Í umræðunni um vegatolla hafa þeir verið nefndir sem lausn á nokkrum vandamálum.
Vegakerfið er vanfjármagnað.
Rafmagnsbílum fer fjölgandi á vegum landsins og þeir borga ekki bensíngjald.
AuglýsingHægt verður að fara í framkvæmdir sem annars hefði ekki verið hægt að fara í.
Loksins hægt að skattleggja ferðamenn sem aka um landið.
Vegatollar geta haft fjölþættan tilgang; að afla tekna, draga úr umferð og draga úr mengun. Í umræðunni hingað til hefur lítið heyrst varðandi seinni tvo þættina, en þeim mun meira um þann tilgang að minnka ímyndað forskot rafmagnsbílsins og vera auka tekjustofn fyrir ríkissjóð.
Það er kaldhæðnislegt að við skulum eiga alla þessa raforku, selja hana svo ódýrt en samt vera algerir eftirbátar þeirra landa sem við miðum okkur við í rafbílavæðingunni. Samt er hugurinn kominn á þann stað að það þurfi að skattleggja rafmagnsbílinn til að fjármagna vegina.
Hagkvæmasta skattheimtan?
Í umræðunni hefur hvergi komið fram hversu dýrt það er að innheimta vegatolla. Þegar ársreikningar Spalar, fyrirtækisins sem rekur Hvalfjarðargöng, eru skoðaðir gegnum árin sést að nær önnur hver króna sem innheimt er hefur farið í sjálfa innheimtuna. Hve stórt hlutfall úr skattheimtunni er ásættanlegt að fari í kostnaðinn við sjálfa skattheimtuna? Er ásættanlegt að allt kosti a.m.k. tvisvar sinnum meira en það þyrfti að kosta?
Vegaskattar geta nefnilega verið tvíþættir (e. Double Dividend) jafnvel þríþættir, annars vegar dregið úr umferð og hins vegar aukið tekjur ríkisins og gert því kleift að lækka aðra skatta sem eru meira truflandi fyrir hagkerfið. En ef markmiðið með vegatollunum er hvorki að draga úr umferð né minnka mengun, heldur einungis til að vera nýr skattur þá þarf að skoða það þannig.
Þess má geta að um áramótin átti að falla út undanþága bílaleiga frá tollum á innfluttum bifreiðum en ákveðið var að framlengja hana. Í stað þess að ná inn skatttekjum á einfaldan hátt á að fara að eltast við peningana með gjaldskýlum í stað þess að nota fyrirliggjandi kerfi.
Hver er að slíta vegunum svona mikið?
Vegaslit fer eftir öxulþunga í fjórða veldi. Það þýðir að tveggja tonna bíll slítur vegunum eins og sextán eins tonns bílar. Rúturnar sem eru að kæna um Árnessýsluna eru því stærstu notendurnir, en samt ákveður samgönguráðherra að halda áfram að undanskilja þær innflutningstollum.
Skattkerfið endurspeglar engan veginn þessa staðreynd og vegatollar taka ekkert tillit til þess hvað þungur bíll spænir upp miklu malbiki miðað við lítinn, nettan bíl.
Að drukkna í dísil
Ef við skoðum bifreiðatölur frá Samgöngustofu á fólksbílum sjáum við frekar uggvænlega þróun. Hlutfall nýskráðra bíla sem ganga fyrir dísil er komið upp í 47%. Hægt og bítandi er bílaflotinn í heild að nálgast þessa tölu. Við sjáum á línuritinu hvernig hlutfall fólksbíla sem ganga fyrir dísilolíu eykst ár frá ári. Ef ekki dregur úr nýskráningum á dísilbílum verður það fljótlega orðið þannig á Íslandi að annar hver bíll gengur fyrir dísil.
Hvað veldur?
Fólk velur með veskinu. Í dag eru dísilbílar ódýrari í rekstri því þú kemst lengra á lítranum. Það sést líka í bifreiðatölum að þeir sem eiga dísilbíl keyra að jafnaði um 30% meira en eigendur bíla sem ganga fyrir bensíni.
Hvað er til ráða?
Það þarf tafarlaust að hækka tolla á nýja innflutta dísilbíla, með það að markmiði að þeir verði nær eingöngu fluttir inn sem vinnutæki. Að auki endurspeglar verð á dísilolíu ekki þá mengun sem hún veldur.
Skattar eiga að hvetja fólk til að skipta yfir í umhverfisvænni ferðamáta, þá á ekki bara að nota til að skattleggja mengandi iðnaðinn heldur einnig til að niðurgreiða og greiða fyrir umhverfisvænni ferðamáta. Það er því með öllu rangt að ætla sér að ná í einhverjar krónur með því að búa til sérstakt innheimtukerfi með tilsvarandi kostnaði þegar ekkert mál er að nota fyrirliggjandi kerfi til að ná viðunandi ástandi.
Ef ekkert verður gert strax er framtíðin ansi rykmettuð.
Höfundur er umhverfis- og þróunar hagfræðingur.