Er ekki bara eðlilegt að greiða fólki af erlendum uppruna, lægri laun en venjulegum Íslendingum? Þetta fólk kann yfirleitt ekki neina íslensku er ekki vant sömu þægindum og sættir sig líka hvort sem er við lakari kjör en við. Já svo kunna þau yfirleitt miklu betur að spara en við þannig að það er auðvelt fyrir þau að lifa af lágum launum. Hugmyndir af þessum toga lifa því miður góðu lífi í hugarheimi allt of margra.
Í janúar 2017 bjuggu ríflega fjörutíu þúsund innflytjendur í landinu, sem samsvarar um 12% af heildarmannfjölda. Þeim hafði fjölgað um rúmlega 80% frá aldamótum. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fluttu tæplega átta þúsund fleiri erlendir ríkisborgar til landsins en frá því árið 2017. Það þýðir að fjöldi innflytjenda, sem búsettir eru í landinu nálgast nú fimmtíu þúsund manns, sem er há tala í íslensku samhengi.
Í dag 21. mars er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynþáttafordómum/rasisma og mismunun. Við heyrum daglega af ofsóknum gegn minnihlutahópum, sem víða eiga í vök að verjast gegn yfirgangi, kúgun og arðráni ríkjandi valdhafa og stétta. Þetta er því miður hlutskipti margs fólks víðs vegar um heiminn. Í Evrópu eiga múslimar, Rómafólk og innflytjendur einkum í vök að verjast. Í Bandaríkjunum eru það ekki síst svartir Bandaríkjamenn, sem hafa búið við kúgun og arðrán í aldaraðir. Þar er rasisminn samofinn samfélagsgerðinni og síst á undanhaldi með núverandi valdhöfum, því miður. Rasismi er hugmyndafræði eða trúkerfi, sem grundvallast á þremur meginhugmyndum:
- Að mannkynið skiptist í náttúrlega flokka eftir líkamlegri gerð.
- Að líkamsgerð sé í beinum tengslum við menningu, persónuleika og greind.
- Að á grunni genetískra erfða hafi sumir hópar í eðli sínu yfirburði yfir aðra hópa.
Rasismi er stundum kallaður kynþáttafordómar, kynþáttamisrétti eða kynþáttahatur á íslensku. Hugtakið rasismi er víðara því það vísar bæði til hugmynda og hegðunar meðan íslensku hugtökin eru ekki eins skýr hvað þetta varðar. Rasískar flokkanir og hugmyndir byggja á mýtum, sem allar hafa verið hraktar. „Kynþættir“ eru fyrst og fremst félagslegir flokkar ekki líffræðilegir. Mannkynið er ein tegund og líkamlegt útlit, menningar- eða þjóðaruppruni hefur ekkert með vitsmunalega greind eða hæfni að gera. Rasisminn þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að kynda undir trú á eðlislægan mun milli hópa til að réttlæta mismunandi dreifingu gæða samfélagsins. Rasismi réttlætir því undirokun, útskúfun og jafnvel útrýmingu etnískra hópa og heilla þjóða.
Rasismi er á skala eða rófi, stundum minni og stundum meiri, stundum augljós stundum dulinn. Fordómar og mismunun gagnvart hverjum sem er, eru óásættanlegir og stríða gegn hugmyndum um mannvirðingu og jafnrétti, hvort tveggja þættir sem hafa mikla þýðingu fyrir flesta Íslendinga, alltént í orði kveðnu.
Það er rosalega auðvelt að vera á móti rasisma/mismunun í öðrum og fjarlægari samfélögum en manns eigin. Lítum okkur nær. Hvað með rasisma á Íslandi er hann til og hvernig birtist hann helst? Jú því miður er rasismi til á Íslandi og birtist leynt og ljóst hugmyndum „okkar“ um „hina“ sem á einhvern hátt eru öðruvísi og í hegðun okkar gagnvart þeim. Hann getur birst í margskonar vanvirðingu í tali og hegðun, t.d. þegar hörundsfölt fólk gerir klúrar lítilsvirðandi kynferðislegar athugasemdir við hörundsdökkt fólk. Þetta kom vel fram í frásögnum hörundsdökkra í #metoo byltingu kvenna af erlendum uppruna. Hann birtist í líka í láglaunastefnu gagnvart innflytjendum almennt og glerveggjum og girðingum, sem allt of margir þeirra mæta á vinnumarkaði. Asísk kona með viðskiptafræðimenntun, sem talar bæði íslensku og ensku reiprennandi ásamt fleiri tungumálum er boðið starf í ræstingum þegar hún sækir um starf sem viðskiptafræðingur. Skortur á framgangsmöguleikum og starfsþróun er því miður regla fremur en undantekning þegar innflytjendur eiga í hlut, þrátt fyrir að þeir hafi tilskylda menntun og tali góða íslensku. Fjölmargir innflytjendur hafa líka reynslu af því að vera hafnað í vinnu á grundvelli nafns síns og einskis annars. Launamismunun og undirboð og hvers konar arðrán á innflytjendum byggist því í raun og sann á rasískum hugmyndum.
Ljóst er að yfirstandandi hagvöxtur er ekki síst því að þakka að hingað hefur drifið að fólk erlendis frá til að vinna í ferðaþjónustu og fjölmörgum afleiddum störfum. Atvinnuþátttaka innflytjenda er með því hæsta sem gerist eða vel yfir 80%. Þeir eru ríflega 15% allra starfandi en dreifast þó afar ójafnt yfir vinnumarkaðinn, eru samþjappaðir í láglaunastörf þrátt fyrir margskonar menntun. Þrif og hreingerningar eru nánast alfarið í höndum aðfluttra starfsmanna, sem endasendast á milli vinnustaða, vinna alls staðar og hvergi og eru ekki hluti af neinum vinnustað. Þeir eru fjölmennir í byggingarvinnu, umönnunarstörfum og í hótel og veitingageiranum eru þeir um þriðjungur launþega samkvæmt opinberum tölum. Dreifing þeirra í stéttarfélög endurspeglar þetta.
Tæplega helmingur félagsmanna Eflingar stéttarfélags er fólk af erlendum uppruna þar af helmingurinn Pólverjar. Í Verkalýðs og sjómannafélagi Keflavíkur VSFK eru þeir ríflega helmingur í verkalýðsfélaginu Hlíf í Hafnarfirði um 40% og í Bárunni á Selfossi um 25%. Ríflega þriðjungur allra í Byggiðn, félagi byggingarmanna eru starfsmenn af erlendum uppruna. Í öðrum stéttarfélögum er hlutdeild þeirra miklu lægri, sums staðar nær engin líkt og í SFR en nær 10% í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og í VR svo dæmi séu tekin. Hlutur þeirra í flestum öðrum stéttarfélögum er lág eða hverfandi.
Er þessi þróun á vinnumarkaði þar sem innflytjendur finna sig í stórum meirihluta í láglaunastörfum óháð menntun og hæfni, æskileg? Hvaða afleiðingar mun það hafa ef hún heldur áfram óbreytt næstu áratugina?
Ef það er ekki ætluð stefna yfirvalda og vinnuveitenda, hvort heldur á hinum almenna markaði eða þeim opinbera að skapa aðskilinn vinnumarkað, sem hverfist um heimamenn versus aðflutt starfsfólk þá verður að gera viðhlítandi ráðstafanir til að nýta betur menntun og mannauðinn sem innflytjendur búa yfir og skapa þeim fleiri tækifæri. Það er vel við hæfi að hefja þá umræðu á alþjóðlegum baráttudegi gegn rasisma og mismunun.
Höfundur er doktor í menningarmannfræði.