Þessa dagana er mikið rætt um minnkandi lestrarfærni og kunnáttu íslenskra nemenda í framhaldi af PISA-mælingum sem gefa tilefni til töluverðra áhyggja. Hafa ýmsar greinar birst af því tilefni sem mér hafa þótt nokkuð áhugaverðar. Ekki síst að því leyti að flestar virðast einkennast af ákveðnum málflutningi sem ég tel vera hluti af vandamálinu sem hann beinist gegn.
Ólafur Helgi Jóhannsson skrifar t.d. grein í Kjarnann 24. febrúar sem ber titilinn „Lestur, læsi og lesskilningur – grundvallaratriði náms“ og er að mörgu leyti einkennandi fyrir þennan málflutning. Nú er margt gott og virðingarvert í grein Ólafs, ekki síst áhersla hans á mikilvægi þess að börn með annað móðurmál en íslensku fái nauðsynlegan stuðning. Mér finnst þó umræða hans um lesskilning vera nokkuð einkennileg. Tökum dæmi:
„Oft virðist blandað saman hugtökunum lestur og lesskilningur sem merkir að lesandinn skilur merkingu þess sem lesið er. Nemandinn getur lesið en lesturinn kemur ekki að gagni því hann skilur ekki hugtökin sem notuð eru. Þetta hafa allir reynt á eigin skinni: verg þjóðarframleiðsla, stýrivextir, framleiðni, vaxtabætur. Vitum við hvað þessi hugtök merkja? Ef ekki þá getum við slegið þeim upp í orðabók (gúgglað þau). Ríkulegur orðaforði er þannig lykill að skilningi, hvort sem er á mæltu máli eða rituðu.“
Nú er þetta alveg gott og blessað í sjálfu sér. Vissulega er ríkulegur orðaforði mikilvægur hluti af lesskilningi. En ég velti fyrir mér hver ástæðan er fyrir því að hann taki einmitt þessi dæmi. Ólafur notar einnig algengt orðalag sem kemur oftar en ekki upp þegar þessi mál eru rædd – jafnvel hjá æðstu yfirmönnum málaflokksins eins og fyrrverandi menntamálaráðherra sem notaði það ítrekað á áberandi hátt: að lestur sé eitthvað sem er „til gagns“ og áhyggjuefnið er það að mörg íslensk ungmenni geti illa „lesið sér til gagns.“
Þetta orðalag hefur ávallt vakið undrun hjá mér. Ekki vegna þess að það sé ekki mikilvægt að geta lesið sér til gagns, miklu fremur vegna þess að helstu verjendur mikilvægis lestrar virðast halda að það sé þar sem mikilvægið liggur fyrst og fremst. Af þessum málflutningi að dæma mætti halda að lestur væri eitthvað sem við þurfum á að halda til að geta skilið hagfræðiskýrslur og annað af þeim toga.
Ég á bágt með að skilja hvernig slíkt orðalag og málflutningur sé til þess fallinn að vekja áhuga á mikilvægi lestrar og taka á alvarlega vandanum sem minnkandi lestrarskilningur og færni vissulega er. Persónulega, þegar ég hugsa um hvað lestur þýðir fyrir mér, og hvar mikilvægi hans liggur, hugsa ég aldrei um þau atriði sem langoftast eru rædd í þessu samhengi – en það eru iðulega tæknileg atriði eins og orðaforði, lestrarhraði, og lausn einhverra þrauta af ýmsu tagi eins og Ólafur tekur dæmi um.
Ég get ekki skilið slíkan málflutning öðruvísi en sem einstaklega lýsandi dæmi um hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og hvernig hún gegnsýrir ennþá samfélagið. Minnkandi lestur og bókmenntaáhugi er auðvitað margþætt og flókið vandamál, en eitt af stærstu atriðunum hlýtur að vera fjandsamlega viðhorfið til bókmennta og menningar sem er eitt af helstu einkennum hennar. Því tel ég það ekki líklegt til árangurs að ætla að gagnrýna og takast á við þessi áhrif nýfrjálshyggjunnar með lógík og áherslum sem runnin eru undan rifjum hennar: að líta á lestur sem eintómt tæknilegt og praktískt fyrirbæri, eitthvað sem er mikilvægt að svo miklu leyti sem það leggur af mörkum til efnahagsins frekar en eitthvað sem miðar að skilningi á sjálfum sér og öðrum – sjálfsrækt með öðrum orðum. Eitthvað sem er fyrst og fremst lykilatriði í mótun heilsteyptra borgara og þar með heilbrigðs samfélags.
Persónulega, og ég þori að fullyrða að það gildi um langflesta ástríðufulla lesendur einnig, er lestur ekki eitthvað sem gert er „til gagns“ heldur einungis og alfarið ánægjunnar vegna. Einhverjum kann mögulega að þykja þetta ómerkilegur orðhengilsháttur, að ég sé að lesa of mikið inní þetta orðalag sem er meint á öllu saklausari hátt. En þetta er mjög mikilvægt að halda til haga að mínu mati, á tímum þar sem á okkur dynja háværar og stanslausar félagslegar kröfur um að vera afkastamikil (e. productive) og eigum helst alltaf að vera að gera eitthvað sem þjónar einhverjum æðri (efnahagslegum) tilgangi. Lestur bókmennta er sjaldgæf uppreisn gegn þessari kröfu, í raun róttæk þar sem hann er prívat og persónuleg athöfn sem miðar alfarið að sjálfinu og dýpkar það. Eins mótsagnakennt og það hljómar kannski er lestur þó á sama tíma ræktun á skilningi á og virðingu fyrir sammannlegum gildum – bráðnauðsynleg ræktun sem fæst hvergi annars staðar. Lesandinn er kannski tímabundið einangraður félagslega, en sjaldan eins lifandi eða í eins miklum tengslum við mannskepnuna.
Þetta er þó eitthvað sem sífellt fleiri neita í dag. Ekki aðeins þeir sem halda því fram að áhorf á sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sé jafngildi lesturs meistaraverka heimsbókmenntanna, rithöfundar og samfélagsgagnrýnendur eins og t.d. Matt Britton í nýlegri bók YouthNation halda því fram fullum fetum að menntun ætti að hætta alfarið að snúast um bókmenntalestur – nítjándu aldar bókmenntir (og allt eldri en þær einnig geri ég ráð fyrir) séu eitthvað sem ungt fólk hefur ekkert að gera með lengur. Menntun í dag ætti alfarið að snúast um kennslu í nýjustu tækni, og því meiri sérhæfing því betri.
Hér veit maður hreinlega ekki hvað maður á að segja, hvernig hægt er að taka nógu sterkt til orða til að svara slíku. Það má kannski helst spyrja sig hvers konar samfélög það eru sem líta í síauknum mæli á sameiginlega menningarlegu arfleið sína og heimsins, einhver mestu fagurfræðileg afrek mannkynssögunnar sem bjóða uppá einstaka innsýn, þekkingu og visku, sem tilgangslausa tímasóun sem þau hafa ekkert að gera með lengur. Í mestu velferðarsamfélögum sögunnar er beinlínis verið að kalla eftir andlegri fátækt á martraðarkenndum skala – en slík „menntun“ myndi óhjákvæmilega leiða til samfélaga hvers borgarar skilja sjálfa sig og hverja aðra svo lítið að reiði og sundrung dagsins í dag, eins og sést hvað frægast á samfélagsmiðlum og á öðrum afkimum netsins, myndi fölna í samanburði. Svo ekki sé minnst á aðrar afleiðingar, ekkert síður alvarlegar.
Eins og Ólafur hef ég heldur engar töfralausnir. Og ég hef vissulega lítinn skilning á þeim erfiðu vandamálum sem kennarar standa frammi fyrir í dag, annað en þann að þau eru töluverð og flókin. Kennarar vinna vandasamt og virðingarvert verk, það efast ég ekki um. En lykilatriði að mínu mati ætti að vera mun meiri áhersla á mikilvægi bókmenntaáhuga og lestrar ásamt kennslu sem miðar að því að rækta skilning á, og næmni fyrir, þeim atriðum sem ég nefndi ofar. Að líta með öðrum orðum minna á lesturinn sjálfan og tæknilegar hliðar hans, og meira hverju hann ætti að beinast að. Þá á ég heldur ekki einungis við íslenskar bókmenntir, þar sem áherslan virðist alfarið liggja þegar bókmenntalestur og áhugi er þó ræddur, oft í sambandi við áhyggjur af hnignun íslenskunnar á tímum snjallsíma, Netflix og annarrar nútímatækni. Vissulega er lestur þeirra mjög mikilvægur, en lestur og áhugi á heimsbókmenntunum – því besta sem hefur verið hugsað og skrifað frá öllum heimshornum og á öllum tímum – er ekkert síður mikilvægt til að rækta sanna ástríðu fyrir lestri. Grískir harmleikir, rússneskar skáldsögur og ljóð ensku rómantíkurinnar t.d. ættu að mínu mati raunar að hafa meira vægi en Halldór Laxness, Jón Kalmann Stefánsson og Kristín Eiríksdóttir. En um það má svo sem deila.
Það er auðvitað ósanngjarnt að gera of miklar kröfur til kennara. Vandamálið er mun víðtækara en svo að það er fyrst og fremst þeirra að leysa. Að ætlast til að þeir rækti með nemendum ást á bókmenntum og lestri þegar megnið af restinni af samfélaginu hefur sömu hluti í eins litlum metum og raunin er er kannski til of mikils ætlast. Þó tel ég þá geta spilað algjört lykilhlutverk, ef þeir sjálfir eru ástríðufullir lesendur heimsbókmennta – en það er fátt sem er meira smitandi en ástríða. Raunar myndi ég segja að hún sé númer eitt, tvö og þrjú í þessu samhengi. Að smita einhvern af ástríðu fyrir bókmenntum er í rauninni það eina sem þarf. Sá lesandi mun í framhaldinu afla sér allrar þeirrar lestrarkunnáttu og færni sem hann þarf á að halda á eigin spýtur.
Höfundur er með meistaragráðu í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla og skrifar um bókmenntir og menningu fyrir menningarvefritið Starafugl.