Ég finn mig knúna til að vekja athygli menntamálaráðherra á málefnum tengdum LÍN. Stofnunin spilar stórt hlutverk í lífinu mínu þessa dagana þar sem ég er námsmaður við Háskólann í Lundi. Eftir að hafa verið á vinnumarkaðnum á Íslandi í um 8 ár ákvað ég að halda út í framhaldsnám. Í fyrra vor lauk ég LL.M gráðu í lögfræði og í vor útskrifast ég með MSc í stjórnun.
Vonlítil sótti ég um námslán fyrir skólaárið 2016-2017 en vegna tekna á árinu 2016 stóðu mér einungis til boða u.þ.b. 12.000 ISK í námslán hvora önn. Ég dró þá umsókn mína til baka.
Síðastliðið sumar sótti ég svo um námslán fyrir skólaárið 2017-2018. Sú umsókn var samþykkt enda var ég nánast tekjulaus allt árið 2017.
Af sömu ástæðu, þ.e. tekjuleysi ársins 2017 óskaði ég eftir undanþágu frá afborgun á eldri námslánum sem voru á gjalddaga á haustmánuðum. Þeirri beiðni var hafnað þar sem ég hafði tekjur yfir tekjuviðmið sjóðsins á árinu 2016 (fyrri hluta þess árs sem ég hélt út í nám) og hafði ekki átt í greiðsluerfiðleikum sl. fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Til að eiga í greiðsluerfiðleikum samkvæmt reglum sjóðsins þarf maður að vera með lán í frystingu hjá viðskiptabanka eða vera með greiðsluerfiðleikamat frá Umboðsmanni skuldara.
Þar sem ég uppfyllti ekki þessi skilyrði fóru 15-20% af framfærslulánunum haustannar í að greiða niður eldri námslán. Þegar ég lýsti yfir undrun minni á þessari niðurstöðu í tölvupósti til LÍN og spurði hvort þetta væri virkilega rétt, að ég ætti að nota námslánin sem ég fengi í að greiða niður eldri námslán, þá fékk ég ekkert nema staðlað svar um hina litlu 5-7 daga sem stofnunin gefur sér í svartíma. Þannig er ekki nóg með að framfærslulán LÍN séu þau lægstu á Norðurlöndum, sbr. grein formanns SÍNE sem birtist í Kjarnanum 19. febrúar sl. heldur ber manni að nýta fimmtung framfærslunnar í að greiða upp eldri námslán.
Segir það sig ekki sjálft að námsmaður er ekki í aðstöðu til að borga af námslánum á sama tíma og hann er að þiggja námslán? Á virkilega að vera svona erfitt að vilja sækja sér framhaldsmenntun? Í 1. gr. laga um lánasjóð íslenskra námsmanna segir að hlutverk sjóðsins sé að veita jafnan rétt til náms án tillits til efnahags. Að miða við tekjur sem námsmaður hafði síðast 14 mánuðum fyrir gjalddaga gefur ekki rétti mynd af efnahagsstöðu námsmanns.
Þá get ég ekki sagt að viðmót og afgreiðsla mála hjá stofnuninni gefi til kynna að um þjónustustofnun, sem sett var á laggirnar til að þjónusta námsmenn sé að ræða. Þvert á móti þá er upplifunin sú að verið sé að gera manni greiða en ekki veita lán. Þetta sést einna best á því hversu erfitt er að ná einhverju mannlegu sambandi við stofnunina. Svörunartími tölvupósta er eins og áður segir uppgefin 5-7 virkir dagar. Vottorð er ekki hægt að senda inn rafrænt inn á mínu svæði á heimasíðunni. Ég sendi t.a.m. inn staðfestingu á námsárangri með tölvupósti þann 2. febrúar sl. til að fá útgreidd námslán fyrir haustönn 2017. Þann 12. febrúar sl. fékk ég loks meldingu frá starfsmanni um að vottorð um námsárangur hafi borist og úthlutun færi sennilega fram daginn eftir. Í millitíðinni fékk ég annan sjálfvirkan tölvupóst póst þar sem gefið var til kynna, að vegna búsetu erlendis þá þurfi ég að sýna fram á að ég eigi rétt á lánum frá sjóðnum, þrátt fyrir að umsókn mín hafi verið samþykkt í lok sumars.
Á tímabili virtist því staðan vera sú að á skólaárinu 2016-2017 fékk ég ekki námslán frá sjóðnum af því að ég var með of háar tekjur á árinu 2016 og að núna ætti ég ekki rétt á því þar sem ég var ekki með tekjur né búsett á Íslandi á sl. 12 mánuðum.
Ég og maðurinn minn, sem erum bæði í námi þetta árið og með tvö börn á okkar framfæri þurfum nú að reiða okkur á þessa stofnun. Þrátt fyrir að ég hafi á endanum fengið útgreidd námslán haustannar þá var viðmót og þjónusta stofnunarinnar þannig að mér fannst ég þurfa að berjast fyrir að fá að taka námslán og stöðugt að sanna að ég eigi rétt á því.
Þessi málalok um að námsmönnum beri að greiða af lánum meðan þeir þiggja lán er óásættanlegt og til þess fallið að draga úr kjarki og dug sem þarf til að rífa sig upp með rótum til að sækja sér frekari menntun.
Að mínu áliti þarf að endurskoða hvernig staðið er að rekstri og uppbyggingu þessarar stofnunar því núverandi ástand er til skammar. Námsmenn eru viðskiptamenn LÍN og eru að fá lán sem þeir svo nota u.þ.b. 1/12 af laununum sínum til að greiða af árlega að námi loknu.
LÍN er stofnun sem var sett á fót fyrir námsmenn. Námsmenn eru því grundvöllurinn fyrir tilveru þessarar stofnunnar og viðskiptamenn hennar og sem slíkir ber að þjónusta þá með sómasamlegum hætti.
Virðingarfyllst,
Helga María Pálsdóttir