Það er deginum ljósara að í ormagryfju auðjöfranna er verið að undirbúa næstu ránsherferð á hendur almenningi á Íslandi. Tækifærið til að tappa vel af lífeyrissjóðum, bönkum og eignum almennings nálgast óðum. Allt klárt í næstu bylgju gjaldþrota, atvinnumissis, eymdar og örvilnunar. Með gjöf ríkisins á Arion banka til einhverra aðila, sem enginn stjórnmálamaður vill vita hvort heitir Ólafur eða Björgólfur, pétur eða páll, er verið að þungvopna ræningjana. Veislan er fyrir suma, aðrir borga.
Má ekki segja frá?
Fyrirtæki í byggingariðnaði sem eru flest rekin með svörtu vinnuafli á launum undir lágmarkstöxtum, raka til sín lánsfé úr bönkunum, skuldir hrannast upp, eigendur og vildarvinir kaupa ódýran gjaldeyri sem komið er úr landi sem skjótast, og svo telja auðjöfrarnir niður að núllinu. Núllinu þegar gengið hrynur, bankarnir tómir, fyrirtækin skilin eftir allslaus og yfirskuldsett. Einhvern veginn kannast maður við aðferðirnar. Látið er líta út fyrir að allt sé í blóma. Þegar í raun er enginn jarðvegur eftir og frostkuldinn sleikir nakta jörð.
Hvar er þjóðarauðurinn?
Framlegðin í íslensku atvinnulífi er ekki mikil. Peningar hlaðast aftur á móti upp í bönkum og fjármálafyrirtækjum til notkunar fyrir þá sem hafa skammtað sér forréttindi á kostnað almennings. Allur þessi bankaauður er í raun geldfé. Brask banka og fjármálafyrirtækja með eignir , lönd og lífeyrissjóði er án alls eftirlits og aðeins örfáir útvaldir hafa þar aðkomu. Gömlu útgerðarfurstarnir eru bara smáseiði miðað við hina nýju stétt auðjöfra sem síðasta hrun ól af sér.
Börnin okkar...
Viljum við að börnin okkar, barnabörnin okkar, vinir og vandamenn þurfi að fara í gegnum þetta helvíti, endurtekningu á 2008? Er enginn, alls enginn, nógu hugaður til að fletta ofan af glæpalýðnum, halda þeim frá ránsfengnum sem þeir renna hýru auga til, stöðva þessa geðveiki. Erum við orðin svo spillt og sjálfselsk, að við ætlum aðeins að horfa á, bjarga eigin skinni og liggja hundflatir. Hvar eruð þið hvunndagshetjurnar?
Taktu peningana þína...
Ég hvet alla löghlýðna borgara til að skipta alls ekki við Arion banka, panta sem mest hjá Ali Express og versla hjá Costco eða kaupmanninum á horninu. Skítugar krumlur auðjöfranna eru alls staðar annars staðar í verslun og viðskiptum, hvert sem litið er. Þeir sem eru nú þegar ofurseldir leiguokri fasteignafélaganna ættu að kanna hvað önnur lönd gera í húsnæðismálum. Í Noregi er húsnæðislán á 1.9% vöxtum. Gott, duglegt og heiðarlegt fólk fær vinnu í öðrum löndum. Ekki fljúga út með hvaða flugfélagi sem er. Ræningjarnir eru víða.