Kynleg lög um menn

Jón Steindór Valdimarsson segir að það megi vel halda því fram að notkun orðsins maður í hegningarlögum og víða annars staðar í lögum og eldri textum hafi fyrst og fremst átt við karla eingöngu. Konur hafi einfaldlega hliðsettar og aukaatriði.

Auglýsing

Alþingi breytti skilgreiningu nauðgunar í hegningarlögum á fundi sínum þann 23. mars sl. Þar með er engum vafa undirorpið að sá sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við aðra án þess að fyrir liggi samþykki er sekur um nauðgun. Skilaboðin frá löggjafanum eru afar skýr og til þess fallin að hafa forvarnargildi auk þess sem lagaákvæðið sjálft er öllum auðskilið.

Skilgreining nauðgunar

Til glöggvunar er rétt að rifja upp gamla nauðgunarákvæðið í 194. grein. Það var svohljóðandi:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Auglýsing

Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“

Í gamla ákvæðinu er verknaðarlýsing í forgrunni, þ.e. ofbeldi, hótanir eða annars konar ólögmæt nauðung. Eftir breytinguna er samþykkið komið í aðalhlutverkið hljóðar ákvæðið þá svo [leturbreytingar eru höfundar]:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

Jákvæð viðbrögð, en hver er þessi maður?

Það vakti athygli mína að margar konur sem lýstu ánægju sinni með skýrt ákvæði um samþykki voru að sama skapi óánægðar með orðalag ákvæðisins. Það talaði ekki til allra vegna þess að þar væri talað um menn sem í huga margra þýddi bara karlmenn.

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun ...“

Orðanotkun ákvæðisins virðist ekki tala skýrt til kvenna. Gildir þá einu þó færð séu fram þau rök að konur séu líka menn. Rétt er að benda á að notkun orðsins maður við skilgreiningu nauðgunar er óbreytt frá því sem var fyrir þessa breytingu ákvæðisins í síðasta mánuði.

Orðið maður er tegundarheiti og tekur því til allra kynja, ungra og gamalla af þeirri tegund. Orðið maður er líka sérheiti yfir karl af tegundinni maður. Oftast þegar talað er um menn eða mann segir málvitund flestra að verið sé að vísa til karlmanna eða karlmanns. Fæstum dettur í hug að vísað sé til kvenna eða blandaðs hóps karla og kvenna þegar sagt er: Mennirnir komust allir í mark. Enginn myndi segja um hóp kvenna að þar væru saman komnir margir menn.

Er þá ástæða til þess að huga að orðalagi laga með það fyrir augum að gæta þess að þau falli betur að almennri málvitund um kyn og orðanotkun? Er heppilegt að nota orðið maður þegar það hefur tvíþætta merkingu en í almennu tali vísar það nær eingöngu til karla?

Eigi skal refsa manni ...

Athugasemdir kvennanna við orðalag nauðgunarákvæðisins kveiktu hjá mér áhuga á að skoða hegningarlögin með tilliti til orðanotkunar þegar vísað er til þess fólks sem fremur brot og verður fyrir brotum. Það fer ekki á milli mála að hegningarlögin nota orðið maður yfirleitt sem tegundarheiti sem er ætlað að taka til allra óháð kyni.

Til dæmis hefst fyrsta grein hegningarlaganna svo:

„Eigi skal refsa manni, nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem refsing er lögð við í lögum, eða má öldungis jafna til hegðunar, sem þar er afbrot talin.“

Engum lögfræðingi, lögmanni eða dómara blandast hugur um að hér sé vísað til allra, óháð kyni, og einnig í þau 262 skipti sem einhver beygingarmynd orðsins maður kemur fyrir í þeim rúmlega 260 greinum sem hegningarlögin hafa að geyma. Hið sama gildir um persónufornafnið hann í þau 271 skipti sem það kemur fyrir.

Orðið maður er þó ekki alltaf notað sem tegundarheiti í hegningarlögunum. Dæmi um það er 188. grein sem fjallar um sifskaparbrot, en þar segir í 3. mgr.:

„Ókvæntur maður eða ógift kona, sem gengur að eiga gifta konu eða kvæntan mann, skal sæta fangelsi allt að 1 ári.“

Hér er orðið maður notað um karl og fer það varla á milli mála í því samhengi sem það kemur fyrir. Í 25. grein er talað um eiginmann og eiginkonu og í 223. grein er talað um kvenmann svo nokkur dæmi séu tekin. Í 70. grein er talað um verknað sem beinist að karli, konu eða barni. Ekki er augljóst af hverju er ekki talað um verknað sem beinist að manni eða barni. Það væri í betra samræmi við notkun orðsins maður annars staðar í lögunum.

Þetta gæti verið fyrirsögn í blaði: „Maðurinn sem framdi brotið var dæmdur til þungrar refsingar og hefur hann þegar hafið afplánun." Það má fullyrða að ekki myndi hvarfla að nokkrum lesanda að um konu gæti verið að ræða, allir myndu telja að sá sem braut af sér væri karl. Samkvæmt orðfæri hegningarlaganna gæti þessi maður hins vegar verið hvers kyns sem væri. Hér er því augljóst ósamræmi milli orðfæris laga og almennrar málvitundar.

Spurningin er þá sú hvort þetta skipti einhverju máli ef lögin eru í reynd hlutlaus jafnvel þó þau stangist á við almenna málvitund og notkun orðsins maður í daglegu tali og ritmáli.

Lögin eiga að vera skýr og hlutlaus

Hefðir og venjur eru sterkar. Það á á líka við í lagamáli. Skýring og túlkun laga og dómar sem á þeim byggja eru þess eðlis að mikilvægt er að samfella sé í notkun og túlkun orða og hugtaka. Að sama skapi er mikilvægt að lögin séu skýr og skiljanleg þeim sem þau lesa.

Það má vel halda því fram að notkun orðsins maður í hegningarlögum og víða annars staðar í lögum og eldri textum hafi fyrst og fremst átt við karla eingöngu. Konur voru einfaldlega hliðsettar og aukaatriði, oftar en ekki réttlausar þegar grunnur var lagður að þeim textum þar sem orðið maður er notað. Gildir það jafnt um veraldlega sem trúarlega texta.

Það er full ástæða til þess að taka þessi mál til alvarlegrar skoðunar. Vel má hugsa sér að byrja á almennum hegningarlögum og fara yfir þau frá upphafi til enda með kynjagleraugum.

Eftir slíka skoðun gæti upphaf hegningarlaganna ef til vill hljóðað svo:

„Eigi skal refsa fólki, nema það hafi gerst sekt um háttsemi, sem refsing er lögð við í lögum, eða má öldungis jafna til hegðunar, sem þar er afbrot talin.“

Með sama hætti mætti hugsa sér að skilgreining nauðgunar í 194. grein hljóðaði svo:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við manneskju án samþykkis hennar gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manneskju til þess að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hana að öðru leyti að hún getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“

Væri ekki til bóta að færa tungutak laganna nær fólkinu og þar með fólkið nær lögunum?

Við viljum að við séum öll jöfn fyrir lögum. Mannréttindi og önnur réttindi sem við setjum með lögum taki til okkar allra og tali til okkar allra. Við viljum að lögin séu fyrir okkur og um okkur.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir
Er vegan börnum mismunað í skólum á Íslandi?
Kjarninn 17. maí 2021
Katrín mun ræða málefni Ísraels og Palestínu við Blinken og Lavrov í vikunni
Málefni Ísraels og Palestínu voru rædd á þingi í dag. Þingmenn Pírata og Viðreisnar kölluðu eftir því að stjórnvöld tækju af skarið og fordæmdu aðgerðir Ísraela í stað þess að bíða eftir öðrum þjóðum. Forsætisráðherra mun tala fyrir friðsamlegri lausn.
Kjarninn 17. maí 2021
Fjölskylda á flótta hefst við úti á götu í Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Útlendingastofnun setur hælisleitendum afarkosti: Covid-próf eða missa framfærslu
Útlendingastofnun er farin að setja fólki sem synjað er um vernd þá afarkosti að gangast undir COVID-próf ellegar missa framfærslu og jafnvel húsnæði. Í morgun var sýrlenskum hælisleitanda gert að pakka saman. „Hvar á hann að sofa í nótt?“
Kjarninn 17. maí 2021
Eurovision-hópurinn fékk undanþágu og fór fram fyrir í bólusetningu
RÚV fór fram á það við sóttvarnaryfirvöld að hópurinn sem opinbera fjölmiðlafyrirtækið sendi til Hollands til að taka þátt í, og fjalla um, Eurovision, myndi fá bólusetningu áður en þau færu. Við því var orðið.
Kjarninn 17. maí 2021
ÁTVR undirbýr nú lögbannsbeiðni á starfsemi vefverslana með áfengi.
ÁTVR ætlar að fara fram á lögbann á vefverslanir og undirbýr lögreglukæru
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins telur nauðsynlegt að fá úr því skorið hjá dómstólum hvort innlendar vefverslanir sem selja áfengi milliliðalaust til neytenda séu að starfa löglega, eins og rekstraraðilar þeirra vilja meina.
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Þór Þorvaldsson er framkvæmdastjóri Kaldalóns.
Kaldalón ætlar að skrá sig á aðallista Kauphallar Íslands árið 2022
Kaldalón hefur selt fasteignaþróunarverkefni í Vogabyggð og keypt tekjuberandi eignir í staðinn. Arion banki ætlar að sölutryggja fimm milljarða króna í nýtt hlutafé í tengslum við skráningu Kaldalóns á markað.
Kjarninn 17. maí 2021
Tækifæri í rafmyntaiðnaði til staðar meðan rafmyntir halda velli að mati ráðherra
Líklega mun hið opinbera nýta sér bálkakeðjutækni þegar fram líða stundir samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um rafmyntir. Ekki er þó enn útlit fyrir að rafmyntir taki við af hefðbundinni greiðslumiðlun í bráð.
Kjarninn 17. maí 2021
Viðar Hjartarson
Glæpur og refsing – Hugleiðingar vegna nýfallins dóms
Kjarninn 17. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar