Nú um helgina sendi Sjálfstæðisflokkurinn frá sér ályktun þar sem fram kemur sú stefna sem flokkurinn vill beita sér fyrir í íslensku menntakerfi (ályktunina má finna hér). Í kjarna þessarar menntastefnu endurspeglast hugmyndafræði (ný)frjálshyggju og einstaklingshyggju sem flokkurinn starfar eftir ásamt tillögum um að yfirfæra markaðslögmál yfir á íslenskt skólakerfi til þess að auka gæði menntunar og skólastarfs á Íslandi. Með markaðsvæðingu menntunar er annars vegar átt við að menntun sé mótuð eftir kröfum og þörfum viðskiptalífs og atvinnumarkaðarins, og hins vegar að skólastarf sé líkt meira eftir atvinnulífinu, með því að ýta undir meiri skilvirkni, sjálfstýringu, einstaklingsábyrgð, hagkvæmni, afköst og einsleitni í námi.
Útgangspunktur minn í þessum stutta pistli er að reyna útskýra hvers vegna þessar hugmyndir um að markaðsvæða menntun eru ekki til þess fallnar að vera íslensku skólakerfi, íslenskum börnum og íslensku samfélagi til bóta. Með því meina ég að afleiðingar þeirra hugmynda sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram um aukna samkeppni, fjölbreytt rekstrarform (einkavæðingu), gæðamat og mælikvarða (gjarnan kallað vélvæðing menntunar), stangast verulegu á við þá fullyrðingu sem flokkurinn leggur fram, að „Góð menntun er grundvallarforsenda jafnra tækifæra og lykill að lífsgæðum einstaklinga...“ (bls. 2). Að færa þá nálgun sem hér er fjallað um á skólastarf er öllu heldur til þess fallin að ýta undir að einstaklingar njóti frekar ójafnra tækifæra í samfélaginu til þess að öðlast frekari lífsgæði. Enn fremur, með því að líta á og móta menntun einungis út frá því markmiði að auka skilvirkni og framleiðni á sviðum efnahags, atvinnu- og viðskiptalífs, er með tímanum grafið undan lýðræðinu. Sú fullyrðing byggist á því að ef hlutverk skólastarfs er eingöngu til þess að undirbúa nemendur fyrir skilvirka og afkastamikla þátttöku í atvinnu- og viðskiptalífi, skerðist það rými sem einstaklingar fá í gegnum menntun til þess að rækta með sér þá flóknu hæfni sem þarf til að lifa í lýðræðissamfélagi; að móta eigin skoðanir, þjálfa gagnrýna hugsun og læsi, læra að lifa í margbreytilegu samfélagi, mynda tengsl við aðra, mótast sem einstaklingur í hnattrænu samfélagi, og takast á við ólík viðhorf, skoðanir og gildi – svo fátt eitt sé nefnt. Slíkir áfangar trúi ég ekki að náist fram með samkeppnishugmyndum í menntun.
Höfundur er meistaranemi í námskrárfræðum og krítískri kennslufræði með áherslu á lýðræði og borgaravitund við University of Toronto.