Umræða um menntamál hefur heldur betur farið á flug að undanförnu. Fyrirlagning samræmdra prófa, námsárangur nemenda, mælikvarðar um námsmat, staða kennara og þarfir og kröfur atvinnulífsins eru á meðal þess sem rætt er um.
Mitt í allri þessari umræðu gleymist oft að spyrja grundvalla spurninga? Spurningar þessar snúa fyrst og fremst að mennskunni og hinu góða lífi. Er ekki þegar upp er staðið hið góða líf það sem við öll sækjumst eftir? Hvernig kemur skólinn til móts við markmið um hið góða líf hjá nemendum sínum? Hvernig stuðlar spurning um merkingu orðatiltækisins „að gera glettingar“ á samræmdu prófi að hinu góða lífi svo dæmi sé tekið? Spurningar sem sjaldan heyrast eru þessar: Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu öllu saman? Hver er í grunninn tilgangurinn í skólastarfi yfirhöfuð? Hvers vegna þessar spurningar eru mikilvægar og hvers vegna þær eru sjaldan ef nokkurn tímann spurðar læt ég ykkur lesendur góðir eftir að svara. Með því að leita svara við þeim mætti e.t.v. finna grunn að bættu skólastarfi.
Hér verður ekki farið út í greiningu á þeim vanda sem íslensk menntayfirvöld standa frammi fyrir heldur í örstuttu máli gerð grein fyrir menntahugsjón sem Siðmennt hefur haldið uppi í námskeiðum sínum með ungu fólki s.l. 30 ár. Þar liggja til grundvallar pælingar um mikilvægi hins góða lífs og ekki er hikað við að spyrja um tilgang alls sem er.
Á undanförnum árum hafa hundruð foreldra barna á fjórtánda ári treyst Siðmennt fyrir hluta af menntun barnanna sinna. Það hefur gerst með svokölluðum fermingarnámskeiðum, en í síauknum mæli sækja börn þessi námskeið vegna námskeiðanna sjálfra án þess að fermast. Námskeiðin voru upphaflega skipulögð meðal annars með það að markmiði að fást við ýmsa mikilvæga þætti sem grunnskólinn sinnti lítið eða ekkert. Vissulega hefur nýjasta Aðalnámskrá grunnskólanna fitjað upp á ýmsu því sem húmanistar telja mikilvægt í menntun barna en aðeins að litlu leyti hefur það komist í framkvæmd.
Heimspekingurinn Immanúel Kant var einn af þeim sem lagði grunninn að menntahugsjón húmanismans með áherslum sínum á mikilvægi sjálfstæðrar hugsunar og rökræðu. „…hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!“ eru orð Kants sem lýsa í hnotskurn námskeiðum Siðmenntar. Markmið námskeiðanna eru í samræmi við skýrslu World Economic Forum um framtíð atvinnu á 21. öldinni og sagt var frá í Fréttatímanum 30. september 2016. Þar voru tilgreindir 10 mikilvægustu hæfileikar framtíðarinnar og af þessum tíu hæfileikum er markvisst unnið með fimm á námskeiðum Siðmenntar. Þessari hæfileikar eru: Gagnrýnin hugsun, skapandi hugsun, mannleg samskipti, að geta tekið ákvarðanir og að geta brugðist hratt við nýjum aðstæðum.
Það er sívaxandi krafa í samfélaginu um breytingar í þessa átt. Í Fréttablaðinu nýverið (24. mars s.l.) var fjallað um menntamál og fram kom í viðtali við móður og fimmtán ára dóttur hennar að þær myndu vilja sjá nám barnanna þannig „…að þau fái verkefni sem ganga út á að leysa áskoranir, verkefni í eigin samfélagi eða hugleiðingar sem eru heimspekilegs eðlis.“
Undir þetta má taka. Hugsunin sem er lykilþáttur í húmanískri menntahugsjón er of víða í skólum landsins vanrækt. Með því að efla hugsunina í samfélagi með öðrum er lagður grunnur að sjálfráða einstaklingum sem verða færari í að takast á við margbreytilegar áskoranir lífsins. Það getur verið þægilegt að þurfa ekkert að hugsa kom fram í máli Kants, en það er háskalegt sérhverjum einstaklingi og samfélaginu öllu.
Verkefni nútímans er því eftir sem áður að efla hugrekki nemenda til að nota eigið hyggjuvit í merkingarbæru námi.
Höfundur er kennari og formaður Siðmenntar