Lífeyrissjóðir landsins eru stórir og öflugir og um þá spinnast oft umræður. Því miður seilast menn oft ansi langt til að setja út á sjóðina og mála þá í dökkum litum. Tökum tvö nýleg dæmi.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins birti 24. febrúar grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Flétta vogunarsjóða um Arion banka“. Í greininni veltir Birgir því meðal annars fyrir sér hvers vegna vogunarsjóðir hafi áhuga á að kaupa hlut ríkisins í bankanum. „Fyrir því eru tvær meginástæður“ segir Birgir. „Í fyrsta lagi er hluturinn ódýr miðað við hin miklu verðmæti í dótturfélögum bankans, eins og Valitor og Stefni. … Í öðru lagi er nauðsynlegt fyrir vogunarsjóðina að losna við ríkið úr hluthafahópnum, svo hægt sé að búta bankann niður og selja verðmæt dótturfélög hans. Þegar því er lokið verða lífeyrissjóðir landsmanna látnir kaupa restina og vogunarsjóðirnir verða með fullar hendur fjár“.
Flétta vogunarsjóðanna
Þarna tekst Birgi að gefa tvennt til kynna. Annars vegar að vogunarsjóðir hafi á einhvern hátt valdboð yfir því í hvaða fyrirtækjum lífeyrissjóðir landsins fjárfesta. Sem er auðvitað fráleitt. En sínu verri er sú ályktun sem draga má af orðum hans að hjá lífeyrissjóðunum starfi tómir kjánar sem muni stökkva til þegar vogunarsjóðir hafa mergsogið Arion banka og dótturfélög, og kaupi þá fyrirtækin á uppsprengdu verði með tilheyrandi tapi fyrir lífeyrissjóðina.
Af skrifum Birgis má ráða að enginn hafi séð í gegnum þessa fléttu nema hann og flokksfélagar hans í Miðflokknum. Mig langar að fullvissa Birgi og félaga að ef einhver flétta er á teikniborði vogunarsjóðanna sem hann nær að sjá í gegnum, þá eru örugglega hópur fólk starfandi hjá lífeyrissjóðunum sem hefur vitsmuni til að gera það líka.
Ofurlaun bankamanna í boði lífeyrissjóða
Á dögunum var fjallað um laun lykilstjórnenda Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka sem eru ekki bara há heldur hafa þau einnig hækkað talsvert milli ára. Í einni frétt um málið var rætt við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, sem segir grátlegt að mörg þessara fyrirtækja á fjármálamarkaði séu í eigu lífeyrissjóða fólksins eða ríkisins. Hann bætir við; „Það er óþolandi að fylgjast með þessari taumlausu græðgi þegar hinum almenna launamanni er gert að sýna hófsemi. Það virðist alltaf vera svigrúm til að moka undir toppana“.
Ragnar segir ekki beinum orðum að launahækkanir bankastarfsmannanna séu í boði lífeyrissjóðanna, en það þarf talsvert ímyndunarafl til að komast hjá því að draga þá ályktun. Staðreyndin er hins vegar sú að enginn lífeyrissjóður á í viðskiptabönkunum þremur. Ekki krónu. Einhverjir lífeyrissjóðir eiga í fjármálafyrirtækjum, t.d. Kviku banka, en þau fyrirtæki voru alls ekki til umræðu í umræddri frétt. Hvernig niðurstaðan verður að ofurlaun – sem ég tek undir með Ragnari Þór – að eru úr öllu korti, séu í boði lífeyrissjóðanna er óskiljanleg.
Umræða um lífeyriskerfið er þörf enda er það í stöðugri þróun. Kerfið er ekki fullkomið og gagnrýni getur skilað sér í breytingum sem stuðla að bótum. En sú gagnrýni þarf að vera rétt og málefnaleg.
Höfundur er forstöðumaður upplýsingamála hjá Gildi lífeyrissjóði.