Greinin er byggð á skrifum úr Jótlandspóstinum (október 2017) en þau fjalla um rannsóknir sem teknar hafa verið saman um ofbeldi mæðra í dönsku samfélagi. Mér dettur ekki í hug að málum sé öðru vísi háttað hér á landi en almenningur snýr sér undan þegar þessi málefni eru rædd rétt eins og í Danaveldi. Menn virðast ekki trúa að mæður beiti börn sín ofbeldi. Víðs vegar má finna rannsóknir þess efnis.
Grein Jótlandspóstsins hljómar á þessa leið.
Mamma sló mig.
Slíkt segir barn oft. Þegar líkamlegt ofbeldi á sér stað, það sem er kallað hversdagsofbeldi, rífa í, tukta til, klípa og hrista þá lyfta mæður oftar en feður upp ofbeldishöndinni.
Þetta sýna rannsóknir sem samtökin Red barnet- í Danmörku hafa tekið saman og Jótlandspósturinn skrifar um.
Þegar barn segir frá að það hafi verið beitt ofbeldi af hendi móður er hætta á að ekki sé hlustað á barnið, því fæstir tengja mæður við ofbeldi segja samtökin Red Barnet.
Því miður er hættan fyrir hendi að enginn hlusti á börnin, því öllu jöfnu finnst fólki erfitt að tengja mæður við ofbeldi segir sálfræðingurinn Kuno Sørensen hjá Red Barnet.
En þetta er staðreynd, þetta á sér stað, og aðeins í grófustu tilfellunum þar sem konur og börn þurfa að fara í athvarf eru það oftar karlmennirnir sem eru gerendur.
Hefðin þrífst
Til að varpa ljósi á ofbeldi kvenna í garð barna hefur Red Barnet tekið saman nokkrar rannsóknir frá t.d. Barnaráði og tilraunasetri SFI í Danmörku og tekið viðtöl við fagfólk af stofnunum og samtökum sem vinna með ofbeldi gegn börnum og ungmennum.
Kuno Sørensen segir að börn séu í meiri hættu að skaddast enn frekar og upplifa sig tabú séu þau ekki tekin alvarlega þegar þau segja frá um að mamma hafi slegið sig.
Þegar rætt er um hversdagsofbeldi sýna tölur frá Barnaráði að 21% nemenda í 7. bekk upplifðu ofbeldi af hálfu móður. Um 4000 börn tóku þátt í rannsókninni. 18% barna upplifðu ofbeldi af hálfu föður. Þegar um gróft ofbeldi var að ræða eins og að sparka og slá höfðu mæður betur, og um það er ekki deilt.
Hótunin um að ,,þú getur bara beðið þar til pabbi kemur heim“ dugar ekki lengur. Svona var það á uppvaxtarárum mínum en því miður hafa konur náð jafnrétti þegar ofbeldi er annars vegar á börnum. Mjög slæmt segir Per Larsen formaður Barnaráðsins, því hættan er að við fóðrum neikvæðan ofbeldisspíral þar sem þolendur ofbeldis viðhalda mynstrinu.
Félagsmálaráðherra Dana viðurkennir að hefðin um að það sé karlmaðurinn ekki konan sem beiti ofbeldi þrífist enn í samfélaginu og því er börnum ekki trúað þegar þau segja móður sína hafa beitt sig ofbeldi.
Hér lýkur skrifum Jótlandspóstsins.
Það bregður ábyggilega mörgum í brún þegar rannsóknir um ofbeldi á hendur barna eru skoðaðar. Það má lesa svipaðar niðurstöður frá öðrum Norðurlöndum þar sem mæður eru oftar gerendur en feður. Vissulega er það áhyggjuefni að börn skuli yfirhöfuð þurfa að sitja undir ofbeldi en samfélagið gerir það ekki betra að hlusta ekki á börnin, því hefðin segir að mamma meiði ekki. Hér er vandi á ferð sem allir þurfa að taka á og hugsa fyrst og fremst um barn sem lendir í svona aðstæðum. Og það þarf að gerast án allra fordóma. Rannsóknir tala sínu máli í þessum fræðum eins og öðrum. Þar er marktæknin.
Væri tálmun skilgreind sem ofbeldi, sem það í reynd er, væri hlutfallið án efa miklu hærra mæðrum í vil. Það er von mín að frumvarp Brynjars Níelssonar og fleiri þingmanna verði tekið fyrir á yfirstandandi þingi og ekki síður samþykkt. Þá fyrst verður hægt að taka á þess konar ofbeldisverki gagnvart börnum af fullum þunga sem meiðir þau andlega. Þingmenn bera mikla ábyrgð þegar bjarga á börnum undan ofbeldi, andlegu sem og líkamlegu.
Greinin er byggð á grein sem birtist í Jótlandspóstinum. Hana er hægt að lesa hér.