Sumarið 1716 kom Pétur mikli Rússakeisari til Kaupmannahafnar. Keisarinn, sem kom sjóleiðina, var ekki einn á ferð því honum fylgdu um það bil 30 þúsund hermenn. Líklega hafa aldrei fleiri Rússar verið samankomnir í borginni og þeir voru ekki í neinum ,„skreppitúr“ því þeir stóðu við í næstum þrjá mánuði. En í fylgdarliði keisarans voru einnig óboðnir gestir.
Erindi keisarans var ekki fyrst og fremst að skoða sig um og hitta mann og annan. Keisarinn og Friðrik IV Danakonungur höfðu samið um að ráðast í sameiningu gegn Svíum, „þagga niður í Karli XII Svíakóngi“ eins og Pétur mikli hafði komist að orði. Keisarinn gaf lítið fyrir hina fáguðu siði dönsku hirðarinnar, í klæðaburði barst hann lítt á en kunni vel að meta mat og drykk gestgjafanna. Sama gilti um rússneska herliðið. Þrátt fyrir allar bollaleggingar keisarans og Danakonungs, og undirbúning þess að lækka rostann í Svíum varð ekkert úr þeim fyrirætlunum og Pétur mikli sigldi heimleiðis seint i október 1716.
Eins og áður sagði voru í fylgdarliði keisarans óboðnir gestir og þeir urðu eftir þegar Rússar sneru heim. Í dag lesa Danir um keisaraheimsóknina í sagnfræðiritum en um afkomendur hinna óboðnu gesta þarf ekki að lesa í neinum bókum, þeir eru sprelllifandi og fleiri en nokkru sinni fyrr. Rottur.
Komu frá Asíu
Laumufarþegarnir sem komu með Rússakeisara til Danmerkur 1716 voru hinar svonefndu brúnrottur. Þær höfðu lengi þrifist í Austur-Asíu en færðust smám saman norður á bóginn. Í Evrópu var fyrir svartrottan, líka kölluð húsrotta. Svartrottan kom upphaflega frá Suðaustur- Asíu og talið er að með henni hafi borist til Evrópu ein mannskæðasta plága sem herjað hefur á mannkynið, Svartidauði. Talið er að allt að 75 milljónir manna hafi látist af völdum plágunnar, á árunum 1348- 1352, þar af 25- 30 milljónir í Evrópu, meira en þriðjungur íbúa álfunnar á þeim tíma. Plágan barst ekki til Íslands en um það bil fimmtíu árum síðar gaus hún upp aftur og þá varð Ísland hart úti, talið er að Svartidauði hafi lagt þriðjung þjóðarinnar, jafnvel fleiri, að velli.
Brúnrottan hertók Danmörku
Óhætt er að segja að brúnrottan hafi breiðst út í Danmörku, eins og eldur í sinu. Á örfáum árum var hún komin um allt land og útrýmdi að mestu leyti svartrottunni, sem er ekki jafn hörð af sér og getur til dæmis ekki lifað í vatni. Í skýrslu frá árinu 1778 var frá því greint að á Lálandi hafi brúnrottur etið allt að fjórðungi kornsins. Það segir sitt.
Brúnrotturnar fjölga sér ört og geta eignast á annað hundrað afkvæma, og jafnvel fleiri, á einu ári. Ein „rottuhjón“ geta þannig hæglega eignast þúsund afkomendur á einu ári.
Félag til að berjast gegn rottunum
Árið 1898 var stofnað í Kaupmannahöfn félag í þeim tilgangi að berjast gegn rottufaraldrinum, eins og það var orðað í frásögnum blaðanna “Foreningen til lovordnet udryddelse af rotter“. Starfsemin skyldi ekki bundin við Kaupmannahöfn eina enda herjaði rottuplágan í öllum landshlutum. Lög og vinnureglur þessa félags urðu fyrirmynd sambærilegra félaga í mörgum löndum. Samkvæmt hugmyndum félagsins yrði barist gegn rottunum um allt land „í samstilltu átaki“ eins og það hét, ríki og sveitarfélög skyldu styrkja baráttuna meðal annars með því að greiða sérstakt gjald fyrir hvern rottuhala sem skilað væri inni. Á fyrsta starfsárinu drápu félagsmenn rúmlega eitt hundrað þúsund rottur í Kaupmannahöfn einni. Öllum var orðið ljóst að rottan var vágestur sem ekki yrði auðveldlega sigraður.
Löggjöf
Í marsmánuði 1907 voru samþykkt í Danmörku lög um baráttu gegn rottum. Þar var kveðið á um skipulagða baráttu gegn þessu meindýri, greitt skyldi gjald fyrir hvern afhöggvinn hala. Þremur árum eftir gildistöku laganna hafði verið greitt fyrir 4 milljónir hala, og virtist ekki sjá högg á vatni, sagði eitt blaðanna. Árið 1924 var innleidd svonefnd rottueiturslöggjöf, í henni fólst að við allar opinberar byggingar og verslanir og fyrirtæki, hverju nafni sem nefndist, skyldi með skipulögðum hætti lagt út rottueitur. Þessi lagasetning hefur margoft verið endurnýjuð, síðast í byrjun þessa árs. Skemmst er frá því að segja að allar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu og fjölgun rottanna hafa lítinn sem engan árangur borið. Fyrir hverja rottu sem drepst koma tvær, eða fleiri, nýjar.
2.júlí árið 2011 varð skýfall í Kaupmannahöfn, mörg þúsund kjallarar í miðborginni og víðar fóru á flot, aldrei í sögunni höfðu borgarbúar orðið vitni að öðru eins. Ekkert manntjón varð í þessu úrhelli en sama verður ekki sagt um rotturnar. Talið er að milljón rottur hafi drepist, lang flestar í yfirfullum holræsarörum, sem að jafnaði eru þeirra eftirlætis verustaðir. Þetta skarð sem þarna var höggvið í stofninn virtist litlu breyta, á undraskömmum tíma voru rotturnar, töldu sérfróðir, orðnar jafnmargar og áður og síðan hefur þeim fjölgað mikið, alls staðar í landinu. Enginn veit með vissu hve stór rottustofninn í Danmörku er, en talið að samtals séu rotturnar í landinu vel á fjórðu milljón, hugsanlega talsvert fleiri. Flestar í höfuðborginni.
Hvernig stendur á öllum þessum fjölda?
Svarið við þessari spurningu er ekki einfalt. Áður var nefnt að rotturnar tímgast hratt. Lífsskilyrði þeirra hafa batnað mikið á undanförnum árum, skólplagna- og fráveitukerfi borgarinnar er að stórum hluta gamalt og gisið, það auðveldar rottunum lífið. Síðast en ekki síst eru rotturnar klók kvikindi sem sjá við flestum þeim brögðum sem reynt er að beita gegn þeim.
Rotturnar valda miklu tjóni, þær naga auðveldlega í sundur plaströr og sömuleiðis steinsteypu sem farin er að morkna. Danskir bændur standa margir hverjir ráðþrota, kettir og hundar mega sín lítils í baráttunni, og það virðist sama hvað gert er, rotturnar sjá við öllu.
Smitberar
Engin leið er að meta til fjár tjónið sem rotturnar valda en það er mikið og fer vaxandi með hverju ári. Alvarlegra er þó að rotturnar eru smitberar, á síðasta ári veiktust að minnsta kosti tuttugu einstaklingar í Danmörku, af rottusýki (leptospirose). Ef hland- eða skítur úr rottu kemst í t.d skeinu á fæti, getur það leitt til rottusýki. Byrjunareinkennin líkjast inflúensu, hægt er að ráða niðurlögum sjúkdómsins á byrjunarstigi með sýklalyfjum. Talið er að á síðasta ári hafi um það bil hálf milljón manna veikst af rottusýki, lang flestir í Asíu.
Verður ekki útrýmt
Í greinargerð með áðurnefndum dönskum lögum um baráttuna gegn rottunum var sérstaklega tekið fram að útilokað væri að útrýma þeim í Danmörku. Baráttan skuli miðast við að halda þessum ófögnuði í skefjum og reyna með öllum ráðum að sjá til þess að rottunum fjölgi ekki enn frekar.
Í lokin má geta þess að rotturnar eru plága í mörgum stórborgum, meðal annars í París, New York og London. Af og til berast líka rottufréttir frá Kína, fyrir nokkrum árum eyðilögðu rottur stóran kornakur í héraðinu Hunan. Og það var enginn smá flokkur, talið að fjöldinn hafi verið tveir milljarðar.