Frá og með 1. mars næstkomandi munu íbúar Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar geta flokkað plast heima. Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og áðurnefndra sveitarfélaga auk Seltjarnarnesbæjar en þar hefur verið gerð tilraun með að flokka plast í grátunnuna(orkutunnuna) með góðum árangri.
Flokkum plastið heima!
Með Kára vindflokkara verður sorpið vigtað og nýji tækjabúnaðurinn mun blása léttum pokum með flokkuðu plasti frá öðrum úrgangi. Einungis þarf að passa að setja allar plastumbúðir í plastpoka og loka þeim vel. Markmiðið er að draga úr urðun plast og nýta betur hráefni í plastinu. Það er til mikils að vinna því árið 2017 fóru um 27 kg af óflokkuðu plasti á hvern íbúa í förgun og einungis 5 kg af plasti skiluðu sér til endurvinnslu.
Hvers vegna að flokka plast?
Plast er búið til úr olíu, sem er óendurnýjanleg auðlind, og er mikilvægt að nýta betur en nú er gert. Plast brotnar seint eða ekki niður í náttúrunni og getur valdið lífríkinu skaða sleppi það óhindrað út í umhverfið. Ábyrgð okkar allra er að umgangast auðlindir jarðar af virðingu og koma úrgangi í þann farveg að hráefni nýtist á nýjan leik en fari ekki til spillis eða valdi umhverfinu skaða.Samfélagið þarf að gera betur hvað plastið varðar og með nýjum vélrænum flokkunarbúnaði í móttöku- og flokkunarstöð SORPU er einfalt að koma því til endurvinnslu. Þá er hagkvæmara fyrir sveitarfélagið, og þar með íbúana, að sem mest af plasti, pappír og pappa fari í endurvinnslufarveg fremur en í urðun.
Með því að bjóða íbúum að flokka heima næst meiri árangur en markmiðið er að sjálfsögðu í fyrsta lagi að minnka notkun á plasti og síðan að koma öllu plasti sem til fellur í endurvinnslu.
Íbúar viðkomandi sveitarfélaga munu fá nánari upplýsingar um hvernig á að flokka plastið á sínum heimasíðum og einnig verða upplýsingar um plastflokkunina settar inn á vef SORPU.
Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs.