Eftir að hafa lesið/kynnt sér menntastefnu Sjálfstæðisflokksins sem send var út um helgina hjó undirritaður eftir nokkrum atriðum, sérstaklega þeim sem/er varða vilja flokksins til aukinnar markaðsvæðingar menntakerfisins og eru falin í orðum eins og: „Fjölbreytt rekstrarform, nýsköpun og minni miðstýring í skólastarfi er mikilvægur þáttur í að auka gæði menntakerfisins“. Einnig vöktu athygli mína setningar í lokaskjali allsherjar- og menntamálanefndar flokksins, um skóla án aðgreiningar, aukið „valfrelsi“ og að það ætti að heimila skóla sem bjóða ákveðnum barnahópum sérhæfða aðstoð og þjónustu sem og þeim sem „standa höllum fæti“. Formaður flokksins nefndi einnig að það væri „umhugsunarefni að fjölbreytni í rekstrarformum í skólamálum væri mun meira á öðrum Norðurlöndum heldur en á Íslandi.“
Þetta er ekki fyrsta skiptið sem að forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins viðra hugmyndir um aukna markaðsvæðingu innan skólakerfisins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, mælti fyrir markaðsvæðingu sem allsherjarmeðali við krankleikum menntakerfisins í ágúst í fyrra, bæði hvað varðar launamál og starfsumhverfi kennara og „betri menntun“. Skömmu fyrr, eða í júní á síðasta ári, mælti Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, með fjölgun einkarekinna skóla og aukinni samkeppni á skólamarkaði. Þessar hugmyndir hafa reyndar fylgt flokknum allt frá þeim dögum að Björn Bjarnason, menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, innleiddi miklar breytingar á menntakerfinu á síðustu árum 20 aldarinnar. Í menntaumbótahugmyndum þess tíma var einmitt dregið úr miðstýringu, valmöguleikar auknir fyrir forráðamenn og börn og liðkað var fyrir einkarekstri á skólum. Þær breytingar sem voru innleiddar á tíunda áratugnum eiga rætur að rekja til alþjóðlegra hugmynda um menntaumbætur sem höfðu þegar haft mikil áhrif í fjölda landa. Bjarni Benediktsson og Halldór Halldórsson hafa, fyrir vikið, rétt fyrir sér þegar þeir benda til Norðurlandanna og Svíþjóðar, og draga þá ályktun að á Íslandi sé mun minna um einkarekna skóla en þar.
En það er líka ástæða til að skoða fullyrðingar þessara þriggja forsprakka eins mikilvægasta stjórnmálaflokks Íslands, um það að aukið valfrelsi og einkarekstur muni leiða til þeirra umbóta sem þeir vonast til þ.e.a.s. betri námsárangurs, aukinnar nýsköpunar og jafnvel hærri kennaralauna. Nú vill svo til að það er til urmull af rannsóknum um þessi mál, og reynslan frá Svíþjóð og öðrum löndum sýnir að það eru litlar líkur á því. Slíkar breytingar eru mun líklegri til að auka aðskilnað innan skólakerfisins hvað varðar námsárangur, jafnrétti og félagslegan bakgrunn nemenda.
Ég get varpað svolitlu ljósi á þetta þar sem ég starfa við rannsóknir á menntamálum í Svíþjóð, fyrrum fyrirmyndarlandi um aðgengilegt skólakerfi með jafnrétti og góðan námsárangur að marki. Svíþjóð er nú markaðsvæddasta menntakerfi heims og glímir við afleiðingar samskonar menntaumbóta og Sjálfstæðisflokkurinn vill innleiða. Miðstýring menntakerfisins var minnkuð til muna í Svíþjóð á níunda og tíunda áratugnum og fjárhagsleg ábyrgð færð yfir á sveitarfélögin. Einnig voru kynnt til sögunnar lög sem veittu einstaklingnum aukið valfrelsi og ýttu þannig undir samkeppni milli skóla um fjármagnið sem nemendur bera með sér. Þannig var opnað fyrir sjálfstætt rekna skóla sem fjármagnaðir eru með almannafé frá sveitarfélögunum gegnum einskonar ávísun eða „voucher“ sem fylgir nemandanum til þess skóla sem valinn er. Rökin sem voru færð fyrir breytingunum voru að þetta væri skref í rétta átt í frjálslyndu lýðræðissamfélagi þar sem þeim sem nýttu sér þjónustuna fengju meira vald. Að auki myndi það auka fjölbreytni í skólakerfinu þar sem fleiri væru um hituna og þyrftu að skapa nýjar hugmyndir og starfshætti til að lokka til sín kúnnana. Þetta myndi auka gæði skólastarfs og þekkingu nemendanna. Samkeppnin myndi að lokum verða til þess að lélegum skólum yrði lokað og aðeins þeir „góðu“ lifa af. Gagnrýnendum var bent á að ótti um að markaðsvæðing myndi leiða til aukinnar misskiptingar væri rakalaus. Frjálst val um skóla myndi vera verkfæri til að auka jafnrétti þar sem nemendur sem væru annars fastir í lélegum skólum í slæmum hverfum myndu geta valið að fara í betri skóla án nokkurs aukakostnaðar (skólakerfið sænska er enn nánast algjörlega gjaldfrjálst fyrir nemendur).
Staðan í dag er sú að sænska skólavalið hefur hvorki leitt til neinnar verulegrar nýsköpunar í skólastarfi eða kennslu þó færa megi rök fyrir að nýsköpun í markaðsherferðum skólanna hafi aukist til muna. Það eru ýmis merki um að aukin miðstýring sé að vaxa fram innan þessa annars dreifstýrða kerfis, annars vegar því ríkið þarf að þróa umsvifaríkt eftirlitskerfi til að fylgjast með gæðum starfsins og hins vegar vegna þess að rekstraraðilar einkarekinna skóla verða færri og stærri og fyrir vikið eru fleiri skólar sem starfa eins, einskonar McDonaldisering á skólakerfinu gegnum myndun skólakeðja. Sívaxandi hagnaður einkarekinna skóla, fjármagnaður af skattfé ætluðu til menntunar barna, er einnig þyrnir í augum kjósenda þótt flestir stjórnmálaflokkar hérlendis séu tregir til verka hvað það varðar. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að misskipting hefur aukist mjög á undanförnum 20 árum, bæði milli landsvæða, þar sem misstór sveitarfélög hafi mismikið bolmagn til að standa undir skólunum, innan borga og bæja, þar sem hverfamunur er mikill hvað varðar félagslegan bakgrunn nemanda, sem hefur bæði áhrif skólastarfið og orðstír skólanna, og námsárangur. Einnig hefur borið á því að einkareknir skólar neiti nemendum um skólavist ef nemendurnir teljast geta valdið fjárhagslegum eða skipulagslegum erfiðleikum (ss. nemendur með sérþarfir) og að einkareknir skólar skapi sér nýja markaði með aukinni aðlögun að sérstökum markhópum, t.d. þjóðarbakgrunn, trúarbrögð eða þörf fyrir einhverskonar sértæk úrræði. Þannig skapast markaður fyrir einskonar sérskóla, sem veldur minni fjölbreytni nemenda í skólakerfinu almennt en sérstaklega í einstökum skólum og minnkaðra úrræða til að glíma við sérþarfir þegar úrræðin safnast á einkarekna „sérskóla“.
Allt þetta stingur sérstaklega í stúf við hið gamla stolt sænska menntakerfisins, sem áður varðaði jöfn gæði náms og það að skólinn væri fyrir öll börn, sama hver bakgrunnur þerra væri eða hverjar þarfir þeirra væru. Hér átti framtíðarsamfélagið að mótast þar sem fjölbreyttur nemendahópur lærði að lifa og leika saman. Svíþjóð færist stöðugt fjær þeirri mynd og erfitt er að sjá hvernig þróuninni skal snúið við. Einnig má benda á að hrap Svíþjóðar á alþjóðlegum námsárangursprófum eins og PISA, helst í hendur við markaðsvæðingu kerfisins tímalega séð, svo ekki var markaðsvæðingin til neinnar jákvæðrar byltingar hvað námsárangur varðar. Nýjasta PISA könnunin bendir einnig til þess að munur milli barna með innflytjendabakgrunn og innlendan bakgrunn sé hvergi meiri en í Svíþjóð. Skólavalið hefur ýtt undir félagslega sorteringu á nemendum, börn efnaðra, hvítra svía sækja í sífellt meira mæli í ákveðna skóla meðan börn verr staddra forráðamanna og börn með erlendan bakgrunn safnast í aðra. Einnig hefur verðbólga hlaupið í einkunnir í kjölfar samkeppninnar og kennarar hafa meðal annars vakið athygli á þrýstingi frá skólastjórum og stjórnendum sem vilja halda einkunnum við ásættanleg mörk svo orðstír skólans beri ekki hnekki. Einkunnir skólanna eru því ekki alltaf í samræmi við þekkingu barnanna samkvæmt samræmdum prófum. Nýlega kom í ljós að börn úr einkareknum skólum hefja gjarnan háskólanám með hærri einkunnir en börn úr skólum reknum af sveitarfélögum en gengur verr í téðu háskólanámi sem ýtir niðurstöður rannsókna um að einkunnaverðbólgan sé stærra vandamál í einkareknu skólunum þótt hún sé vissulega til staðar í sveitarfélagaskólum.
Þá má einnig nefna að markaðsvæðingin hefur síst haldist í hendur við bætt laun og kjör kennara. Laun sænskra kennara hafa lækkað hlutfallslega miðað við sambærilegar stéttir i fjölda ára og það blasir við meiriháttar kennaraskortur. Aukin miðstýring í formi gæðamats og samræmdra mælikvarða, atriði sem eru nauðsyn í markaðsvæddu menntakerfi, hefur valdið því að kennarar hverfa úr starfi með tilvísun í að starfið þeirra sé í minnkandi mæli kennslustarf með börnum og í auknum mæli starf við skráningu og stöðlun, eitthvað sem verður seint talin betrumbót á starfsumhverfi eða hagkvæm nýting á tíma starfsmanna. Undanfarið hefur aukin samkeppni sveitarfélaganna um starfsfólk og eyrnamerkt fjármagn frá ríkinu, leitt til ákveðins launaskriðs meðal sumra kennarahópa en það er fátt sem bendir til þess að það dugi til þess að jafna stöðu þeirra eða auka nýliðun í kennarastéttinni að neinu marki. Hins vegar lítur út fyrir að félagslegur bakgrunnur kennara sé einnig orðinn þáttur í muninum milli skóla.
Nú eru þetta bara nokkru dæmi um hvaða áhrif aukin markaðsvæðing getur haft í einu skólakerfi. Samskonar reynslu má þó sjá ansi víða, t.d. í Bandaríkjunum og mörgum löndum í Suður-Ameríku. Það er alveg áreiðanlegt að þær tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn sendi frá sér, hafa ekki þau áhrif sem lofað er og þær eru mun líklegri til að auka misskiptingu í íslensku menntakerfi og samfélagi. Hugmyndin um að skóli án aðgreiningar sé „flókin í framkvæmd“ og þess vegna beri að fjölga skólum sem séu sérstílaðir á ákveðna nemendahópa eru síst til þess fallnar að auka aðgengi og jafnrétti og ganga í ofanálag í berhögg við alþjóðleg samkomulög sem Ísland hefur skrifað undir og fjalla um að skapa skóla sem kemur til móts við margbreytilegar þarfir allra einstaklinga. Hér færi betur að flokkurinn sem ber ábyrgð á menntastefnu Íslands megnið af síðastliðnum aldarfjórðungi færði skólunum úrræði til að takast á við þær áskoranir sem þeim er ætlað að glíma við.
Það er löngu kominn tími til þess að krefja stjórnmálamenn allra flokka um að benda til rannsókna og gagna sem þeir telja að renni stoðum undir þær hugmyndir sem þeir viðra, ekki síst hvað varðar menntakerfið sem virðist fast í eilífum kvölum milli steins og sleggju. Steinninn er myndlíking afskiptaleysis, fjársveltis og staðnaðra hugmynda um markmið og hlutverk menntunar. Sleggjan er hins vegar hin reglubundna og oft hugsunarlausa umbótamanía sem grípur stjórnmálamenn með jöfnu millibili og rekur þá til að senda frá sér vanhugsaðar og oft beinlínis afsannaðar tillögur. Það er mun líklegra til framfara að skilgreina vandamálin út frá þeim sem þekkja til starfseminnar og starfa í skólunum og sækja stuðning í rannsóknir en að leita að úrlausnum í afdankaðri hugmyndafræði.
Ég mæli með því að stjórnmálafólk sem leita vill leiða til að færa íslensk menntamál í betra horf noti eftirfarandi spurningar til að finna góðar hugmyndir og noti svo rannsóknir til að kanna gildi þeirra:
a) hvaða vandamál benda þau sem starfa innan skólanna á sem áríðandi að leysa, og hvaða tillögur hafa þau að lausnum?
b) hafa úrræði sem stungið er upp á verið prufuð einhvers staðar annars staðar, og hver voru áhrifin þar?
Höfundur er lektor í uppeldis- og sérkennslufræðum við Uppsala háskóla og í námskrár- og kennslufræðum við Háskólann í Mälardalen.