Einkennishlutur nýhafinnar aldar er plastflaska. Í höndum skólafólks, á vinnustöðum, í metralöngum hillum verslana, á skyndibitastöðum, í höndum ferðmanna í skoðunarferðum og þannig mætti lengi telja. Í Bretlandi nemur framleiðslan minnst einum milljarði flaskna á ári. Hér hjá okkur nær fjöldinn milljónum en ólíkt Bretlandi náum við að senda mun meira af þeim til endurvinnslu en Bretar.
I. Óþarft er að fara með frekari tölur um þá mörgu milljarða tonna af plasti sem hafa verið grafin, lent í tjá og tundri í jarðvegi og hafnað út í sjó. Leikföng, fatnaður, húsgögn, plastpokar... alls konar vörur í það óendanlega. Jafn handhæg og plastefnin eru, valda þau miklum vandræðum með tímanum, þvert ofan í þá trú á framfarir sem blindaði mannfólkið með þeim hætti að einnota og margnota plasthlutum var hent eins og ekkert væri. Mjög víða gerist það enn, m.a. í flestum þróunarlöndum, þar sem drykkjarvatn er ýmist af skornum skammti eða mest af því ekki talið nothæft nema tappað á flöskur í verksmiðjum. Í gömlum og nýjum iðnríkjum er sala á drykkjum í plastflöskum stóriðnaður. Mest allar umbúðir utan um matvöru í verslunum og t.d. fatnað eru úr plasti. Á opnum mörkuðum er plastpokinn regla en aðrar umbúðir undantekning.
II. Söfnun til endurvinnslu drykkjavöruplasts spannar frá fáeinum prósentum, t.d í sumum Evrópurríkjum, upp í 70-90% á Norðurlöndum. Þá er ótalin önnur endurvinnsla plasts, t.d. vöruumbúða og plastpoka. Í fjölmennustu ríkjum heims, t.d. Kína, þar sem mikil endurvinnsla aðfengins plasts frá öðrum löndum fer fram, er innlend söfnun og endurvinnsla plasts enn á lágu stigi. Raunar er öll endurvinnsla efna, sem mun skipta sköpum um framtíð manna, því miður á lágu stigi, sé horft á veröldina. Ekki má heldur gleyma því að meginefni í plast koma úr jarðolíu.
III. Nú hafa margir, einkum séfræðingar til að byrja með, vaknað upp við vondan draum. Plasthlutir og plastagnir eru orðnar alvarleg mengun í umhverfi okkar.
Plast leysist illa eða ekki upp og viðbótarefni í plasti, m.a. litarefnin, eru sum hver óholl lífverum, loksins þegar þau smitast út í náttúruna. Megin mengun plasts næstu áratugi eða aldir stafar þó af beinu niðurbroti þess í stóra og smáa hluta, þeirra á meðal örsmáar agnir. Smæstu plastbútarnir, örplastið, lenda í vefjum plantna og smærri dýra. Örplast og stærri plasthlutar geta náð inn í innyfli og vefi fugla, fiska, skriðdýra, spendýra og að lokum manna, efst í fæðukeðjunni. Vera má að aðskotahlutir úr plasti leysist upp að einhverju leyti í meltingarfærum en mikið af plasti, einkum örögnunum, gerir það ekki en getur engu að síður valdið lífverum skaða.
IV. Töluverðar rannsóknir á viðbótarefnum í plasti hafa farið fram, svo sem litarefnum og mýkingarefnum. Við hitun eða vegna vökva og annarra efna í snertingu við plastumbúðir geta efnin losnað eða hvarfast og haft áhrif á lífverur. Þetta á t.d. við svokölluð bisfenól-efni sem notuð eru til að mýkja sumar gerðir umbúða. Grunur leikur á þau hafi áhrif á hormónastarfsemi manna og önnur aukaefni geta ýtt undir krabbameinsmyndun. Tek skýrt fram að leita þarf til rannsóknaraðila og setja sig inn í umræður sérfræðinga til þess að kynnast þessum þætti. Hér er minnst á efnafæðilega áhættu vegna plastnotkunar svo hún ekki gleymist í umræðunni.
V. Hér á landi hefur fallið til og fellur enn gríðarmikið af plasti miðað við íbúafjölda. Undanfarin hafur hefur söfnun og endurvinnsla þess aukist ár frá ári, einkum með tilkomu skilagjalds á flöskum og flokkunargáma í þéttbýli og dreifbýli. Miklu er samt fargað, m.a. með urðun heimilssorps, og með því að leyfa plastefnum að hverfa út í umhverfið. Nægir að benda á plast á ströndum og víðavangi í bæjum og sveitum landsins. Hver sá sem gengur um hverfi Reykjavíkur hlýtur að taka eftir plastruslinu sem sumarstarfsfólk við hreinsun og ploggarar hafa nóg með að hirða - svo ég minnist á minn heimabæ. Ég fullyrði að almenningur skuldi sjálfum sér mun meiri hirðusemi, séð í heild, en raun ber vitni.
VI. Mörg verkefni snúa að plastáþjáninni, sem ég hika ekki við að kalla plastvá. Samtímis árétta ég að skynsamleg notkun plasts og full endurvinnsla er hluti nútímasamfélags. Meðal annars þarf breytt neyslumynstur til þess að minnka plastnotkun. Það snýr að því að nota umbúðir og poka úr efnum fengnum með sjálfbærum nytjum í jurtaríkinu (plastígildi úr tréni, pappír, pappa ofl). Það snýr að því að verslanir leggi áherslu á ferskvöru og lausasölu matvöru eftir vigt (þar sem það á við) og minnki sóun. Það snýr að skilagjaldi á plasthlutum og sennilega þrepaskiptu banni við almennri notkun plastpoka undir margs konar vörur og í innkaupum. Þegar kemur að framleiðslu hluta úr plasti, eldhúsáhalda, leikfanga og ótal annarra vara verður að höfða jafnt til framleiðenda sem kaupenda um að hafa vistvæna stefnu í heiðri. Margt verður búið til úr plastefnum eftir sem áður og þá gildir að endurvinnsla bjargi sem mestu.
VII. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til næstu tæplega fjögurra ára stendur: „Ráðist verður í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda.“ Þau skref verður að undirbúa vandlega og vinna og kosta í samvinnu við marga aðila. Í september 2016 var gert samkomulag milli Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Samtaka verslunar og þjónustu um að draga markvisst úr notkun plastburðarpoka fram til ársloka 2019. Sýnist sem svo að það hafi einhvern árangur borið en betur má ef duga skal. Þingsályktunartillaga þess efnis að leita leiða til að banna notkunina liggur fyrir þinginu og á hún eftir að fá hefðbundna umfjöllun. Samvinnu þarf líka til á milli ríkja við norðanvert Atlantshaf til að snúast gegn plastmengun í hafi. Það varðar fljótandi plasthluti í sjó, strandhreinsun og plast á botni grunnsævis en líka rannsóknir, svo sem á örplasti í sjávarlífverum. Um það fjallar til að mynda þingsályktun sem Vestnorræna ráðið lagði fyrir þing landanna þriggja og verður væntanlega samþykkt þar. Einnig má minna á ályktun Norðurlandaráðs um að banna örplast í snyrtivörum. Margar alþjóðaályktanir um plastmengun eru til. Allt ber að sama brunni þótt hægt gangi: Plast sem efni í ótal hluti hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Nú gildir að uppræta sem mest af neikvæðum áhrifum plasts á umhverfið, við framleiðslu þess, notkun, förgun og endurvinnslu. Það er þverpólitískt verkefni og sameiginlegt okkur öllum.
Höfundur er þingmaður VG.