Ár hvert ákveður fjöldi námsmanna hvaðan að úr heiminum að yfirgefa öryggisnet sitt heima fyrir og leggja land undir fót og fara í nám erlendis. Staðan var sú áður fyrr að íslenskir námsmenn gátu ekki sótt nám sitt hér heima og urðu að fara erlendis. Það er enn veruleikinn fyrir suma. Það vita til að mynda þeir sem hafa farið í nám í dýralækningum. Á meðan námsmaður leggur stund á nám sitt, heima eða að utan, er það honum mikilvægt að geta útvegað sér húsnæði og lifað á viðunandi framfærslu.
Í þessari grein eru teknir til samanburðar námsmenn sem stunda nám erlendis með stuðningi sitthvors lánasjóðsins; Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) eða sænska lánasjóðsins (s. CSN). Í þessum samanburði verður annars vegar litið til framfærslulána frá LÍN miðað við 60 ECTS fyrir skólaárið 2017-2018 og hins vegar til styrks og láns til framfærslu frá CSN miðað við 40 vikur fyrir árið 2018 hvað varðar nokkur námslönd í dæmaskyni.*
Námsmaður í Kaupmannahöfn, Danmörku getur fengið framfærslulán frá LÍN að fjárhæð 87.480 DKK en getur fengið styrk og lán til framfærslu að fjárhæð 121.340 DKK frá CSN. Munurinn er yfir 30.000 DKK eða yfir 500.000 ISK.
Námsmaður í Hollandi getur fengið framfærslulán frá LÍN að fjárhæð 9.960 EUR en getur fengið styrk og lán til framfærslu að fjárhæð 16.298 EUR frá CSN. Munurinn er yfir 6.000 EUR eða yfir 750.000 ISK.
Námsmaður í Slóvakíu getur fengið framfærslulán frá LÍN að fjárhæð 6.180 EUR en getur fengið styrk og lán til framfærslu að fjárhæð 16.298 EUR frá CSN. Munurinn er yfir 10.000 EUR eða yfir 1.200.000 ISK.
Í ofangreindum samanburði er ekki litið til ferðalána, skólagjaldalána eða frítekjumarks. Það þarf ekki að fara löngum orðum yfir að þessi samanburður er langt í frá góður fyrir íslenska námslánakerfið og gefur til kynna að allt of langt hafi verið gengið í niðurskurði á námsmenn erlendis síðustu ár. Rétt er að ítreka að sá niðurskurður var byggður á mjög hæpnum forsendum í skýrslu Analytica en stjórn SÍNE og námsmenn erlendis hafa ítrekað bent á vankanta skýrslunnar. SÍNE gerir kröfu um að til framtíðar verði betur staðið að málefnum námsmanna erlendis og framfærsla þeirra leiðrétt eins fljótt og auðið er.
Höfundur er formaður stjórnar SÍNE.
* Námslán frá CSN fyrir einstaklinga skiptast í námslán (s. studielån), lán fyrir aukakostnaði erlendis (s. merkostnadslån för utlandsstudier ) og aukalán (s. tilläggslån). Sjá meira um lán fyrir aukakostnaði erlendis. Aukalán hefur það að markmiði að brúa bilið fyrir einstaklinga sem eru að koma af vinnumarkaði. Skilyrði fyrir láninu eru til að mynda að viðkomandi sé 25 ára það ár og hafa haft að lágmarki 188.825 SEK í tekjur árið á undan. CSN lánar einungis út í sænskum krónum. Því var stuðst við gengisreiknivél sænska Handelsbanken við samanburð þann 24.01.2018. Varðandi önnur skilyrði sjá www.lin.is og www.csn.se.