Þorkell Sigurlaugsson og Hans Guttormur Þormar skrifuðu grein í Kjarnann í fyrradag þar sem þeir fara yfir sögu og stöðu nýbygginga Landspítalans við Hringbraut. Þeir kalla greinina „Glæsileg uppbygging Landspítala við Hringbraut“.
Tilefnið virðist vera þingsályktunartillaga um að gerð verði ný, óháð og fagleg staðarvalsgreining vegna þjóðarsjúkrahússins.
Þeir vilja ekki að slík greining fari fram og finna henni allt til foráttu. Þeir taka undir fullyrðingu samtakanna Spítalinn Okkar og segja að engin rök séu fyrir þeirri staðhæfingu að ný staðarvalsgreining þurfi að fara fram.
Sannleikurinn er sá að rökin eru mörg og yfirþyrmandi.
Það komu upp vel rökstuddar gagnrýnisraddir á staðsetninguna við Hringbraut þegar Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 var kynnt, en með því breyttust flestar forsendur staðarvalsins sem þeir félagar vitna til.
Í aðalskipulaginu voru gerðar miklar breytingar á skipulagi borgarinnar sem varða spítalann með beinum hætti. Þessar breytingar gera það að verkum að nauðsynlegt er að skoða málið frá grunni og í ljósi þess raunveruleika sem nú blasir við.
Það liggur fyrir að þau álit sem hafa verið gefin út um staðsetningu Nýs Landspítala eru að verða tveggja áratuga gömul. Álitin voru á ýmsa vegu. Eitt komst að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja upp þjóðarsjúkrahús til langrar og ófyrirséðar framtíðar við Hringbraut. Önnur töldu rétt að horfa til uppbyggingar í Fossvogi. En mörg töldu að best væri að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni.
Á þeim mörgu árum sem liðin eru hefur allt skipulagsumhverfið breyst þannig að þær stoðir sem ákvörðunin um uppbyggingu við Hringbraut stóðu á, eru brostnar. Nú er umhverfið allt annað og kallar á að ákvörðunin verði endurskoðuð í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið í skipulaginu og ekki síður í viðhorfi almennings og heilbrigðisstarfsmanna eins og dæmin sanna.
Það er mjög mikilvægt að það ríki almenn sannfæring fyrir því hvar sjúkrahúsið verður byggt. Sú sannfæring er ekki fyrir hendi í þjóðfélaginu eða meðal starfsmanna heilbrigðisstétta.
Varðandi skipulagsmálin er einkum bent á að aðgengi að spítalanum við Hringbraut er ekkert í líkingu við það sem var þegar staðurinn var ákveðinn árið 2002.
Síðan þá hefur Reykjavíkurflugvöllur verið lagður af í skipulaginu. Hætt hefur verið við mikilvægar umferðatengingar eins og Holtsgöng undir Skólavörðuholt. Sama á við um Öskjuhlíðargöng og göng undir Kópavog. Hætt hefur verið við Miklubraut í stokk. Sama á við um ein átta mislæg gatnamót vestan Elliðaáa, þar á meðal þriggja hæða mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.
Áherslur aðalskipulagsins um þéttingu byggðar eru aðrar en í gamla aðalskipulaginu AR2001-2024. Nú er lögð áhersla á fjölgun íbúða í miðborginni þar sem mest er þörfin fyrir fleiri íbúðir og besta þjónustan og flest atvinnutækifærin.
Það væri í samræmi við AR2010-2030 að landið sunnan gömlu Hringbrautar sé frekar notað undir íbúðabyggð. En þar er auðveldlega hægt að koma snyrtilega fyrir 500-1000 íbúðum.
Í aðalskipulaginu sem var í gildi fyrir 16 árum þegar staðurinn var ákveðinn voru hvorki samgönguás né Borgarlína í boði. Breyttar áherslur í almenningssamgöngum AR2010-2030 hvað þetta varðar opna gríðarleg tækifæri vegna staðsetningar spítalans. Tækifæri sem ekki voru í boði áður.
Komið hefur fram á síðustu vikum að reiknað er með að 6-7 af hverjum 10 starfsmönnum spítalans muni ekki hafa tækifæri til þess að sækja vinnu sína á einkabifreið sinni. Þetta mun gera það að verkum að nýr Landspítali verður ekki eins vinsæll og eftirsóttur vinnustaður og hann annars gæti orðið.
Það má svo bæta því við að nýlegar áætlanir um að endurvekja hugmyndina um að setja Miklubrautina í stokk á tæplega tveggja kílómetra svæði munu hefta aðgengi að spítalanum verulega meðan á framkvæmdum stendur. Auk þess eru áform um að endurbyggja frá grunni gatnamót Snorrabrautar, Bústaðavegar, Miklubrautar og Hringbrautar. Vegna þessa munu verða til verulegar og óásættanlegar hindranir varðandi aðgengi að sjúkrahúsinu meðan á þeim framkvæmdum stendur. Þessar framkvæmdir munu hefjast, ef af verður eftir 10 ár eða meira. Líklegt er aðgengi að sjúkrahúsinu verði verulega skert í 5-10 ár meðan á framkvæmdum stendur. Bara þetta eina atriði ætti að nægja til þess að biðja um nýja staðarvalsgreiningu vegna verkefnisins þó það sé lítið í stóra samhenginu.
Ég hef heldur ekki séð neinar úttektir á niðurrifi eldri bygginga á Landspítalalóðinni og endurnýjun þeirra og hvaða ónæði það mun hafa á háskólasjúkrahús í fullum rekstri. Sama á við um sprengingar og uppsteypu hundruð þúsund rúmmetra nýbyggingum sem á að reisa fyrir framan glugga sjúkrastofa í fullri notkun í eldri byggingum spítalans. Ég þekki heldur ekki ítarlega úttekt á heilsufari gömlu bygginganna og myglunni þar.
Svo er það mikið álitamál hvort þessar miklu áætlanir um þjóðarsjúkrahúsið í Þingholtunum standist menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð og jafnvel aðalskipulag Reykjavíkur, en í þessum stefnum er lögð áhersla á „heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð“.
***
Þeir sem hafa talað fyrir uppbyggingunni við Hringbraut beita hvorki fyrir sig skipulagslegum-, fjárhagslegum- né samfélagslegum rökum. Þau segja að búið sé að taka ákvörðunina og verkefnið sé löngu hafið. Þetta er umdeilanlegt og vegur ekki þungt varðandi þessa mestu fjárfestingu ríkisins fyrr og síðar.
Þá hefur því verið ítrekað haldið fram af stjórnmálamönnum að allar staðarvalsgreiningar hafi komist að þeirri niðurstöðu að Hringbraut sé besti staðurinn. Þessa staðhæfingu hafa stjórnmálamennirnir, í góðri trú, haft eftir embættismönnum og ráðgjöfum þeirra.
Erlendir ráðgjafar hafa mælt með að byggt verði við í Fossvogi ef ekki er tækifæri til þess að byggja nýtt frá grunni (Ementor 2001). Hjúkrunar og læknaráð LSH hafa komist að sömu niðurstöðu og sagt að endurskoða þurfi ákvörðunina frá 2002 og að best væri að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni (febrúar 2004). Læknaráð áréttar þetta svo í apríl 2004 og vill að nýtt sjúkrahús verði byggt frá grunni.
Þessum skýrslum og fleirum hefur líklega verið haldið frá stjórnmálamönnum og umræðunni allri með þeirri einföldu staðhæfingu að „Hringbrautin hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum“.
Það er ástæða til þess að bæta því við að embættismannakerfið hefur allt staðið með sjálfu sér í þessu máli og forðast opinbera umræðu.
Gott dæmi sem taka má um þetta er að af sex umsögnum sem borist hafa til velferðarnefndar Alþingis vega þingsályktunartillögunnar sem nú liggur fyrir er aðeins ein frá óbreyttum borgara. Allar hinar eru frá opinberum embættunum eins og Landspítalanum, Háskóla Íslands og Landlækni sem öll eru að verja verk sitt. Allt skrifað og undirbúið á kostnað skattgreiðenda. Það er augljóst að allt þetta fólk óttast niðurstöðuna úr umbeðinni staðarvalsgreiningu. Líklega, en vonandi ekki, verður niðurstaðan að betra sé að byggja annars staðar en við Hringbraut.
Rök fyrir því að skoða málið betur hafa líka verið afvegaleidd og/eða rangfærð. Dæmi um það er sú skoðun Skipulagsstofnunar og Framkvæmdasýslunnar að það muni seinka opnun sjúkrahússins um 10-15 ár ef nýr staður er fundinn. Að baki þessarar niðurstöðu liggja engin skjöl eða úttektir. Þegar eftir því var gengið var sagt að þetta byggi á „vörðun“ verkefnisins (?).
Þó því sé ekki saman að jafna er vert að minna á að það liðu tæp fimm ár frá því að samkeppni um Háskólann í Reykjavík við Nauthólsvík var auglýst þar til nemendur gengu inn í nýja glæsilega 30.000 fm bygginguna. Þessi tæpu fimm ár urðu að 18-23 árum á skrifborði embættismanna hjá Framkvæmdasýslunni og Skipulagsstofnun þegar spítalinn átti í hlut.
Ein rök fyrir því að það valdi mikilli seinkun að flytja spítalann austar í borgina er að það þurfi að fara í gegnum ferli hjá Svæðaskipulagi Höfuðborgarsvæðisins. Það kann að vera rétt. En það ætti að vera auðsótt því flutningur spítalans austar í borgina er mikill kostur fyrir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þar sem það færist nær þeim og aðgengið verður betra fyrir íbúa sveitarfélaganna. Það væri þá helst Seltjarnarnesbær sem mundi gera athugasemd en það er ólíklegt, því þau mundu ekki vilja tefja málið frekar en aðrir.
Auðvitað er þetta ekki einfalt mál. En fjarri því að vera óvinnandi eins og skilja má af Hringbrautarsinnum. Svona lagað verður stundum sérlega óyfirstíganlegt, flókið og flækt í augum þeirra sem skortir heildarsýn yfir verkið. Þeir sjá ekki skóginn fyrir trjám og finnst eintómir steinar vera í götu þeirra.
En það eru til leiðir til þess að einfalda málið og stytta þennan tíma verulega sem stofnanirnar nefna. Þar kemur margt upp í hugann. Ég nefni PPP ferli (Privat Public Partnership) sem gerir það að verkum að samkeppni, útboð, hönnun og jafnvel fjármögnun er leyst með einum samningi.
Ég hef sjálfur tekið þátt í PPP útboði hér á landi og erlendis. Það stærsta var tæplega 20.000 fermetra menntaskóli með fullkominni íþróttaaðstöðu og sundlaug. Forvalið, samkeppnin, skipulagið, hönnunin og framkvæmdin öll tók aðeins 4 ár frá auglýsingu. Það hús stendur nú og er í fullum farsælum rekstri.
Þeir sem tala fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut telja að nálægð við háskólana sé lykilatriði.
Ekki skal því mótmælt að þægilegra er fyrir fræðasamfélagið að stutt sé á milli spítalans og háskólanna. En mikilvægara er að aðgengi þeirra sem þar eiga að vinna og þeirra sem það á að þjóna, sjúklingum og aðstandendum, sé auðvelt og greitt, þó fræðasamfélagið eigi um eitthvað lengri veg að fara. Gott aðgengi fræðasamfélagsins má ekki vera á kostnað aðgengi alls almennings að spítalanum.
Auk þess að vitað er að byggð eru háskólasjúkrahús á svæðum þar sem enginn er háskólinn í hefðbundnum skilningi og gengur það vandræðalaust.
Það hefur líka verið bent á að áróður fyrir staðsetningunni við Hringbraut hefur verið borinn uppi af skattfé almennings meðan samfélagslega ábyrgðarfullir einstaklingar hafa lagt allt sitt fram á eigin kostnað.
Málflutningur Hringbrautarsinna einkennist núna síðustu tvö ár eða svo öðru fremur af hræðsluáróðri sem segir að það sé beinlínis lífshættulegt að skoða málið í ljósi breyttra aðstæðna og líklegt sé að opnun sjúkrahússins tefjist um marga áratugi eða jafnvel að ekkert verði úr. Þetta eru miklar dómadagsspár sem koma fram vegna hugmyndar um að skoða málið betur áður en haldið er áfram og of seint að skipta um kúrs öllum til heilla. Menn óttast greinilega mjög niðurstöðuna.
Lokaorð
Nú virðist standa fyrir dyrum að hefja ríkisframkvæmd sem kosta mun milli 100 og 200 milljarða eða jafnvel meira með nauðsynlegum samgönguúrbótum á grundvelli 16 ára gamallar úreltrar staðarvalskýrslu sem dregin hefur verið í efa allt frá fyrsta degi. Síðan skýrslan var fyrst birt í janúar 2002 hafa flestar þær stoðir sem undir niðurstöðunni stóðu fallið hver af annarri.
Í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu sem er til umræðu í Þinginu er lagt til að faglega sé staðið að málinu og farið fram á að gerð verði fagleg og óháð staðarvalsgreining vegna uppbyggingar nýs Landspítala, þjóðarsjúkrahúss Íslendinga.
Hver getur verið mótfallinn því að faglega sé unnið?
Það getur í raun enginn gert og alls ekki samfélagslega ábyrgir alþingismenn sem eiga að gæta almannahagsmuna og almannafjár.
Það eina sem getur skorið úr öllum þessum álitamálum og sætt sjónarmiðin er fagleg og óháð staðarvalsgreining sem unnin er af aðilum sem ekki hafa komið að málinu á fyrri stigum og eru engum háðir og munu afsala sér aðkomu að málinu á síðari stigum.
Eins og staðan er nú er ekki sannfæring fyrir þeirri vegferð sem fetuð er í þessu mikilvæga máli.
Vonandi mun ný óháð staðarvalsgreining sýna okkur fram á að Hringbraut sé rétti staðurinn fyrir þjóðarsjúkrahúsið en ég óttast að svo verði ekki. Þeir Þorkell og Hans Guttormur óttast það greinilega líka og það er líklega ástæðan fyrir því að þeir ganga hart fram og frábiðja sig fagleg vinnubrögð í þessu mikla máli.
Manni virðist Hringbrautarsinnar og þeir sem unnið hafa að þessu máli síðustu 20 árin vera einhvern veginn flæktir í sinn eigni vef og vita ekki hvernig þeir komast út úr honum. Í mínum huga eru þeir að þráast við vegna þess að fórnarkostnaðurinn er svo mikill. En sá sokkni kostnaður er smámunir miðað við ávinninginn af breyttri stefnu. Ég er ekki viss en það kæmi fram í nýrri staðarvalsgreiningu.
Og þeir halda áfram að spinna Hringbrautarsinnarnir. Nú segja þeir að það þurfi að klára áætlanirnar við Hringbraut og byrja strax að velta fyrir sér hvar sjúkrahús eigi að byggja næst og hugsa þá til langrar framtíðar. Þeir segja að „mikilvægt sé að taka frá hentuga lóð fyrir framtíðarþróun heilbrigðiskerfisins til lengri tíma“ svo vitnað sé í umsögn Landspítalans um þingsályktunartillöguna sem er efni þessa pistils.
Þessar hugmyndir voru fyrst nefndar fyrir tæpu ári og eru orðnar nokkuð fyrirferðamiklar nú
Það þarf að eyða þessari óvissu og ná sátt og sannfæringu um málið. Það verður ekki gert nema með faglegri og óháðri staðarvalsgreiningu.