Sýnt hefur verið fram á að börnum líður vel í íslenskum skólum. Það er ómetanlegt því vellíðan og andlegt jafnvægi eru nauðsynleg skilyrði fyrir góðu gengi í námi. En fleira þarf að koma til. Viðfangsefni þurfa að vera hæfilega ögrandi og fjölbreytt til að styrkja og efla þá hæfni sem fyrir er og til að gera hverjum nemanda kleift að nýta styrk sinn og fjölþætta hæfileika.
Þessa dagana eru skólamál í brennidepli því í nýlegri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar kemur fram að kunnáttu nemenda í íslenskum skólum hrakar samkvæmt PISA-mælingum þar sem athygli er beint að færni í læsi, stærðfræði og náttúrufræði. Svo bætist grátt ofan á svart þegar í ljós kemur að íslenskir nemendur standa verr að vígi en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndum, það særir þjóðarstoltið. Ekki eru þetta ný tíðindi því þetta hefur verið vitað í mörg ár. Og í hvert skipti sem vísbendingar hafa borist um þessa þróun hafa sprottið umræður um skýringar eða orsakir. Útskýrarar hafa tekið andköf og slegið fram fullyrðingum eins og að íslenskir drengir séu upp til hópa ólæsir við lok grunnskóla, þ.e. ófærir um að lesa texta eða tölur. Oft virðist blandað saman hugtökunum lestur og lesskilningur sem merkir að lesandinn skilur merkingu þess sem lesið er. Nemandinn getur lesið en lesturinn kemur ekki að gagni því hann skilur ekki hugtökin sem notuð eru. Þetta hafa allir reynt á eigin skinni: verg þjóðarframleiðsla, stýrivextir, framleiðni, vaxtabætur. Vitum við hvað þessi hugtök merkja? Ef ekki þá getum við slegið þeim upp í orðabók (gúgglað þau). Ríkulegur orðaforði er þannig lykill að skilningi, hvort sem er á mæltu máli eða rituðu.
Nemandi þarf að búa yfir sérhæfðum orðaforða (snúningur jarðar, massi jarðar, tómið í geimnum), einbeitingu og vilja til að geta leyst úr þessu verkefni. Of margir, einkum drengir geta ekki leyst verkefni af þessu tagi.
Hvernig aukum við líkurnar á að meiri hluti nemenda við lok grunnskóla sé fær um að lesa og jafnframt að skilja það sem hann les og leita svara þegar hann hittir fyrir orð sem hann skilur ekki? Á því eru engar töfralausnir, en hér eru nokkrar ábendingar:
Foreldrar, afar og ömmur frændur og frænkur, sem sagt fullorðið fólk, leggi sig fram um að tala við börn frá frumbernsku, fái þau til að segja frá og virki eðlislæga forvitni þeirra. Segi þeim sögur og syngi fyrir þau og um fram allt með þeim.
Foreldrar og aðrir í fjölskyldunni lesi reglulega fyrir börn sín frá unga aldri og noti fjölbreytt efni.
Þegar börn hafa náð tökum á að lesa er mikilvægt að halda að þeim bókum um fjölbreytt efni. Það þarf líka að halda áfram að lesa fyrir börnin, því þau geta hlustað á flóknari bækur en þau geta sjálf lesið.
Fjölbreytt lesefni og hentugt námsefni þarf að standa nemendum til boða þegar skólaganga hefst og meðan á henni stendur.
Koma þarf á fót námsstjórn sem hefur heildarsýn yfir þróun einstakra fagsviða og skipuleggur nauðsynlegan stuðning.
Vel menntaðir kennarar gegna lykilhlutverki, þeir fást ekki nema námið sé áhugavert, starfið njóti virðingar, laun séu sómasamleg og stuðningur yfirvalda við skólastarf sé öflugur, ekki hvað síst á þetta við um símenntun starfsfólks og stuðning við þróunar- og umbótastarf þar sem leitað er leiða til að efla skólastarfið.
Markvisst þarf að styðja við börn sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli og sama gildir um fjölskyldur þeirra. Mikilvægt er að þau fái að viðhalda sínu móðurmáli. Grunnskólanemendur af erlendum uppruna eru nú yfir 4000, þ.e. um 10%, og fer fjölgandi.
Hér þurfa allir að leggjast á árar: foreldrar, kennarar, menntamálayfirvöld, bæði ríki og sveitarfélög, útgefendur og allur almenningar. Þegar það tekst aukast líkur á að þau börn sem nú eru í frumbernsku standi sig vel á písa-prófum sem þau þurfa að glíma við.
Höfundur er kennari á eftirlaunum.