í lögum og stefna að lögmætu markmiði, þ.e. aðlögun barna með ólíkan menningarlegan bakgrunn, kennslu í samræmi við kennsluskrá, virðingu fyrir skyldunámi og jafnrétti kynjanna. Taldi dómstóllinn þessi markmið njóta verndar sem „frelsi og réttindi annarra“ í skilningi 2. mgr. 9. gr. Mannréttindasáttmálans.
Þó ekki verði tekin afstaða til þess hér hvort líkur séu á að Mannréttindadómstóllinn myndi telja umskurð ungabarns brjóta gegn grundvallarréttindum barnsins er ljóst að dómstóllinn álítur umskurð geta ógnað heilbrigði einstaklings, ef marka má orð dómstólsins í máli Votta Jehóva í Moskvu gegn Rússlandi. Þó umskurður hafi ekki verið til sérstakrar umfjöllunar í málinu tekur dómstóllinn fram í niðurstöðu sinni að sú almenna afstaða Votta Jehóva að þiggja ekki blóðgjafir verði ekki talin ógna heilbrigði fylgjenda, ólíkt ýmsum siðum og venjum annarra trúarbragða, og nefnir dómstóllinn þar sem dæmi sérstaklega langar föstur rétttrúnaðarkirkjunnar og umskurð barna í gyðingdómi og íslam. Þá nefnir dómstóllinn það sérstaklega að í tilviki barna geti læknar í Rússlandi leitað dómsúrskurðar til þess að gefa barni blóð þrátt fyrir andmæli foreldra af trúarástæðum, gefandi í skyn að slík úrræði yrðu talin samræmast ákvæðum Mannréttindasáttmálans.
Frelsi og réttindi annarra
Af öllu því sem hér hefur verið rakið má telja það ljóst að bann við umskurði barna stríðir ekki gegn trúfrelsi foreldranna. Án þess að afstaða sé tekin til líklegrar niðurstöðu Mannréttindadómstólsins eða annarra dómstóla varðandi það hvort umskurður fæli í sér brot á grundvallarréttindum hins ómálga barns, þ.e. mannréttindum þess, verður að telja nokkuð öruggt að réttur barnsins til líkamlegrar friðhelgi, auk réttar barns til þess að taka ekki við kennisetningum trúarbragða foreldra sinna gegn eigin mótmælum, yrði talið til „réttinda og frelsis annarra“ í skilningi 2. mgr. 9. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og sambærilegra ákvæða annarra laga og alþjóðasamninga.
Höfundur er doktorsnemi í mannréttindum við háskólann í Strassborg.